Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

6. KAFLI

Hjálpaðu unglingnum að þroskast

Hjálpaðu unglingnum að þroskast

1, 2. Hvaða erfiðleikar og gleði geta fylgt unglingsárunum?

 ÞAÐ er mikill munur á því að hafa ungling á heimilinu eða fimm til tíu ára barn. Unglingsárunum fylgja ýmsir erfiðleikar og vandamál en þau geta líka verið ánægjuleg og gefandi. Frásögurnar af Jósef, Davíð, Jósía og Tímóteusi sanna að ungt fólk getur verið ábyrgt og átt gott samband við Jehóva. (1. Mósebók 37:2-11; 1. Samúelsbók 16:11-13; 2. Konungabók 22:3-7; Postulasagan 16:1, 2) Hið sama er að segja um marga unglinga nú á dögum. Líklega þekkir þú einhverja þeirra.

2 En fyrir suma eru unglingsárin ólgutími og tilfinningasveiflurnar eru oft miklar. Unglingar vilja kannski aukið sjálfstæði og eru stundum ósáttir við þær hömlur sem foreldrarnir setja. En þeir eru óreyndir og þurfa á þolinmæði og kærleiksríkri leiðsögn foreldranna að halda. Já, unglingsárin geta verið spennandi en foreldrar og unglingar geta samt verið svolítið ráðvillt. Hvaða aðstoð er hægt að veita unglingum á þessum árum?

3. Hvernig geta foreldrar búið unglinga sem best undir lífið?

3 Það besta, sem foreldrar geta gert til að hjálpa unglingum að komast klakklaust í gegnum þessa erfiðleika og verða ábyrgir einstaklingar, er að fylgja leiðbeiningum Biblíunnar. Í aldanna rás hefur það alltaf verið til góðs fyrir foreldra og unglinga, hvar sem er í heiminum að fylgja meginreglum Biblíunnar í sameiningu. — Sálmur 119:1.

HREINSKILIN OG OPINSKÁ TJÁSKIPTI

4. Hvers vegna er sérstaklega mikilvægt að eiga góð tjáskipti við börnin á unglingsárunum?

4 „Áformin verða að engu, þar sem engin er ráðagerðin,“ segir Biblían. (Orðskviðirnir 15:22) Sé mikilvægt að ræða við börnin þegar þau eru ung er það enn mikilvægara á táningsárunum þegar þau eru sennilega minna heima en áður og meira með skólafélögum eða öðrum vinum. Unglingar geta orðið eins og ókunnugir á heimilinu ef samræður og skoðanaskipti milli þeirra og foreldranna eru lítil. En hvernig er hægt að viðhalda góðum tjáskiptum?

5. Hvernig ættu unglingar að líta á tjáskipti við foreldra sína?

5 Bæði unglingar og foreldrar verða að leggja sitt af mörkum. Unglingum getur auðvitað fundist erfiðara að tala við foreldrana núna en þegar þeir voru yngri. Mundu samt að „þar sem engin stjórn er, þar fellur þjóðin, en þar sem margir ráðgjafar eru, fer allt vel“. (Orðskviðirnir 11:14) Þessi orð eiga við alla, unga sem aldna. Unglingar, sem gera sér grein fyrir þessu, vita að þeir þurfa enn á góðri stjórn eða leiðsögn að halda þar sem þeir standa núna frammi fyrir flóknari málum en áður. Þeir ættu að viðurkenna að foreldrar þeirra eru hæfir ráðgjafar vegna þess að þeir hafa meiri lífsreynslu og hafa sannað umhyggju sína og ástúð árum saman. Skynsamir unglingar hætta því ekki að leita til foreldra sinna á unglingsárunum.

6. Hvernig líta skynsamir og kærleiksríkir foreldrar á tjáskiptin við unglingana?

6 Til að viðhalda góðum tjáskiptum ættu foreldrar að leggja sig fram um að vera alltaf tiltækir þegar unglingarnir vilja ræða málin. Foreldrar, þið þurfið að gæta þess að ekkert komi í veg fyrir að unglingarnir geti leitað til ykkar. Það er ekki alltaf auðvelt. Biblían segir: „Að þegja hefir sinn tíma og að tala hefir sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:7) Þegar unglingnum finnst tími til að tala gæti þér fundist vera tími til að þegja. Kannski hefur þú tekið frá tíma til að lesa og hugleiða, slaka á eða vinna ákveðin heimilisverk. En ef unglingurinn vill tala við þig skaltu reyna að vera sveigjanlegur og hlusta á hann. Annars er ekki víst að hann reyni aftur. Mundu eftir fordæmi Jesú. Einu sinni hafði hann tekið frá tíma til að slaka á. En þegar fólk hópaðist í kringum hann ákvað hann að hvíla sig seinna og tók að kenna því. (Markús 6:30-34) Flestir unglingar gera sér grein fyrir því að foreldrarnir eru oft uppteknir. Þeir þurfa samt að fá fullvissu fyrir því að þeir geti alltaf leitað til foreldra sinna þegar þeir þurfa á því að halda. Vertu því til taks og sýndu skilning.

7. Hvað ættu foreldrar að forðast?

7 Reyndu að muna hvernig það var að vera unglingur og glataðu ekki skopskyninu. Foreldrar ættu að hafa gaman af því að vera með börnunum. Hvernig notið þið foreldrar frítíma ykkar? Ef þið notið hann oftast til að gera eitthvað án fjölskyldunnar taka unglingarnir fljótt eftir því. Það er ávísun á vandræði ef unglingunum finnst skólafélagarnir hafa meira álit á sér en foreldrarnir.

HVAÐ ÆTTI AÐ RÆÐA?

8. Hvernig má brýna fyrir börnunum mikilvægi þess að vera heiðarleg og iðin og breyta rétt?

8 Ef foreldrar hafa ekki þegar kennt börnunum gildi þess að vera heiðarleg og iðjusöm ættu þeir svo sannarlega að gera það þegar börnin eru komin á unglingsaldur. (1. Þessaloníkubréf 4:11; 2. Þessaloníkubréf 3:10) Foreldrarnir þurfa líka að ganga úr skugga um að börnin trúi af öllu hjarta að það sé mikilvægt að lifa siðsömu og hreinu lífi. (Orðskviðirnir 20:11) Fordæmi foreldranna hefur mikið að segja á þessu sviði. Unglingar geta lært réttar lífsreglur af fordæmi þeirra rétt eins og vantrúaðir eiginmenn geta „unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna“. (1. Pétursbréf 3:1) En fordæmið eitt sér dugir samt ekki því að börnin sjá ótal slæm fordæmi utan heimilisins og lokkandi áróður flæðir yfir þau. Umhyggjusamir foreldrar þurfa því að vita hvaða skoðanir unglingarnir hafa á því sem þeir sjá og heyra og það kallar á innihaldsríkar samræður. — Orðskviðirnir 20:5.

9, 10. Hvers vegna ættu foreldrar að ræða við börnin sín um kynferðismál og hvernig gætu þeir gert það?

9 Þetta á sérstaklega við um kynferðismál. Finnst ykkur foreldrum vandræðalegt að ræða við börnin um þessi mál? Þið ættuð samt að leggja það á ykkur því að annars gætu börnin fengið alls konar rangar upplýsingar frá öðrum. Jehóva veigrar sér ekki við að fjalla um kynferðismál í Biblíunni og foreldrar ættu ekki heldur að færast undan slíkum umræðum. — Orðskviðirnir 4:1-4; 5:1-21.

10 Sem betur fer gefur Biblían skýrar leiðbeiningar um kynferðismál og Vottar Jehóva hafa gefið út mikið af gagnlegu efni sem sýnir fram á að þessar meginreglur eiga fyllilega við í nútímasamfélagi. Af hverju ekki að nýta sér þessi hjálpargögn? Í báðum bindum bókarinnar Spurningar unga fólksins — svör sem duga má til dæmis finna viðeigandi kafla sem þú getur farið yfir með syni þínum eða dóttur. Árangurinn gæti komið þér á óvart.

11. Hver er besta leiðin til að kenna börnum að þjóna Jehóva? 

11 Hvað er það mikilvægasta sem foreldrar og börn geta talað um? Páll postuli benti á það þegar hann skrifaði: „Alið [börnin] upp með aga og umvöndun Drottins.“ (Efesusbréfið 6:4) Börn þurfa að halda áfram að fræðast um Jehóva. Sérstaklega þurfa þau að læra að elska hann og þau ættu að vilja þjóna honum. Þetta er að miklu leyti hægt að kenna með góðu fordæmi. Ef unglingarnir sjá að foreldrar þeirra elska Guð ‚af öllu hjarta, allri sálu og öllum huga‘ og að það ber góðan ávöxt í lífi foreldranna gæti það verið unglingunum hvatning til að gera slíkt hið sama. (Matteus 22:37) Og ef unglingar sjá að foreldrarnir hafa heilbrigt viðhorf til efnislegra hluta og setja Guðsríki framar öðru í lífinu tileinka þeir sér frekar sama viðhorf. — Prédikarinn 7:12; Matteus 6:31-33.

12, 13. Hvað þarf að hafa í huga til að biblíunám fjölskyldunnar gangi vel?

12 Vikulegt biblíunám allrar fjölskyldunnar er mjög góð leið til að kenna unglingum trúarleg gildi. (Sálmur 119:33, 34; Orðskviðirnir 4:20-23) Slíkt biblíunám er nauðsynlegt. (Sálmur 1:1-3) Foreldrar og börn verða að skilja að þau ættu að skipuleggja annað með tilliti til fjölskyldunámsins en ekki öfugt. Auk þess verður að hafa rétt viðhorf til námsins til að það beri árangur. Faðir nokkur sagði: „Stjórnandinn þarf að sjá til þess að andrúmsloftið í fjölskyldunáminu sé afslappað en samt virðulegt — óformlegt án þess að vera frjálslegt úr hófi fram. Það er ekki alltaf auðvelt að finna rétta jafnvægið og oft þarf að leiðrétta viðhorf barnanna til námsins. Láttu ekki deigan síga þótt illa gangi í eitt eða tvö skipti. Horfðu frekar fram til næstu námsstundar.“ Þessi sami faðir sagði að fyrir fjölskyldunámið bæði hann Jehóva sérstaklega að hjálpa þeim öllum að hafa rétt hugarfar. — Sálmur 119:66.

13 Það er ábyrgð kristinna foreldra að fræða börnin um Biblíuna. Auðvitað eru ekki allir foreldrar sérlega færir kennarar og sumir geta átt erfitt með að gera námsstundina áhugaverða. En ef þú elskar börnin þín „í verki og sannleika“ langar þig í einlægni til að hjálpa þeim að þroskast í trúnni. (1. Jóhannesarbréf 3:18) Þau gætu kvartað við og við en sennilega sjá þau að þér er innilega annt um velferð þeirra.

14. Hvað getum við lært af 5. Mósebók 11:18, 19?

14 Biblíunám fjölskyldunnar er ekki eina tækifærið til að ræða um andleg mál. Manstu hvaða leiðbeiningar Jehóva gaf foreldrum? Hann sagði: „Fyrir því skuluð þér leggja þessi orð mín á hjarta yðar og huga, og þér skuluð binda þau til merkis á hönd yðar og hafa þau sem minningarbönd á milli augna yðar. Og þér skuluð kenna þau börnum yðar með því að tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ (5. Mósebók 11:18, 19; sjá einnig 5. Mósebók 6:6, 7.) Þetta þýðir ekki að foreldrar eigi að prédika yfir börnunum í tíma og ótíma. En þeir sem veita fjölskyldu forstöðu ættu alltaf að hafa augun opin fyrir tækifærum til að byggja upp trú fjölskyldunnar.

AGI OG VIRÐING

15, 16. (a) Hvað er agi? (b) Hver ber ábyrgð á því að veita aga og hver ber ábyrgð á að fara eftir honum?

15 Agi er leiðrétting og til að aga börnin þurfa foreldrar að eiga tjáskipti við þau. Agi er meira fólginn í leiðréttingu en refsingu, þótt refsing sé stundum nauðsynleg. Þegar börnin voru ung þurftu þau aga. Núna, þegar þau eru unglingar, þurfa þau enn aga í einhverju formi, jafnvel meira en áður. Skynsamir unglingar gera sér grein fyrir þessu.

16 „Afglapinn smáir aga föður síns, en sá sem tekur umvöndun, verður hygginn,“ segir Biblían. (Orðskviðirnir 15:5) Við lærum mikið af þessum ritningarstað. Hann gefur til kynna að beitt sé aga. Unglingur getur ekki ‚smáð aga‘ sem hann fær ekki. Jehóva leggur foreldrum á herðar að aga börnin og þá sérstaklega feðrum. Unglingurinn ber hins vegar ábyrgð á því að hlýða á agann. Hann lærir meira og gerir færri mistök ef hann tekur til sín viturlega ögun foreldra sinna. (Orðskviðirnir 1:8) Biblían segir: „Fátækt og smán hlýtur sá, er lætur áminning sem vind um eyrun þjóta, en sá sem tekur umvöndun, verður heiðraður.“ — Orðskviðirnir 13:18.

17. Hvaða jafnvægis þurfa foreldrar að gæta þegar þeir aga börnin?

17 Foreldrar þurfa að sýna jafnvægi þegar þeir aga unglingana. Þeir ættu ekki að vera svo strangir að þeir reiti börnin til reiði eða skaði jafnvel sjálfsmat þeirra. (Kólossubréfið 3:21) En þeir vilja ekki heldur vera svo undanlátsamir að börnin fari á mis við mikilvægan aga og aðhald. Slík undanlátsemi getur verið stórskaðleg. Orðskviðirnir 29:17 segja: „Agaðu son þinn, þá mun hann láta þig hafa ró og veita sál þinni unað.“ En vers 21 segir: „Dekri maður við þræl sinn frá barnæsku verður hann vanþakklátur að lokum.“ (Biblían 2007) Þó að hér sé verið að ræða um þræl á sama meginregla einnig við um unga fólkið á heimilinu.

18. Hvað sanna foreldrar með því að aga börnin og hvað fyrirbyggir stefnufastur agi?

18 Sé aga rétt beitt er hann í rauninni staðfesting á því að foreldrar elski börnin sín. (Hebreabréfið 12:6, 11) Foreldrar vita að það er erfitt að halda uppi stefnuföstum og sanngjörnum aga. Það getur virst auðveldara að halda friðinn með því að leyfa þrjóskum táningi að gera það sem honum sýnist. En foreldrar, sem gera það, munu að lokum gjalda þess með ófriðsömu heimilislífi. — Orðskviðirnir 29:15; Galatabréfið 6:9.

VINNA OG AFÞREYING

19, 20. Hvað er gott fyrir foreldra að hafa í huga í sambandi við afþreyingu unglinga?

19 Hér áður fyrr var yfirleitt ætlast til þess að börnin hjálpuðu til á heimilinu eða við búskapinn. Nú á dögum hafa margir unglingar hins vegar mikinn frítíma án þess að eftirlit sé haft með þeim. Viðskiptaheimurinn býður fram óhemjumikið af alls konar afþreyingu til að eyða frítímanum í. Og þegar á það er litið að siðferðisreglur Biblíunnar eru ekki hátt skrifaðar í heiminum er mikil hætta á ferðum.

20 Hyggnir foreldrar áskilja sér því þann rétt að eiga síðasta orðið um val á afþreyingu. Mundu samt að unglingurinn er að vaxa úr grasi. Með hverju árinu sem líður vonast hann eflaust til þess að komið sé meira fram við hann eins og fullorðinn einstakling. Það er því skynsamlegt af foreldrum að gefa unglingum meira frjálsræði með aldrinum til að velja sér afþreyingu — svo framarlega sem val þeirra sýnir að þeir eru að þroskast í trúnni. Stundum gæti unglingur samt tekið óviturlega ákvörðun varðandi tónlist, vini og svo framvegis. Ef það gerist ætti að ræða það við hann svo að hann geti tekið viturlegri ákvarðanir í framtíðinni.

21. Hvernig getur það verndað unglinginn að nota ekki of mikinn tíma fyrir afþreyingu?

21 Hversu mikinn tíma ætti að leyfa fyrir afþreyingu? Í sumum löndum er unglingum talin trú um að þeir eigi rétt á stöðugri skemmtun. Þeir gætu því skipulagt tíma sinn með það fyrir augum að skemmta sér daginn út og inn. Foreldrar bera ábyrgð á því að kenna börnunum að taka einnig frá tíma fyrir fjölskylduna, sjálfsnám, samveru við þroskuð trúsystkini, samkomur, heimilisstörf og fleira. Það kemur í veg fyrir að ‚nautnir lífsins‘ kæfi orð Guðs. — Lúkas 8:11-15.

22. Hvaða viðhorf ættu unglingar að temja sér til vinnu?

22 Salómon konungur sagði: „Ég komst að raun um, að ekkert er betra með þeim en að vera glaður og gæða sér meðan ævin endist. En það, að maður etur og drekkur og nýtur fagnaðar af öllu striti sínu, einnig það er Guðs gjöf.“ (Prédikarinn 3:12, 13) Já, það er hluti af heilbrigðu lífi að lyfta sér upp. En iðjusemi er það líka. Margir unglingar kynnast ekki gleðinni sem fylgir því að vera iðinn og vinnusamur eða sjálfsvirðingunni sem fylgir því að takast á við vandamál og leysa það. Sumir fá ekki tækifæri til að læra iðn eða afla sér fagkunnáttu sem þeir gætu notað til að framfleyta sér síðar á ævinni. Þetta getur verið áskorun fyrir foreldra. Ætlarðu að sjá til þess að barnið þitt fái slík tækifæri? Ef þú kennir unglingnum gildi þess að vinna og jafnvel hafa gaman af því tileinkar hann sér heilbrigð viðhorf sem hann nýtur góðs af alla ævi.

UNGLINGURINN VERÐUR FULLORÐINN

23. Hvernig geta foreldrar stutt við bakið á unglingunum?

23 Jafnvel þótt þú eigir í einhverjum vandræðum með unglinginn á sú meginregla alltaf við að „kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“. (1. Korintubréf 13:8) Hættu aldrei að sýna þá ást sem þú berð án efa til unglingsins. Spyrðu sjálfan þig: Hrósa ég börnunum hverju og einu þegar þau takast á við vandamál eða yfirstíga hindranir? Gríp ég þau tækifæri sem gefast til að sýna þeim ást og umhyggju áður en það er um seinan? Ef unglingurinn er sannfærður um að þér þyki vænt um hann er hann líklegri til að bera sömu tilfinningar til þín jafnvel þótt einhver ágreiningur komi stundum upp.

24. Hvaða meginregla gildir yfirleitt í sambandi við barnauppeldi en hvað ætti samt að hafa í huga?

24 Þegar börnin eldast fara þau að taka mikilvægar ákvarðanir upp á eigin spýtur. Stundum eru foreldrarnir ekki sammála þessum ákvörðunum, til dæmis ef barnið ákveður að hætta að þjóna Jehóva Guði. Það getur gerst. Sumir andasynir Jehóva höfnuðu meira að segja leiðbeiningum hans og gerðu uppreisn. (1. Mósebók 6:2; Júdasarbréfið 6) Börn eru ekki tölvur sem hægt er að forrita svo að þau hegði sér eins og við viljum. Þau eru einstaklingar með frjálsan vilja og þurfa að bera ábyrgð frammi fyrir Jehóva á ákvörðunum sínum. Meginreglan í Orðskviðunum 22:6 gildir samt yfirleitt: „Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“

25. Hver er besta leiðin til að sýna Jehóva þakklæti fyrir þá blessun að hafa eignast börn?

25 Sýndu börnunum því ómælda ást. Reyndu eftir fremsta megni að fylgja leiðbeiningum Biblíunnar þegar þú elur þau upp. Vertu til fyrirmyndar í kristnu líferni. Þannig skaparðu þeim eins góð skilyrði og mögulegt er til að verða ábyrgir og guðhræddir einstaklingar. Þetta er besta leiðin fyrir foreldra til að sýna Jehóva að þeir séu honum þakklátir fyrir börnin sem þeir eiga.