Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

VIÐAUKI

Fæddist Jesús í desember?

Fæddist Jesús í desember?

BIBLÍAN tiltekur ekki hvenær Jesús fæddist. Hún gefur okkur þó ærna ástæðu til að álykta að það hafi ekki verið í desember.

Við skulum kanna hvernig veðurfar var á þeim árstíma í Betlehem þar sem Jesús fæddist. Mánuðurinn kislev samkvæmt almanaki Gyðinga (samsvarar nóvember-desember) var kaldur og rigningasamur. Á eftir honum kom tebet-mánuður (desember-janúar) en þá var kaldast í veðri þar um slóðir og snjóaði stundum á hálendi. Athugum hvað Biblían segir um veðurfar á þessu svæði.

Hjá biblíuritaranum Esra kemur fram að kalsaveður og rigningar hafi verið tíðar í kislev-mánuði. Esra segir að mannfjöldi hafi safnast saman í Jerúsalem „í níunda mánuðinum [kislev], á tuttugasta degi mánaðarins“ og nefnir síðan að fólkið hafi verið „skjálfandi . . . af því að stórrigning var“. Fólkið sagði sjálft um veðrið á þessum árstíma að þetta væri „rigningatími, svo að vér getum ekki staðið úti“. (Esrabók 10:9, 13; Jeremía 36:22) Skiljanlegt er að fjárhirðar í þessum heimshluta hafi ekki verið úti undir berum himni með fénað sinn að næturlagi í desember.

Í Biblíunni kemur hins vegar fram að nóttina, sem Jesús fæddist, hafi fjárhirðar verið með fénað sinn úti í haga í grennd við Betlehem. Biblíuritarinn Lúkas segir: „Í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar“. (Lúkas 2:8-12) Fjárhirðarnir voru ekki bara á ferð með hjarðir sínar úti undir berum himni að degi til heldur líka að nóttu til. Ætli menn hafi verið utan dyra allan sólarhringinn í grennd við Betlehem í kalsaveðri og rigningatíð í desembermánuði? Nei, af þessari lýsingu má því ráða að Jesús hafi ekki fæðst í desember. *

Orð Guðs tiltekur nákvæmlega hvenær Jesús dó en gefur litlar beinar vísbendingar um það hvenær hann fæddist. Þetta minnir á orð Salómons konungs sem sagði: „Betra er gott mannorð en góð ilmsmyrsl og dauðadagur betri en fæðingardagur.“ (Prédikarinn 7:1) Það er því ósköp eðlilegt að Biblían skuli gefa miklar upplýsingar um þjónustu Jesú og dauða en segi fátt um fæðingartíma hans.

Fjárhirðar voru úti í haga með fénað sinn að nóttu til þegar Jesús fæddist.

^ gr. 1 Nánari upplýsingar er að finna á bls. 176-79 í bókinni Reasoning From the Scriptures, gefin út af Vottum Jehóva.