Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

1. KAFLI

„Þetta er Guð okkar!“

„Þetta er Guð okkar!“

1, 2. (a) Um hvað myndir þú vilja spyrja Guð? (b) Um hvað spurði Móse?

 GETURÐU ímyndað þér hvernig það væri að eiga samtal við Guð? Tilhugsunin vekur óttablandna lotningu – að alvaldur alheimsins skuli ávarpa þig! Þú hikar í fyrstu en síðan tekst þér að stynja upp svari. Hann hlustar, svarar og lætur þig jafnvel finna að þér sé óhætt að spyrja um hvað sem er. Um hvað myndirðu spyrja?

2 Endur fyrir löngu stóð maður nokkur í þessum sporum. Hann hét Móse. Það kemur þér kannski á óvart hvað hann kaus að spyrja Guð um því að hann spurði ekki um sjálfan sig, framtíð sína eða bágindi mannanna. Nei, hann spurði um nafn Guðs. Það kann að virðast undarlegt af því að hann vissi hvað Guð hét. Það hlýtur því að hafa búið eitthvað meira á bak við spurningu hans. Reyndar hefði Móse ekki getað spurt þýðingarmeiri spurningar. Og svarið snertir okkur öll. Það getur verið þér mikilvæg hjálp til að nálgast Guð. Hvernig þá? Lítum á þetta merkilega samtal.

3, 4. Hvaða atburðir leiddu til samtals Móse við Guð og hvert var inntak orðaskiptanna?

3 Móse var áttræður þegar þetta gerðist. Í fjóra áratugi hafði hann verið útlægur úr Egyptalandi þar sem þjóð hans, Ísraelsmenn, var í þrælkun. Dag nokkurn, er hann var að gæta sauða tengdaföður síns, sá hann undarlegt fyrirbæri. Þyrnirunni stóð í björtu báli án þess að brenna upp. Hann logaði hreinlega og lýsti eins og viti í fjallshlíðinni. Móse gekk nær til að kanna málið. Honum hlýtur að hafa brugðið þegar rödd tók að tala til hans úr miðjum eldsloganum. Guð og Móse áttu þar síðan samtal fyrir milligöngu engils. Og þú veist sjálfsagt að þarna fékk Guð hinum hikandi Móse það verkefni að kveðja þetta friðsæla líf og snúa aftur til Egyptalands til að frelsa Ísraelsmenn úr þrælkun. – 2. Mósebók 3:1–12.

4 Móse hefði getað spurt Guð um hvað sem var. En taktu eftir hvað hann kaus að spyrja um: „Segjum að ég fari til Ísraelsmanna og segi við þá: ‚Guð forfeðra ykkar sendi mig til ykkar.‘ Hverju á ég að svara þeim ef þeir spyrja: ‚Hvað heitir hann?‘“ – 2. Mósebók 3:13.

5, 6. (a) Hvaða einföld en mikilvæg sannindi má læra af spurningu Móse? (b) Hvaða ámælisverðu meðferð hefur nafn Guðs fengið? (c) Hvers vegna er það mikilvægt að Guð skuli hafa opinberað mönnum nafn sitt?

5 Þessi spurning kennir okkur fyrst og fremst að Guð á sér nafn. Þetta eru einföld en mikilvæg sannindi. Mörgum þykir þetta engu að síður lítilsvert. Eiginnafn Guðs er fellt niður í ótal biblíuþýðingum og titlar eins og „Drottinn“ og „Guð“ settir í staðinn. Þetta er eitt það dapurlegasta og ámælisverðasta sem gert hefur verið í nafni trúarbragðanna. Hvað er yfirleitt það fyrsta sem við gerum þegar við hittum ókunnuga? Segjum við ekki til nafns og spyrjum hvað viðmælandinn heiti? Sama gildir ef við viljum kynnast Guði. Hann er ekki nafnlaus og fjarlæg vera sem menn fá hvorki þekkt né skilið. Þó að hann sé ósýnilegur er hann raunveruleg persóna og ber nafn, og nafnið er Jehóva.

6 Með því að opinbera nafn sitt er Guð líka að bjóða okkur að kynnast sér. Það er hrífandi tilhugsun. Hann vill að við veljum besta kostinn í lífinu, þann að nálgast sig. En hann hefur gert meira en að segja okkur hvað hann heitir. Hann hefur líka upplýst okkur um persónuna að baki nafninu.

Merking nafnsins

7. (a) Hvað er talið að eiginnafn Guðs merki? (b) Hvað langaði Móse í raun og veru að vita þegar hann spurði um nafn Guðs?

7 Jehóva valdi sér sjálfur nafn og nafnið er mjög merkingarríkt. Talið er að „Jehóva“ merki „hann lætur verða“. Hann á engan sinn líka í alheiminum því að hann lét allt verða til. Hann lætur líka allt sem hann hefur fyrirhugað ná fram að ganga og hann getur meira að segja látið ófullkomna þjóna sína á jörð verða hvað sem hann vill. Þetta fyllir okkur lotningu. En hefur nafn Guðs breiðari merkingu? Móse langaði greinilega til að vita meira því að hann vissi að Jehóva er skaparinn og hann þekkti nafn hans. Nafn Guðs var ekki nýtilkomið. Fólk hafði notað nafnið öldum saman. Þegar Móse spurði um nafn Guðs var hann eiginlega að grennslast fyrir um persónuna sem bar þetta nafn. Hann var í rauninni að spyrja: Hvað get ég sagt þjóð þinni, Ísrael, um þig sem styrkir trú hennar á þig og sannfærir hana um að þú leysir hana úr þrælavistinni?

8, 9. (a) Hvernig svaraði Jehóva spurningu Móse og af hverju er ekki rétt að þýða það eins og oft hefur verið gert? (b) Hvað þýðir „ég verð það sem ég kýs að verða“?

8 Jehóva svaraði með því að opinbera mjög hrífandi þátt í fari sínu sem tengist merkingu nafns hans. Hann sagði við Móse: „Ég verð það sem ég kýs að verða.“ (2. Mósebók 3:14) Í mörgum biblíuþýðingum stendur: „Ég er sá, sem ég er.“ En vönduð þýðing sýnir að Guð var ekki eingöngu að staðfesta tilvist sína heldur að kenna Móse – og reyndar okkur öllum – að hann ‚kjósi að verða‘ hvaðeina sem er nauðsynlegt til að uppfylla loforð sín. Versið er hnitmiðað orðað í þýðingu J. B. Rotherhams: „Ég verð hvað sem mér þóknast.“ Sérfræðingur í biblíulegri hebresku útskýrir þennan setningarlið svo: „Óháð því hvaða aðstæður eða þörf skapast … ‚verður‘ Guð lausnin á því.“

9 Hvað þýddi þetta fyrir Ísraelsmenn? Það skipti engu máli hvaða hindranir yrðu á vegi þeirra eða hvaða erfiðleikum þeir lentu í því að Jehóva yrði alltaf hvaðeina sem á þyrfti að halda til að frelsa þá úr ánauðinni og leiða þá inn í fyrirheitna landið. Nafnið vakti traust á honum. Það getur gert það sama fyrir okkur. (Sálmur 9:10) Hvers vegna?

10, 11. Hvernig er nafn Jehóva okkur hvatning að hugsa um hann sem fjölhæfasta og besta föður sem hugsast getur? Lýstu með dæmi.

10 Lýsum þessu með dæmi: Foreldrar vita að þeir verða að vera fjölhæfir og sveigjanlegir við umönnun barnanna. Á einum og sama deginum getur foreldri þurft að hjúkra, matreiða, kenna, aga og úrskurða og er þá fátt eitt talið. Mörgum foreldrum hrýs næstum hugur við öllum þeim hlutverkum sem þeir þurfa að gegna. Þeir sjá hve skilyrðislaust ungviðið trúir þeim og treystir. Börnin efast aldrei um að pabbi eða mamma geti læknað „meiddið“, útkljáð ágreining, gert við leikfang eða svarað endalausum spurningum. Sumum foreldrum finnst þeir ekki standa undir væntingum og þeim gremst stundum takmarkanir sínar. Þeim finnst þeir illa í stakk búnir að gegna mörgum þessara hlutverka.

11 Jehóva er ástríkur faðir. En ólíkt mönnum er ekkert til sem hann getur ekki orðið, innan ramma fullkominna laga sinna, til að annast jarðnesk börn sín eins og best verður á kosið. Nafn hans, Jehóva, hvetur okkur því til að hugsa um hann sem besta föður sem völ er á. (Jakobsbréfið 1:17) Móse og aðrir trúfastir Ísraelsmenn komust fljótt að raun um að Jehóva er trúr nafni sínu. Með óttablandinni lotningu fylgdust þeir með því hvernig hann varð ósigrandi herforingi, herra náttúruaflanna og óviðjafnanlegur löggjafi, dómari og hönnuður. Hann gaf þeim fæðu og vatn og sá til þess að hvorki föt þeirra né skór slitnuðu.

12. Hvernig var afstaða faraós til Jehóva ólík afstöðu Móse?

12 Þannig hefur Guð kunngert nafn sitt, hann hefur opinberað hrífandi þátt í fari sínu og hann hefur jafnvel sýnt í verki að það sem hann segir um sjálfan sig er satt. Það fer ekki á milli mála að hann vill að við þekkjum sig. Og hvað gerum við þá? Móse langaði til að þekkja Guð. Þessi ákafa löngun mótaði ævi hans og varð til þess að hann bast himneskum föður sínum mjög sterkum böndum. (4. Mósebók 12:6–8; Hebreabréfið 11:27) Því miður höfðu fáir samtímamanna Móse þessa löngun. Þegar Móse nefndi Jehóva með nafni við faraó svaraði hinn hrokafulli einvaldur Egyptalands: „Hver er Jehóva?“ (2. Mósebók 5:2) Faraó vildi ekki vita meira um Jehóva. Þóttafullur lét hann eins og Guð Ísraels væri ómerkilegur og kæmi sér ekki við. Þetta er mjög útbreitt viðhorf nú á tímum og það blindar fólk fyrir einum mikilvægustu sannindum sem til eru – þeim að Jehóva er alvaldur Drottinn.

Alvaldur Drottinn Jehóva

13, 14. (a) Hvers vegna eru Jehóva gefnir margir titlar í Biblíunni? Nefndu nokkra þeirra. (Sjá  rammagrein á blaðsíðu 14.) (b) Hvers vegna getur enginn annar en Jehóva kallast „alvaldur Drottinn“?

13 Jehóva er svo fjölhæfur að honum eru gefnir margir titlar í Biblíunni. Þeir keppa ekki við eiginnafn hans heldur fræða okkur meira um persónuna að baki nafninu. Hann er til dæmis nefndur „alvaldur Drottinn Jehóva“. (2. Samúelsbók 7:22) Þessi háleiti titill kemur næstum þrjú hundruð sinnum fyrir í frumtexta Biblíunnar og segir okkur hver staða Jehóva er. Hann einn hefur rétt til að vera stjórnandi alheimsins. Ígrundum ástæðuna.

14 Jehóva er skaparinn og er því einstakur. Opinberunarbókin 4:11 segir: „Jehóva Guð okkar, þú ert þess verðugur að fá dýrðina, heiðurinn og máttinn því að þú skapaðir allt og að vilja þínum varð það til og var skapað.“ Þessi háleitu orð gætu ekki átt við nokkurn annan. Allt í alheiminum á tilveru sína Jehóva að þakka. Hann er tvímælalaust þess verðugur að fá þann heiður, mátt og dýrð sem fylgir því að vera alvaldur Drottinn og skapari allra hluta.

15. Hvers vegna er Jehóva nefndur „konungur eilífðar“?

15 „Konungur eilífðar“ er annar titill sem er eingöngu notaður um Jehóva. (1. Tímóteusarbréf 1:17; Opinberunarbókin 15:3) Hvað felst í honum? Hinn takmarkaði mannshugur á erfitt með að skilja það en Jehóva er eilífur – bæði frá fortíð og til framtíðar. „Frá eilífð til eilífðar ert þú Guð,“ segir Sálmur 90:2. Jehóva á sér sem sagt ekkert upphaf, hann hefur alltaf verið til. Hann er því réttilega nefndur „Hinn aldni“. Hann var til um eilífð áður en nokkur eða nokkuð annað í alheiminum varð til. (Daníel 7:9, 13, 22) Enginn getur með gildum rökum véfengt rétt hans til að vera alvaldur Drottinn.

16, 17. (a) Hvers vegna getum við ekki séð Jehóva og hvers vegna ætti það ekki að koma okkur á óvart? (b) Í hvaða skilningi er Jehóva raunverulegri en nokkuð sem við getum séð eða snert?

16 Engu að síður fara sumir að dæmi faraós og véfengja þennan rétt. Að hluta til má rekja það til þess að ófullkomnir menn leggja of mikið upp úr því sem þeir sjá með eigin augum. Við getum ekki séð alvaldan Drottinn. Hann er andi og er okkur ósýnilegur. (Jóhannes 4:24) Menn af holdi og blóði myndu ekki lifa það af að vera bókstaflega í návist Jehóva Guðs, enda sagði hann við Móse: „Þú getur ekki séð andlit mitt því að enginn maður getur séð mig og haldið lífi.“ – 2. Mósebók 33:20; Jóhannes 1:18.

17 Þetta ætti ekki að koma okkur á óvart. Móse fékk að sjá örlítið brot af dýrð Jehóva, að því er virðist fyrir milligöngu engils, með þeim afleiðingum að „geislum stafaði af andliti hans“ um stund á eftir. Ísraelsmenn þorðu jafnvel ekki að horfa beint framan í hann. (2. Mósebók 33:21–23; 34:5–7, 29, 30) Enginn venjulegur maður gæti horft á alvaldan Drottin í allri hans dýrð. Þýðir þetta að hann sé einhvern veginn óraunverulegri en það sem við getum séð og snert? Nei, við viðurkennum umyrðalaust að margt sem við sjáum ekki sé raunverulegt – svo sem vindur, útvarpsbylgjur og hugsanir. Og Jehóva er óumbreytanlegur; hann er sá sami þótt ár og aldir líði, jafnvel milljarðar ára. Í þeim skilningi er hann miklu raunverulegri en nokkuð sem við getum snert eða séð, af því að efnisheimurinn er því marki brenndur að eldast og ganga úr sér. (Matteus 6:19) En eigum við þá að hugsa um Guð sem óhlutbundið, ópersónulegt afl eða óljósa frumorsök? Skoðum málið.

Guð með persónuleika

18. Hvaða sýn fékk Esekíel að sjá og hvað tákna hin fjögur andlit ‚lifandi veranna‘ í návist Jehóva?

18 Þó að við getum ekki séð Guð bregður Biblían sums staðar upp hrífandi leiftursýn af því sem er á himni. Fyrsti kaflinn í Esekíel er dæmi um það. Esekíel fékk að sjá himneskan hluta alheimssafnaðar Jehóva í sýn þar sem hann birtist honum sem geysistór himnavagn. Spámaðurinn gefur áhrifamikla lýsingu á hinum voldugu andaverum umhverfis Jehóva. (Esekíel 1:4–10) Þessar „lifandi verur“ eru nátengdar Jehóva og útlit þeirra gefur okkur mikilvæga vitneskju um þann Guð sem þær þjóna. Allar hafa fjögur andlit – nautsandlit, ljónsandlit, arnarandlit og mannsandlit – sem tákna greinilega fjóra eiginleika sem eru undirstaða mikilfenglegs persónuleika Jehóva. – Opinberunarbókin 4:6–8, 10.

19. Hvaða eiginleika táknar (a) nautsandlitið? (b) ljónsandlitið? (c) arnarandlitið? (d) mannsandlitið?

19 Í Biblíunni er nautið oft notað til tákns um afl eða mátt, enda er nautið óhemjukröftugt. Ljónið táknar iðulega réttlæti af því að réttlæti kallar á hugrekki sem ljónið er annálað fyrir. Örninn er kunnur fyrir afar skarpa sjón – hann sér jafnvel örsmáa hluti úr margra kílómetra fjarlægð. Arnarandlit er því góð táknmynd um visku Guðs og skarpskyggni. En hvað um mannsandlitið? Maðurinn er gerður eftir Guðs mynd og er ólíkur skepnunum að því leyti að hann getur endurspeglað þann eiginleika Guðs sem hæst ber, kærleikann. (1. Mósebók 1:26) Þessir þættir í persónuleika Jehóva – máttur, réttlæti, viska og kærleikur – eru dregnir svo oft fram í Ritningunni að það má segja að þeir séu höfuðeiginleikar hans.

20. Þurfum við að hafa áhyggjur af því að persónuleiki Jehóva hafi ef til vill breyst? Á hverju byggirðu svarið?

20 Þurfum við að gera okkur áhyggjur af því að Guð hafi breyst á þeim árþúsundum sem liðnar eru síðan honum var lýst í Biblíunni? Nei, persónuleiki Guðs breytist ekki. Hann segir okkur: „Ég er Jehóva og ég breytist ekki.“ (Malakí 3:6) Jehóva breytir sér ekki af handahófi heldur bregst hann við hverju því sem upp kemur eins og fyrirmyndarfaðir. Hann dregur skýrt fram þá þætti í persónuleika sínum sem eiga best við hverju sinni. Af öllum eiginleikum Guðs er það kærleikurinn sem hæst ber. Hann er augljós í öllu sem Guð gerir. Jehóva beitir mætti sínum, réttlæti og visku á kærleiksríkan hátt. Reyndar stendur svolítið sérstakt í Biblíunni um Guð og þennan eiginleika. Þar segir: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Þar segir ekki að Guð búi yfir kærleika eða að Guð sé kærleiksríkur heldur að hann kærleikur. Kærleikurinn er innsta eðli hans og liggur að baki öllu sem hann gerir.

„Þetta er Guð okkar!“

21. Hvernig verður okkur innanbrjósts eftir því sem við kynnumst eiginleikum Jehóva betur?

21 Hefurðu séð lítið barn benda vinunum á pabba sinn og segja með einlægri gleði og stolti: „Þetta er pabbi minn“? Tilbiðjendur Guðs hafa ríka ástæðu til að bera sömu tilfinningar til föður síns á himnum. Biblían boðar þann tíma þegar trúfast fólk segir: „Þetta er Guð okkar!“ (Jesaja 25:8, 9) Því meiri innsýn sem þú færð í eiginleika Jehóva, þeim mun sterkari verður sú tilfinning þín að þú eigir besta föður sem hugsast getur.

22, 23. Hvernig mynd dregur Biblían upp af himneskum föður okkar og hvernig vitum við að hann vill að við eigum náið samband við sig?

22 Þessi faðir er ekki kuldalegur, fáskiptinn eða fjarlægur, þó að sumir strangtrúarmenn og heimspekingar kenni eitthvað í þá áttina. Við löðumst tæplega að kuldalegum Guði, og Biblían dregur ekki upp slíka mynd af himneskum föður okkar. Þvert á móti kallar hún hann ‚hinn hamingjusama Guð‘. (1. Tímóteusarbréf 1:11) Hann býr yfir bæði sterkum og blíðum tilfinningum. Um þann tíma þegar skynsemigæddar sköpunarverur hans gengu gegn þeim leiðbeiningum sem hann hafði gefið þeim til góðs lesum við: „Honum sárnaði í hjarta sínu.“ (1. Mósebók 6:6; Sálmur 78:41) En við ‚gleðjum hjarta hans‘ þegar við breytum viturlega í samræmi við orð hans. – Orðskviðirnir 27:11.

23 Faðir okkar á himnum vill að við eigum náið samband við sig. Orð hans hvetur okkur til að ‚þreifa okkur til hans og finna hann en reyndar er hann ekki langt frá neinum okkar‘. (Postulasagan 17:27) En hvernig geta lítilmótlegar mannverur nálgast hinn aldvalda Drottinn alheimsins?