24. KAFLI
Ekkert getur gert okkur „viðskila við kærleika Guðs“
1. Hvaða neikvæðu hugsanir sækja á marga, þar á meðal suma sannkristna menn?
ELSKAR Jehóva Guð þig persónulega? Sumir samsinna því að Guð elski mannkynið í heild eins og Jóhannes 3:16 segir en hugsa samt með sér: „Guð gæti aldrei elskað manneskju eins og mig.“ Sannkristnir menn gætu jafnvel fengið efasemdir af þessu tagi af og til. Niðurdreginn maður sagði: „Ég á mjög erfitt með að trúa að Guð beri nokkra umhyggju fyrir mér.“ Hugsar þú stundum eitthvað svipað?
2, 3. Hver vill telja okkur trú um að við séum einskis virði í augum Jehóva og ekki elskuverð, og hvernig getum við barist gegn þessari hugmynd?
2 Satan er mikið í mun að telja okkur trú um að Jehóva Guð hvorki elski okkur né meti nokkurs. Oft notfærir Satan sér hégómagirnd fólks eða stolt til að leiða það afvega. (2. Korintubréf 11:3) En hann nýtur þess líka að ræna fólk sjálfsvirðingunni ef hann getur. (Jóhannes 7:47–49; 8:13, 44) Hann leggur sig sérstaklega í líma við það núna á „síðustu dögum“ sem eru svo hættulegir. Margir alast upp á ‚kærleikslausum‘ heimilum og aðrir þurfa dagsdaglega að umgangast fólk sem er grimmt, eigingjarnt og þvert. (2. Tímóteusarbréf 3:1–5) Áralangar misþyrmingar, kynþáttafordómar eða hatur hafa sannfært margan manninn um að hann sé einskis virði og að enginn geti elskað hann.
3 En örvæntu ekki þó að slíkar tilfinningar sæki á þig. Mörgum hættir til að dæma sig óþarflega hart. Við skulum muna að orð Guðs hefur það hlutverk að „leiðrétta“ okkur og „brjóta niður sterkbyggð vígi“. (2. Tímóteusarbréf 3:16; 2. Korintubréf 10:4) Biblían segir að við „getum róað hjörtu okkar frammi fyrir Guði, hvað sem hjartað kann að dæma okkur fyrir, því að Guð er meiri en hjarta okkar og veit allt“. (1. Jóhannesarbréf 3:19, 20) Við skulum líta á fjögur dæmi um það hvernig við getum notað Biblíuna til að ‚róa hjörtu okkar‘ og sannfæra þau um kærleika Jehóva.
Við erum öll dýrmæt í augum Jehóva
4, 5. Hvernig sýnir samlíking Jesú við spörvana að við erum verðmæt í augum Jehóva?
4 Í fyrsta lagi kennir Biblían skýrt og greinilega að allir þjónar Guðs séu dýrmætir í augum hans. Jesús sagði til dæmis: „Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir einn smápening? Samt fellur enginn þeirra til jarðar án þess að faðir ykkar viti af því. En á ykkur eru jafnvel öll höfuðhárin talin. Verið því óhræddir, þið eruð meira virði en margir spörvar.“ (Matteus 10:29–31) Veltum aðeins fyrir okkur hvað þessi orð þýddu fyrir áheyrendur Jesú á fyrstu öld.
5 Okkur er kannski spurn hvernig nokkrum manni gat dottið í hug að kaupa spör. Á dögum Jesú var þetta ódýrasti matfugl sem fékkst. Fyrir einn smápening fengust tveir spörvar. En Jesús sagði síðar að fyrir tvo smápeninga fengjust fimm spörvar en ekki fjórir. Fimmti fuglinn fylgdi með í kaupbæti, rétt eins og hann væri verðlaus. Kannski voru þessir fuglar einskis virði í augum manna, en hvernig leit skaparinn á þá? Jesús sagði: „Samt gleymir Guð engum þeirra,“ ekki einu sinni þeim sem fylgdi með í kaupbæti. (Lúkas 12:6, 7) Nú förum við að átta okkur á því hvað Jesús var að fara. Fyrst Jehóva metur einn spör svona mikils hlýtur maðurinn að vera margfalt verðmætari í augum hans. Jehóva þekkir okkur í smáatriðum eins og Jesús sagði. Hárin á höfði okkar eru jafnvel talin!
6. Hvers vegna megum við vera viss um að Jesús hafi ekki verið að ýkja þegar hann sagði að höfuðhárin á okkur væru talin?
6 Eru hárin á höfði okkar talin? Einhverjum kann nú að þykja þetta vera ýkjur hjá Jesú. En hugsaðu til upprisunnar. Jehóva þarf að þekkja okkur býsna vel til að endurskapa okkur. Hann metur okkur svo mikils að hann man eftir hverju einasta smáatriði, þar á meðal erfðalyklinum og allri þeirri reynslu og þeim minningum sem við höfum safnað á ævinni. a Að telja höfuðhárin á okkur – sem eru að jafnaði um 100.000 á venjulegu höfði – hlýtur að vera einfalt mál í samanburði við það.
Hvað sér Jehóva við okkur?
7, 8. (a) Hvað hefur Jehóva yndi af að finna þegar hann rannsakar hjörtu mannanna? (b) Nefndu nokkur verk sem Jehóva kann að meta.
7 Í öðru lagi segir Biblían hvað það er sem Jehóva sér við þjóna sína. Hann gleðst einfaldlega yfir því að sjá hið góða í fari okkar og það sem við leggjum á okkur. „Jehóva rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hvatir og hugsanir,“ sagði Davíð konungur við Salómon son sinn. (1. Kroníkubók 28:9) Í heimi, þar sem ofbeldi og hatur ríkir, hlýtur það að gleðja Jehóva ósegjanlega að finna eitt og eitt mannshjarta meðal milljarða, sem ann friði, sannleika og réttlæti! Hvað gerist þegar Guð finnur manneskju sem elskar hann af öllu hjarta og leitast við að kynnast honum og segja öðrum frá honum? Jehóva segist gefa gaum að öllum sem segja öðrum frá honum. Hann heldur jafnvel „minnisbók“ um alla „sem óttast Jehóva og hugsa um nafn hans“. (Malakí 3:16) Honum þykir ákaflega vænt um slíkt fólk.
8 Af þeim góðu verkum, sem Jehóva kann að meta, má nefna viðleitni okkar til að líkja eftir syni hans, Jesú Kristi. (1. Pétursbréf 2:21) Annað mikilvægt verk, sem hann metur mikils, er boðun fagnaðarboðskaparins um ríkið. Við lesum í Rómverjabréfinu 10:15: „Hversu fagrir eru fætur þeirra sem flytja fagnaðarboðskap um hið góða.“ Yfirleitt hugsum við ekki um fætur okkar sem fagra. En hér tákna fæturnir viðleitni þjóna Jehóva til að boða fagnaðarboðskapinn. Öll slík viðleitni er fögur og dýrmæt í augum hans. – Matteus 24:14; 28:19, 20.
9, 10. (a) Hvers vegna getum við treyst að Jehóva kunni að meta þolgæði okkar í ýmiss konar prófraunum? (b) Hvernig hugsar Jehóva aldrei um trúa þjóna sína?
9 Jehóva kann líka vel að meta þolgæði okkar. (Matteus 24:13) Satan vill að þú snúir baki við Jehóva eins og þú manst. Hver dagur, sem þú sýnir Jehóva hollustu, er ákveðið svar við ögrunum Satans. (Orðskviðirnir 27:11) Það er ekki alltaf auðvelt að vera þolgóður. Heilsubrestur, fjárhagserfiðleikar, tilfinningaálag og aðrar þrautir geta verið þér prófraun hvern einasta dag. Langdregin eftirvænting getur líka verið letjandi. (Orðskviðirnir 13:12) Jehóva metur þolgæði þitt enn meir ef þú átt við slíkar þrautir að glíma. Það var þess vegna sem Davíð konungur bað Jehóva að safna tárum hans í „skinnbelg“ og bætti svo við að þau væru ‚skráð í bók hans‘. (Sálmur 56:8) Já, Jehóva man eftir og kann að meta öll þau tár sem við úthellum og þær þjáningar sem við þolum vegna hollustu okkar við hann.
Jehóva kann að meta þolgæði okkar í prófraunum.
10 En hjartað heldur kannski áfram að dæma þig og streitist á móti þegar þú sérð sannanir fyrir því að við erum verðmæt í augum Guðs. Það hvíslar stöðugt: „En það eru svo margir miklu betri en ég. Jehóva hlýtur að vera vonsvikinn þegar hann ber mig saman við þá.“ En Jehóva ber okkur ekki saman við aðra og hann er ekki strangur og óvæginn í hugsun. (Galatabréfið 6:4) Hann les hjörtu okkar af mikilli næmni og metur hið góða sem hann finnur – jafnvel hið smæsta.
Jehóva skilur hið góða frá hinu slæma
11. Hvað lærum við um Jehóva af miskunn hans við Abía?
11 Í þriðja lagi leitar Jehóva sérstaklega að hinu góða í fari okkar þegar hann rannsakar okkur. Tökum dæmi: Þegar hann úrskurðaði að allri ætt Jeróbóams konungs skyldi útrýmt fyrirskipaði hann að einn af sonum hans, Abía, skyldi fá sómasamlega greftrun. Hvers vegna? Vegna þess að ‚Jehóva Guð Ísraels hefur fundið eitthvað gott í honum.‘ (1. Konungabók 14:1, 10–13) Jehóva grannskoðaði hjarta unga mannsins og fann þar „eitthvað gott“. Hversu smátt eða ómerkilegt sem þetta var fannst Jehóva það þess virði að geta um það í orði sínu. Og hann umbunaði það með því að sýna vissa miskunn einum manni af þessari fráhvarfsætt.
12, 13. (a) Hvernig er Jósafat konungur dæmi um að Jehóva leitar að hinu góða í fari okkar, jafnvel þó að við syndgum? (b) Hvernig er Jehóva eins og stoltur faðir þegar hann sér góð verk okkar og eiginleika?
12 Jósafat konungur er enn skýrara dæmi um þetta. Hann var góður konungur en gerði heimskuleg mistök. Spámaður Jehóva sagði honum þá: „Þess vegna er Jehóva reiður út í þig.“ Hvílík tilhugsun! En Jehóva hafði fleira að segja. Spámaðurinn hélt áfram: „Samt hefur ýmislegt gott fundist í fari þínu.“ (2. Kroníkubók 19:1–3) Réttlát reiði Jehóva blindaði hann sem sagt ekki fyrir því góða sem fannst í fari Jósafats. Þetta er harla ólíkt ófullkomnum mönnum. Þegar við reiðumst öðrum hættir okkur til að verða blind á hið góða í fari þeirra. Og þegar við syndgum geta vonbrigðin, skömmin og sektarkenndin blindað okkur fyrir hinu góða í fari sjálfra okkar. En munum að Jehóva fyrirgefur okkur ef við iðrumst synda okkar og leggjum okkur fram um að endurtaka þær ekki.
13 Þegar Jehóva rannsakar þig má segja að hann kasti burt slíkum syndum, ekki ósvipað og gullleitarmaður kastar verðlausri möl. En hvað um góð verk þín og eiginleika? Það eru gullkornin sem hann varðveitir. Hefurðu tekið eftir hve vænt foreldrum þykir um teikningar eða verkefni barna sinna frá því þau voru í skóla? Oft geyma þeir þau í áratugi eftir að börnin eru búin að gleyma þeim. Jehóva er eins og stoltur faðir. Ef við erum honum trúföst gleymir hann aldrei góðum verkum okkar og eiginleikum. Hann myndi telja það ranglátt að gleyma þeim og hann er aldrei ranglátur. (Hebreabréfið 6:10) En hann rannsakar okkur einnig á annan hátt.
14, 15. (a) Hvers vegna er Jehóva ekki blindur á hið góða í okkur, þó að við séum ófullkomin? Lýstu með dæmi. (b) Hvað gerir Jehóva úr hinu góða sem hann sér í okkur og hvernig lítur hann á trúa þjóna sína?
14 Jehóva lítur fram hjá ófullkomleikanum og horfir á möguleika okkar. Lýsum þessu með dæmi: Listunnendur leggja mikið á sig til að gera við skemmd málverk eða önnur listaverk. Fyrir allnokkrum árum skemmdi maður vopnaður haglabyssu teikningu eftir Leonardo da Vinci í National Gallery í Lundúnum. Teikningin var metin á næstum 2,3 milljarða íslenskra króna. Engum datt í hug að henda myndinni úr því að hún var skemmd heldur hófust menn þegar í stað handa við að gera við meistaraverkið sem var nærri 500 ára gamalt. Hvers vegna? Vegna þess að það var dýrmætt í augum listunnenda. Ert þú ekki meira virði en krítar- og kolateikning? Þú ert það sannarlega í augum Guðs, hversu skemmdur sem þú ert af völdum hins arfgenga ófullkomleika. (Sálmur 72:12–14) Jehóva Guð, hinn snjalli skapari mannkynsins, mun gera hvaðeina sem nauðsynlegt er til að „gera við“ skemmdirnar og veita öllum fullkomleika sem þiggja kærleika hans. – Postulasagan 3:21; Rómverjabréfið 8:20–22.
15 Já, Jehóva sér hið góða í okkur þó að við sjáum það kannski ekki sjálf. Og þegar við þjónum honum lætur hann þetta góða vaxa uns við verðum að lokum fullkomin. Það skiptir ekki máli hvernig heimur Satans hefur farið með okkur því að trúir þjónar Jehóva eru gersemar í augum hans. – Haggaí 2:7.
Jehóva sýnir kærleika sinn í verki
16. Hver er sterkasta sönnunin fyrir því að Jehóva elski okkur og hvernig vitum við að þessi gjöf er ætluð okkur persónulega?
16 Í fjórða lagi gerir Jehóva margt til að sanna að hann elski okkur. Lausnarfórn Jesú er vissulega áhrifamesta svarið við þeirri lygi Satans að við séum einskis virði eða ekki sé hægt að elska okkur. Við skulum aldrei gleyma að kvalafullur dauði Jesú á aftökustaurnum og enn meiri kvöl Jehóva er hann horfði upp á ástkæran son sinn deyja er sönnun fyrir því að þeir elski okkur. Margir eiga því miður erfitt með að trúa að þessi gjöf geti verið ætluð þeim persónulega. Þeim finnst þeir ekki verðugir hennar. En munum að Páll postuli ofsótti einu sinni fylgjendur Krists. Samt sem áður skrifaði hann: „[Sonur Guðs] elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.“ – Galatabréfið 1:13; 2:20.
17. Hvernig dregur Jehóva okkur til sín og sonar síns?
17 Jehóva sannar að hann elski okkur með því að hjálpa okkur persónulega að njóta góðs af fórn Krists. „Enginn getur komið til mín nema faðirinn sem sendi mig dragi hann,“ sagði Jesús. (Jóhannes 6:44) Já, Jehóva dregur okkur persónulega til sonar síns og til vonarinnar um eilífa lífið. Hvernig? Með boðuninni sem nær til okkar persónulega, og með heilögum anda sem hann notar til að hjálpa okkur að skilja og tileinka okkur andleg sannindi, þó að við séum ófullkomin og takmörkuð. Jehóva getur því sagt um okkur eins og hann sagði um Ísrael: „Ég hef elskað þig með eilífri ást. Þess vegna hef ég dregið þig til mín með tryggum kærleika.“ – Jeremía 31:3.
18, 19. (a) Hvernig finnum við hvað sterkast fyrir því að Jehóva elskar okkur, og hvað sýnir að hann annast þetta persónulega? (b) Hvernig fullvissar orð Guðs okkur um að hann hlusti með samkennd?
18 Trúlega er það þó í bæninni sem við finnum sterkast fyrir því að Jehóva elskar okkur. Biblían hvetur okkur til að ‚biðja stöðugt‘ til hans. (1. Þessaloníkubréf 5:17) Hann hlustar. Biblían segir að hann ‚heyri bænir‘. (Sálmur 65:2) Hann hefur ekki falið neinum öðrum þetta verkefni, ekki einu sinni syni sínum. Hugsaðu þér: Skapari alheims hvetur þig til að koma til sín í bæn og tala frjálslega við sig. Og hvers konar áheyrandi er hann? Er hann kuldalegur, áhugalaus eða fálátur? Alls ekki.
19 Jehóva býr yfir samkennd. Hvað er samkennd? Aldraður kristinn maður sagði: „Samkennd er kvöl þín í hjarta mér.“ Hefur kvöl okkar virkilega áhrif á Jehóva? Við lesum um þjáningar Ísraelsmanna: „Allt sem þjakaði þá þjakaði hann.“ (Jesaja 63:9) Jehóva sá ekki bara neyð fólks síns heldur fann til með því. Hann lýsir því sjálfur hve sterkt hann lifir sig inn í líðan þjóna sinna er hann segir: „Sá sem snertir ykkur snertir augastein minn.“ b (Sakaría 2:8) Það hlýtur að vera sárt! Já, Jehóva finnur til með okkur. Hann þjáist þegar við þjáumst.
20. Hvað verðum við að forðast í samræmi við Rómverjabréfið 12:3?
20 Allt eru þetta merki um að Jehóva elski þjóna sína og meti þá mikils. En enginn andlega þroskaður kristinn maður myndi nota sér þetta sem afsökun fyrir stolti eða sjálfsþótta. Páll postuli skrifaði: „Vegna þeirrar einstöku góðvildar sem mér er gefin segi ég ykkur öllum að líta ekki of stórt á sjálf ykkur heldur vera raunsæ í samræmi við þá trú sem Guð hefur gefið ykkur hverju og einu.“ (Rómverjabréfið 12:3) Í annarri biblíuþýðingu segir: „Ég vil segja ykkur hverjum og einum að ofmeta ekki sjálfan sig, heldur meta sig skynsamlega.“ (Charles B. Williams. A Translation in the Language of the People) Við njótum þess að ylja okkur við ást föðurins á himnum en gætum þess að hugsa skynsamlega og hafa hugfast að við verðskuldum ekki kærleika Guðs og getum ekki áunnið okkur hann. – Lúkas 17:10.
21. Hvaða lygi Satans verðum við að hafna og hvaða sannindi geta friðað hjörtu okkar?
21 Gerum allt sem í okkar valdi stendur til að vísa lygum Satans á bug, þar á meðal þeirri lygi að við séum einskis virði og ekki elskuverð. Ef lífið hefur kennt þér að þú sért óverðugur þess að njóta kærleika Guðs, eða að góð verk þín séu of lítilfjörleg til að alsjáandi augu hans taki eftir þeim, eða þá að syndir þínar séu alvarlegri en svo að dauði hins elskaða sonar hans nái að breiða yfir þær, þá hefur verið logið að þér. Hafnaðu slíkum lygum af öllu hjarta! Höldum áfram að friða hjörtu okkar með þeim sannleika sem Páli var innblásið að skrifa: „Ég er sannfærður um að hvorki dauði né líf, englar né stjórnvöld, það sem nú er né það sem er ókomið, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað geti gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni okkar.“ – Rómverjabréfið 8:38, 39.
a Biblían setur upprisuvonina margoft í samband við minni Jehóva. Hinn trúfasti Job sagði við Jehóva: „Bara að þú vildir … setja mér tímamörk og muna eftir mér.“ (Jobsbók 14:13) Jesús sagði að „allir sem eru í minningargröfunum“ myndu rísa upp. Það er vel við hæfi því að Jehóva man fullkomlega eftir þeim sem hann ætlar að reisa upp frá dauðum. – Jóhannes 5:28, 29.
b Sumar biblíuþýðingar gefa í skyn að sá sem snertir fólk Guðs sé ekki að snerta auga Guðs heldur Ísraels eða sitt eigið. Þessa villu má rekja aftur til ritara sem breyttu versinu þegar þeir reyndu að „lagfæra“ ritningargreinar sem þeir töldu óvirðulegar. Með því drógu þeir úr kraftinum í persónulegri samkennd Jehóva.