Síðari Konungabók 23:1–37
23 Konungur sendi nú boð og kallaði saman alla öldungana í Júda og Jerúsalem.+
2 Síðan gekk konungur upp til húss Jehóva ásamt öllum Júdamönnum, öllum íbúum Jerúsalem, prestunum og spámönnunum – öllu fólkinu, ungum og gömlum. Hann las upp fyrir fólkið allt sem stóð í sáttmálsbókinni+ sem hafði fundist í húsi Jehóva.+
3 Konungurinn stóð við súluna og gerði sáttmála* frammi fyrir Jehóva+ um að fylgja Jehóva og halda boðorð hans, fyrirmæli og ákvæði af öllu hjarta og allri sál.* Hann lofaði að framfylgja því sem kveðið var á um í sáttmálanum sem var skráður í þessari bók. Allt fólkið gekkst undir sáttmálann.+
4 Konungur skipaði síðan Hilkía+ æðstapresti, óæðri prestunum og dyravörðunum að fjarlægja úr musteri Jehóva öll áhöldin sem höfðu verið gerð handa Baal, helgistólpanum*+ og öllum her himinsins. Síðan brenndi hann þau fyrir utan Jerúsalem í hlíðum* Kedrondals og fór með öskuna til Betel.+
5 Hann rak falsguðaprestana sem Júdakonungar höfðu skipað og höfðu fært fórnir* á fórnarhæðunum í borgum Júda og í nágrenni Jerúsalem. Hann rak einnig þá sem færðu fórnir handa Baal, sólinni, tunglinu, stjörnumerkjum dýrahringsins og öllum her himinsins.+
6 Hann flutti helgistólpann*+ út úr húsi Jehóva, út fyrir Jerúsalem, og brenndi hann+ í Kedrondal. Hann muldi hann mélinu smærra og dreifði duftinu yfir grafir almúgans.+
7 Í húsi Jehóva reif hann einnig húsakynni mannanna sem stunduðu musterisvændi,+ en þar ófu konur líka tjöld fyrir helgistólpann.*
8 Því næst flutti hann alla prestana út úr borgum Júda og afhelgaði* fórnarhæðirnar þar sem prestarnir höfðu fært fórnir, allt frá Geba+ til Beerseba.+ Hann reif líka niður fórnarhæðirnar sem voru fyrir utan hlið Jósúa borgarstjóra, á vinstri hönd þegar gengið var inn um borgarhliðið.
9 Prestar fórnarhæðanna máttu ekki þjóna við altari Jehóva í Jerúsalem+ en þeir fengu samt að borða ósýrt brauð með bræðrum sínum.
10 Hann afhelgaði einnig Tófet+ í Hinnomssonadal*+ svo að enginn gæti fórnað syni sínum eða dóttur í eldi* fyrir Mólek.+
11 Hann sá til þess að hestarnir sem Júdakonungar höfðu helgað* sólinni fengju ekki að koma inn í hús Jehóva gegnum herbergi* Netans Meleks hirðmanns í súlnagöngunum. Og sólvagnana+ brenndi hann í eldi.
12 Konungurinn reif einnig niður ölturun sem Júdakonungar höfðu reist á þakinu+ á loftstofu Akasar og ölturun sem Manasse hafði reist í báðum forgörðum húss Jehóva.+ Hann braut þau og dreifði duftinu í Kedrondal.
13 Konungurinn afhelgaði fórnarhæðirnar rétt fyrir utan Jerúsalem, sunnan* við Fjall eyðingarinnar,* en Salómon Ísraelskonungur hafði reist þær handa Astarte, hinni viðbjóðslegu gyðju Sídoninga, Kamosi, hinum viðbjóðslega guði Móabs, og Milkóm,+ hinum viðurstyggilega guði Ammóníta.+
14 Hann mölbraut helgisúlurnar og hjó niður helgistólpana*+ og þakti staðinn þar sem þeir höfðu verið með mannabeinum.
15 Hann reif líka niður altarið í Betel, fórnarhæðina sem Jeróbóam Nebatsson hafði reist og fékk Ísrael til að syndga.+ Þegar hann hafði rifið niður altarið og fórnarhæðina brenndi hann fórnarhæðina, muldi allt mélinu smærra og brenndi helgistólpann.*+
16 Þegar Jósía sneri sér við og sá grafirnar á fjallinu lét hann fjarlægja beinin úr gröfunum. Hann brenndi þau á altarinu og afhelgaði það eins og Jehóva hafði boðað fyrir milligöngu manns hins sanna Guðs sem sagði þessa hluti fyrir.+
17 Síðan spurði hann: „Hvaða legsteinn er þetta sem ég sé þarna?“ Borgarmenn svöruðu: „Þetta er gröf manns hins sanna Guðs frá Júda+ sem sagði fyrir það sem þú hefur gert við altarið í Betel.“
18 Þá sagði hann: „Látið hann hvíla í friði. Enginn má hreyfa við beinum hans.“ Þeir létu þá bein hans í friði og sömuleiðis bein spámannsins sem kom frá Samaríu.+
19 Jósía fjarlægði einnig öll hofin á fórnarhæðunum í borgum Samaríu,+ þau sem Ísraelskonungar höfðu reist og þannig misboðið Guði. Hann fór eins að og í Betel.+
20 Öllum prestum fórnarhæðanna sem voru þar fórnaði hann á ölturunum og hann brenndi mannabein á þeim.+ Síðan sneri hann aftur til Jerúsalem.
21 Konungurinn skipaði öllu fólkinu: „Haldið páska+ fyrir Jehóva Guð ykkar eins og stendur í þessari sáttmálsbók.“+
22 Slík páskahátíð hafði ekki verið haldin frá því að dómararnir dæmdu í Ísrael og aldrei á dögum Ísraelskonunga og Júdakonunga.+
23 En nú, á 18. stjórnarári Jósía konungs, var slík páskahátíð haldin í Jerúsalem, Jehóva til heiðurs.
24 Jósía útrýmdi líka andamiðlunum, spásagnarmönnunum,+ húsgoðunum,*+ viðbjóðslegu skurðgoðunum* og allri þeirri viðurstyggð sem fyrirfannst í Júda og Jerúsalem. Þannig fylgdi hann fyrirmælum laganna+ sem voru skráð í bókinni sem Hilkía prestur hafði fundið í húsi Jehóva.+
25 Enginn konungur á undan honum hafði verið eins og hann og snúið aftur til Jehóva af öllu hjarta, allri sál*+ og öllum mætti og fylgt öllum Móselögunum. Eftir hann kom heldur enginn sem jafnaðist á við hann.
26 Jehóva lét samt ekki af brennandi reiði sinni sem blossaði upp gegn Júda vegna þess sem Manasse gerði. Hann gerði svo margt illt sem misbauð honum.+
27 Jehóva sagði: „Ég ætla einnig að reka Júda úr augsýn minni,+ alveg eins og ég gerði við Ísrael.+ Ég mun hafna Jerúsalem, borginni sem ég valdi, og húsinu sem ég sagði um: ‚Þar skal nafn mitt vera.‘“+
28 Það sem er ósagt af sögu Jósía og öllu sem hann gerði er skráð í bókinni um sögu Júdakonunga.
29 Á hans dögum fór Nekó faraó Egyptalandskonungur að Efratfljóti til móts við Assýríukonung. Jósía konungur fór til að berjast við hann en Nekó drap hann við Megiddó+ um leið og hann sá hann.
30 Þjónar hans fluttu lík hans á vagni frá Megiddó til Jerúsalem og jörðuðu hann í gröf hans. Fólkið í landinu smurði síðan Jóahas son Jósía og gerði hann að konungi í stað föður hans.+
31 Jóahas+ var 23 ára þegar hann varð konungur og hann ríkti í þrjá mánuði í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal+ og var dóttir Jeremía frá Líbna.
32 Hann gerði það sem var illt í augum Jehóva, alveg eins og forfeður hans höfðu gert.+
33 Nekó faraó+ lét varpa honum í fangelsi í Ribla+ í Hamathéraði svo að hann gæti ekki ríkt í Jerúsalem. Síðan lagði hann sekt á landið, 100 talentur* af silfri og eina talentu af gulli.+
34 Nekó faraó gerði Eljakím Jósíason að konungi í stað Jósía föður hans og breytti nafni hans í Jójakím. En hann tók Jóahas með sér til Egyptalands+ og þar dó hann.+
35 Jójakím greiddi faraó silfrið og gullið en þurfti að skattleggja landið til að geta greitt silfrið sem faraó krafðist. Hann innheimti silfur og gull af öllum íbúum landsins í samræmi við fjárhag hvers og eins og greiddi það síðan Nekó faraó.
36 Jójakím+ var 25 ára þegar hann varð konungur og hann ríkti í 11 ár í Jerúsalem.+ Móðir hans hét Sebúdda og var dóttir Pedaja frá Rúma.
37 Hann gerði það sem var illt í augum Jehóva,+ alveg eins og forfeður hans höfðu gert.+
Neðanmáls
^ Eða „endurnýjaði sáttmálann“.
^ Sjá orðaskýringar.
^ Eða „gróðurstöllum“.
^ Sjá orðaskýringar.
^ Eða „fórnarreyk“.
^ Sjá orðaskýringar.
^ Sjá orðaskýringar.
^ Það er, gerði þær ónothæfar til tilbeiðslu.
^ Sjá orðaskýringar, „Gehenna“.
^ Orðrétt „látið son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn“.
^ Orðrétt „gefið“.
^ Eða „matsal“.
^ Orðrétt „hægra megin“. Suður er til hægri þegar maður snýr í austur.
^ Það er, Olíufjallið, einkum syðsti hluti þess, einnig nefndur Skaðræðisfjall.
^ Sjá orðaskýringar.
^ Sjá orðaskýringar.
^ Eða „skurðgoðunum“.
^ Hebreska orðið lýsir fyrirlitningu. Hugsanlegt er að það sé skylt orði sem merkir ‚mykja‘.
^ Sjá orðaskýringar.
^ Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.