Jeremía 38:1–28
38 Sefatja Mattansson, Gedalja Pashúrsson, Júkal+ Selemjason og Pashúr+ Malkíason heyrðu það sem Jeremía sagði við allt fólkið:
2 „Jehóva segir: ‚Sá sem verður um kyrrt í þessari borg fellur fyrir sverði, hungursneyð og drepsótt.*+ En sá sem gefst upp fyrir Kaldeum* heldur lífi. Hann fær líf sitt að herfangi og kemst lífs af.‘+
3 Jehóva segir: ‚Þessi borg verður gefin her Babýlonarkonungs á vald og hann vinnur hana.‘“+
4 Höfðingjarnir sögðu við konung: „Láttu taka þennan mann af lífi.+ Hann dregur úr baráttuhug* hermannanna sem eftir eru í borginni og alls fólksins með því að tala á þessa leið. Þessi maður vill ekki að fólkið búi við frið heldur hörmungar.“
5 Sedekía konungur svaraði: „Hann er á ykkar valdi því að konungurinn getur ekkert gert til að stöðva ykkur.“
6 Þá tóku þeir Jeremía og hentu honum í gryfju* Malkía konungssonar í Varðgarðinum.+ Þeir létu Jeremía síga niður í reipum. Í gryfjunni var ekkert vatn, bara leðja, og Jeremía sökk ofan í leðjuna.
7 Ebed Melek,+ eþíópískur geldingur* í konungshöllinni,* frétti að Jeremía hefði verið hent ofan í gryfjuna. Konungur sat þá í Benjamínshliði+
8 og Ebed Melek fór úr konungshöllinni* til að tala við konung. Hann sagði:
9 „Herra minn og konungur, það sem þessir menn hafa gert Jeremía spámanni er hræðilegt! Þeir hentu honum í gryfjuna þar sem hann á eftir að deyja úr hungri því að ekkert brauð er eftir í borginni.“+
10 Konungur skipaði þá Ebed Melek Eþíópíumanni: „Taktu með þér 30 menn héðan og hífðu Jeremía spámann upp úr gryfjunni áður en hann deyr.“
11 Ebed Melek tók þá mennina með sér og fór inn í konungshöllina,* inn í herbergi undir fjárhirslunni,+ og þeir tóku þaðan slitna fataræfla og gamla tötra og létu þá síga í reipum niður í gryfjuna til Jeremía.
12 Síðan sagði Ebed Melek Eþíópíumaður við Jeremía: „Settu fataræflana og tötrana milli handarkrikanna og reipanna.“ Jeremía gerði það
13 og þeir hífðu hann upp með reipunum og drógu hann upp úr gryfjunni. Jeremía var síðan áfram í Varðgarðinum.+
14 Sedekía konungur sendi eftir Jeremía spámanni og lét hann koma til sín að þriðja innganginum í húsi Jehóva. Konungur sagði við Jeremía: „Mig langar að spyrja þig að svolitlu. Leyndu mig engu.“
15 Jeremía svaraði Sedekía: „Þú drepur mig ef ég svara þér og ef ég gef þér ráð hlustarðu ekki á mig.“
16 Þá sór Sedekía konungur Jeremía leynilegan eið: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir, hann sem gaf okkur lífið, mun ég ekki drepa þig og ekki gefa þig í hendur þessara manna sem sækjast eftir lífi þínu.“
17 Jeremía sagði þá við Sedekía: „Jehóva, Guð hersveitanna, Guð Ísraels, segir: ‚Ef þú gefst upp fyrir höfðingjum Babýlonarkonungs heldurðu lífi og þessi borg verður ekki brennd til grunna. Bæði þér og heimilisfólki þínu verður þyrmt.+
18 En ef þú gefst ekki upp fyrir höfðingjum Babýlonarkonungs verður þessi borg gefin í hendur Kaldea. Þeir munu brenna hana til grunna+ og þú kemst ekki undan þeim.‘“+
19 Þá sagði Sedekía konungur við Jeremía: „Ég er hræddur við Gyðingana sem hafa gengið í lið með Kaldeum. Þeir gætu farið illa með mig ef ég verð gefinn í hendur þeirra.“
20 En Jeremía sagði: „Þú verður ekki gefinn í hendur þeirra. Hlýddu rödd Jehóva með því að gera það sem ég segi þér. Þá farnast þér vel og þú heldur lífi.
21 En ef þú neitar að gefast upp hefur Jehóva opinberað mér þetta:
22 Allar konurnar sem eru eftir í höll* Júdakonungs verða leiddar út til höfðingja Babýlonarkonungs.+ Þær segja:
‚Mennirnir sem þú treystir* hafa blekkt þig og borið þig ofurliði.+
Þeirra vegna eru fætur þínir sokknir í leðjuna.
Nú hafa þeir hörfað frá þér.‘
23 Allar konur þínar og synir verða leidd út til Kaldea og þú kemst ekki undan þeim heldur mun konungur Babýlonar taka þig til fanga+ og þín vegna verður þessi borg brennd til grunna.“+
24 Þá sagði Sedekía við Jeremía: „Enginn má vita um þetta því að annars deyrðu.
25 Ef höfðingjarnir frétta að ég hafi talað við þig og koma til þín og segja: ‚Segðu okkur hvað þú sagðir við konunginn. Leyndu okkur engu, þá þyrmum við lífi þínu.+ Hvað sagði konungurinn við þig?‘
26 þá skaltu svara þeim: ‚Ég bað konung að senda mig ekki aftur í hús Jónatans til að deyja þar.‘“+
27 Ekki leið á löngu þar til allir höfðingjarnir komu til Jeremía og spurðu hann. Hann sagði þeim nákvæmlega það sem konungur hafði skipað honum að segja. Þeir létu hann þá í friði því að enginn hafði heyrt samtalið.
28 Jeremía var áfram í Varðgarðinum+ allt til þess dags þegar Jerúsalem var unnin. Já, hann var þar enn þegar Jerúsalem var unnin.+
Neðanmáls
^ Eða „sjúkdómi“.
^ Orðrétt „fer út til Kaldea“.
^ Orðrétt „veikir hendur“.
^ Eða „vatnsþró“.
^ Eða „hirðmaður“.
^ Orðrétt „húsi konungs“.
^ Orðrétt „húsi konungs“.
^ Orðrétt „hús konungs“.
^ Orðrétt „húsi“.
^ Eða „sem voru þér vinveittir“.