Kvíði hjá karlmönnum – hvaða hjálp veitir Biblían?
Þegar þú hugsar um einstakling sem glímir við kvíða a sérðu kannski fyrir þér einhvern sem er lamaður af ótta, kemst varla fram úr rúminu á morgnana eða talar endalaust um áhyggjur sínar.
Sumt fólk bregst þannig við þegar það tekst á við kvíða. En rannsóknarmenn hafa komist að því að aðrir – sérstaklega karlmenn – geti haft tilhneigingu til að bregðast öðruvísi við. Í skýrslu einni segir að menn „séu líklegri til að nota áfengi, lyf eða eiturlyf til að takast á við kvíða, þannig að það sem lítur út fyrir að vera áfengisvandamál geti í raun verið undirliggjandi kvíðaröskun. Og kvíði hjá karlmönnum birtist oft sem reiði og skapstyggð.“
Það bregðast auðvitað ekki allir karlmenn eins við. En burtséð frá viðbrögðum hvers og eins þá er kvíði vaxandi vandamál á þessum ‚hættulegu og erfiðu tímum‘. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Getur Biblían komið þér að gagni ef þú ert að glíma við kvíða?
Gagnleg ráð frá Biblíunni í baráttunni við kvíða
Biblían hefur að geyma mikið af áreiðanlegum ráðum sem geta komið að gagni þegar við erum kvíðin. Skoðum fáein dæmi.
1. „Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum því að morgundeginum fylgja sínar áhyggjur. Hverjum degi nægja sín vandamál.“ – Matteus 6:34.
Hvað merkir það? Við sýnum skynsemi þegar við forðumst óhóflegar áhyggjur um það hvað geti (eða geti ekki) gerst í framtíðinni. Oft fara hlutirnir ekki á þann veg sem við bjuggumst við. Í sumum tilfellum breytast þeir óvænt til hins betra.
Prófaðu eftirfarandi: Rifjaðu upp tilvik þegar þú varst viss um að eitthvað slæmt myndi gerast en það gerðist ekki. Reyndu síðan að meta áhyggjur þínar núna og vera eins raunsær og mögulegt er þegar þú hugleiðir hvort um meiri háttar erfiðleika verði að ræða.
2. „Járn brýnir járn og maður brýnir vin.“ – Orðskviðirnir 27:17.
Hvað merkir það? Aðrir geta hjálpað okkur að takast á við kvíða – ef við leyfum þeim það. Þeir gætu gefið okkur gagnleg ráð byggð á eigin reynslu. Þeir gætu hugsanlega í það minnsta hjálpað okkur að sjá málin frá öðru sjónarhorni.
Prófaðu eftirfarandi: Veltu því fyrir þér hver gæti gefið þér gott ráð, eins og til dæmis vinur sem hefur tekist á við svipað vandamál og þú. Spurðu hann hvað hjálpaði honum eða hvað reyndist gagnslaust.
3. „Varpið öllum áhyggjum [kvíða] ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ – 1. Pétursbréf 5:7, neðanmáls.
Hvað merkir það? Guði er innilega annt um þá sem þjást. Hann býður okkur að leita til sín í bæn varðandi allt sem íþyngir okkur.
Prófaðu eftirfarandi: Skrifaðu lista yfir það sem veldur þér kvíða. Leitaðu til Guðs í bæn varðandi áhyggjur þínar og útskýrðu hvert vandamál fyrir sig og biddu hann síðan um hjálp til að takast á við það.
Þegar kvíði verður ekki framar til
Í Biblíunni er að finna meira en ráð í baráttunni við kvíða. Þar er að finna loforð um að fljótlega muni áhyggjur okkar heyra sögunni til. Hvernig kemur það til?
Guðsríki mun uppræta orsök kvíða. (Opinberunarbókin 21:4) Undir stjórn þess munu jafnvel minningar um kvíða og álag ekki þjaka okkur. – Jesaja 65:17.
„Guð, sem veitir frið“ vill að þú njótir þessarar framtíðar. (Rómverjabréfið 16:20) Hann fullvissar okkur: „Ég veit vel hvað ég hef í hyggju fyrir ykkur … að veita ykkur frið en ekki óhamingju. Ég vil gefa ykkur von og góða framtíð.“ – Jeremía 29:11.
a Í þessar grein á orðið „kvíði“ ekki við um alvarlegan sjúkdóm heldur daglegt álag og áhyggjur sem geta verið yfirþyrmandi. Þeir sem eiga við alvarleg veikindi að glíma gætu þurft að leita sér læknishjálpar. – Lúkas 5:31.