Láttu heimilið vera öruggt skjól
„KÆRLEIKSLAUSIR.“ Biblían notaði þetta nöturlega orð til að lýsa mörgum sem yrðu uppi „á síðustu dögum“ eins og nútíminn er kallaður. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 3, 4) Hin tíðu dæmi um að börn séu misnotuð kynferðislega innan fjölskyldunnar eru til merkis um að þessi spádómur hefur ræst. Gríska orðið asʹtorgos, sem er þýtt „kærleikslausir“, lýsir ástleysi milli nákominna ættingja, ekki síst skorti á ást milli foreldra og barna. * Það er allt of algengt að það sé einmitt innan vébanda fjölskyldunnar sem misnotkun á sér stað.
Sumir rannsóknarmenn segja að algengasti barnaníðingurinn sé föðurímynd barnsins. Aðrir karlar í fjölskyldunni eru oft brotlegir líka. Stúlkur eru algengustu fórnarlömbin en drengir eru líka misnotaðir. Og það er algengara en ætla mætti að konur séu sekar um kynferðisbrot af þessu tagi. Oftast er sennilega þagað yfir sifjaspelli milli systkina þar sem eldra eða sterkara barn tælir eða þvingar yngri eða veikbyggðari bróður eða systur til að taka þátt í kynferðisathöfnum. Sem foreldri hefurðu auðvitað viðbjóð á öllu slíku.
Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að svona nokkuð eigi sér stað í fjölskyldunni? Ljóst er að allir í fjölskyldunni þurfa að læra og virða ákveðnar meginreglur sem útiloka kynferðislega misnotkun. Bestu leiðsögnina um þetta mál er að fá í orði Guðs, Biblíunni.
Afstaða Biblíunnar til kynferðissambanda
Til að heimilið sé öruggt skjól þarf hver og einn í fjölskyldunni að tileinka sér siðferðisreglur Biblíunnar. Biblían er ekki tepruleg í umfjöllun sinni um kynferðismál. Hún talar um þau á virðulegan hátt en samt opinskátt og hnitmiðað. Þar kemur fram að Guð gaf hjónum kynlífið þeim til yndisauka. (Orðskviðirnir 5:15-20) Hins vegar fordæmir Biblían kynferðissambönd utan hjónabands. Hún tekur til dæmis skýrt fram að sifjaspell eigi ekki að líðast. Í 18. kafla 3. Mósebókar er lagt blátt bann við ýmsum kynferðissamböndum milli náinna ættingja. Gefum sérstaklega gaum að eftirfarandi orðum: „Enginn yðar skal koma nærri nokkru nánu skyldmenni til þess að bera blygðan þeirra [eiga kynmök]. Ég er Drottinn.“ — 3. Mósebók 18:6.
Jehóva taldi upp ýmis kynferðissambönd milli náinna skyldmenna sem hann kallaði ‚viðurstyggðir‘ og dauðarefsing lá við. (3. Mósebók 18:26, 29) Ljóst er að skaparinn hefur sett strangar reglur á þessu sviði. Stjórnvöld margra landa taka svipaða afstöðu og banna með lögum kynferðislega misnotkun á börnum innan fjölskyldunnar. Víða er það svo að lögum samkvæmt telst það nauðgun ef einhver fullorðinn fær barn til að eiga kynmök við sig. Af hverju skyldi vera kveðið svona sterkt að orði þótt valdi sé ekki beitt?
Yfirvöld víða um heim hafa gert sér grein fyrir því að Biblían hefur alla tíð farið með rétt mál varðandi börn, það er að segja að þau eru oft ekki fær um að rökhugsa á sama hátt og fullorðnir. Til dæmis er talað um það í Orðskviðunum 22:15 að ‚fíflska sitji föst í hjarta sveinsins‘. Og Páli postula var innblásið að skrifa: „Þegar ég var barn . . . hugsaði [ég] eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn.“ — 1. Korintubréf 13:11.
Barn skilur ekki til fulls þýðingu kynferðislegra athafna og getur ekki ímyndað sér hvaða afleiðingar þær geta haft á ókomnum árum.
Þess vegna er almennt viðurkennt að börn séu ekki fær um að veita marktækt samþykki fyrir kynferðismökum. Með öðrum orðum, ef fullorðin manneskja (eða talsvert eldri unglingur) á kynferðismök við barn getur hinn eldri ekki afsakað verknaðinn með því að barnið hafi ekki hreyft mótmælum eða hafi óskað eftir kynferðismökunum. Hinn fullorðni er talinn hafa gerst sekur um nauðgun, og nauðgun er glæpur sem er oft refsað fyrir með fangelsisdómi. Það er nauðgarinn en ekki fórnarlamb hans sem ber ábyrgð á verknaðinum.Því miður refsa yfirvöld sjaldan fyrir slíka glæpi. Í Ástralíu er til dæmis talið að einungis 10 prósent barnaníðinga séu ákærðir og fáir eru sakfelldir. Sömu sögu er að segja annars staðar í heiminum. Það er hins vegar mikil vernd fyrir kristna fjölskyldu að fara eftir meginreglum Biblíunnar þó að yfirvöld virðist oft lítils megnug.
Sannkristnir menn vita að Guð, sem lét skrásetja þessar meginreglur í Biblíuna, hefur ekki breytt um afstöðu. Hann sér allt sem við gerum, meira að segja það sem er hulið augum flestra manna. „Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra,“ segir í Biblíunni. — Hebreabréfið 4:13.
Guð lætur okkur svara til saka ef við brjótum boð hans og vinnum öðrum mein. Hann blessar hins vegar þá sem halda hin góðu fyrirmæli hans um fjölskyldulífið. Lítum á nokkur þeirra.
Fjölskylda sameinuð kærleiksböndum
Í Biblíunni er kærleikurinn kallaður „band algjörleikans“ og bent er á að hann sé meira en aðeins tilfinning. (Kólossubréfið 3:14) Hann einkennist af þeim hvötum sem hann vekur — þeirri hegðun sem hann leiðir til og þeirri breytni sem hann bannar. (1. Korintubréf 13:4-8) Kærleikur innan fjölskyldunnar merkir að sýna hver öðrum viðeigandi sæmd, virðingu og góðvild. Hann merkir að lifa í samræmi við afstöðu Guðs til allra í fjölskyldunni. Og Guð gefur hverjum og einum heiðvirt og þýðingarmikið hlutverk.
Faðirinn er höfuð fjölskyldunnar og á öðrum fremur að sýna kærleika. Hann veit að kristinn faðir hefur ekki leyfi til að stýra fjölskyldunni með harðri hendi. Hann má ekki misnota vald sitt yfir konu sinni og börnum heldur á hann að líkja eftir forystu Krists. (Efesusbréfið 5:23, 25) Hann er því mildur og ástríkur við eiginkonu sína og þolinmóður og blíður við börnin. Hann verndar þau dyggilega og gerir allt sem hann getur til að ekkert komi fyrir þau sem geti rænt þau sakleysi þeirra, friði, trausti og öryggi.
Eiginkona og móðir hefur sömuleiðis göfugu og mikilvægu hlutverki að gegna. Í Biblíunni er verndarhvöt ungamóður notuð til að lýsa umhyggju og vernd Jehóva og Jesú. (Matteus 23:37) Mennsk móðir ætti sömuleiðis að láta sér ákaflega annt um að vernda börnin sín. Hún hikar ekki við að taka öryggi og velferð þeirra fram yfir sína eigin. Foreldrarnir sætta sig ekki við valdbeitingu, yfirgang eða þvinganir í samskiptum sínum hvort við annað eða við börnin, og þau leyfa ekki börnunum heldur að beita slíkum aðferðum hvert við annað.
Það stuðlar að góðum tjáskiptum þegar allir í fjölskyldunni sýna hver öðrum virðingu. William Prendergast bendir á eftirfarandi: „Allir foreldrar ættu að eiga dagleg, stöðug og innileg tjáskipti við börn sín og unglinga.“ Hann bætir við: „Þetta virðist vera besta ráðið gegn kynferðislegri misnotkun.“ Biblían hvetur reyndar til þess að foreldrar eigi stöðug og innileg tjáskipti við börnin. (5. Mósebók 6:6, 7) Þegar það er gert eiga allir í fjölskyldunni auðvelt með að tjá hug sinn og geta gert það óhikað.
Við búum í illum heimi og það er ekki hægt með öllu að koma í veg fyrir kynferðislega misnotkun og ofbeldi. Ef heimilið er öruggt skjól og athvarf getur það hins vegar gert gæfumuninn. Sé einhverjum í fjölskyldunni unnið mein utan veggja heimilisins veit hann upp á hár hvar hann getur leitað skjóls og hlotið huggun og samúð. Ef heimili ykkar er þannig er það börnunum öruggt hæli og skjól í hættulegum heimi. Megi Guð blessa viðleitni ykkar til að búa ykkur þannig heimili.
^ Forngríska orðið hefur verið skilgreint: „Harðbrjósta gagnvart nákomnum.“ Í einni biblíuþýðingu er versið orðað svona: „Þeir . . . bera ekki eðlilega ástúð til fjölskyldna sinna.“