Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Nýheimsþýðing heilagrar ritningar er fáanleg í heild á 43 tungumálum og 3 tungumálum með blindraletri; Nýheimsþýðing kristnu grísku ritninganna er fáanleg á 18 tungumálum að auki og á 1 með blindraletri. Í júlí 2007 var heildarupplagið komið í 143.458.577 eintök.

Elsti biblíutextinn, sem vitað er um, er hin svokallaða prestlega blessun í 4. Mósebók 6:24-26. Hann fannst á tveim silfurörkum sem vafðar eru eins og bókrolla, en þær eru frá síðari hluta sjöundu aldar f.Kr. eða fyrri hluta þeirrar sjöttu. — BIBLICAL ARCHAEOLOGY REVIEW, BANDARÍKJUNUM.

Hinn 31. desember 2006 hafði að minnsta kosti ein af bókum Biblíunnar verið þýdd á 2426 tungumál og mállýskur, og hafði þeim þá fjölgað um 23 frá árinu á undan. — SAMEINUÐU BIBLÍUFÉLÖGIN, BRETLANDI.

Um 28 prósent Bandaríkjamanna álíta Biblíuna vera „raunverulegt orð Guðs . . . og beri að taka hana bókstaflega“, 49 prósent telja hana „innblásið orð Guðs en ekki skuli allt tekið bókstaflega“ og 19 prósent eru þeirrar skoðunar að hún sé „líkingasaga“. — GALLUP NEWS SERVICE, BANDARÍKJUNUM.

Elsta kínverska biblían?

„Elsta heimild um þýðingu hebresku biblíunnar á kínversku er að finna á minnisvarða úr steini [til vinstri] frá árinu 781 e.Kr.“ Þetta segir fræðimaðurinn Yiyi Chen við Pekingháskóla. Minnisvarðinn fannst í borginni Xi’an árið 1625 og var reistur af kristnum nestóringum. Chen segir: „Kínverska heitið á minnisvarðanum er formlega þýtt sem ‚minnismerki um útbreiðslu hinnar björtu trúar frá Daqin til Kína‘ ( . . . Daqin er kínverskt heiti Rómaveldis). Á minnisvarðanum er meðal annars að finna kínversk tákn sem merkja ‚hið sanna helgiritasafn‘ og ‚þýðing Biblíunnar.‘“

[Mynd credit line á blaðsíðu 30]

© Réunion des Musées Nationaux/Art Resource

Fjársjóður upp úr mýri

Árið 2006 voru verkamenn að grafa í mómýri á Írlandi og fundu þá handrit af Sálmum Biblíunnar. Það reyndist vera frá áttundu öld e.Kr. og er eitt fárra sem eftir er frá þeim tíma. Handritið er á latínu og er talið mikill dýrgripur. Þetta er skinnbók í upprunalegu bandi, um 100 síður, og sérlega íburðarmikil. „Leifar af mottu og leðurtösku benda til þess að sálmabókin hafi verið falin af ásettu ráði, hugsanlega til að koma henni undan þegar víkingar gerðu strandhögg fyrir 1200 árum,“ segir í Lundúnablaðinu The Times. Þótt blöðin séu samanpressuð og að hluta til morkin eru sérfræðingar bjartsýnir á að þeim takist að aðskilja þau og varðveita.

Mannkynssaga í tonnatali

Fornleifafræðingar hafa síað í tonnatali jarðveg af musterissvæðinu í Jerúsalem. Þeir hafa safnað þúsundum muna. Þeir elstu eru frá því áður en Ísraelsmenn settust að í landinu og þeir yngstu frá okkar tímum. Meðal annars fannst örvaroddur af þeirri gerð sem hermenn Nebúkadnesars notuðu en þeir eyddu fyrsta musterinu sem Gyðingar reistu á þessum stað. Athyglisverðasti fundurinn er innsigli úr leir frá sjöundu eða sjöttu öld f.Kr., en það er sagt vera með nafninu Gedaljahú Ben Immer Ha-Kóhen. Fornleifafræðingurinn Gabriel Barkai segir að eigandinn „kunni að hafa verið bróðir Pashúrs Ben Immer sem var prestur og yfirumsjónarmaður í musterinu að sögn Biblíunnar [í Jeremía 20:1]“.