Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Væri heimurinn betri án trúarbragða?

Væri heimurinn betri án trúarbragða?

Væri heimurinn betri án trúarbragða?

NÝJU trúleysingjarnir sjá fyrir sér heim án trúarbragða — án sjálfsmorðsárása, án trúarstyrjalda og án sjónvarpsprédikara sem féfletta hjörðina. Höfðar þessi framtíðarsýn til þín?

Áður en þú svarar skaltu velta fyrir þér hvort það séu einhver rök fyrir því að heimurinn væri betri ef allir væru trúlausir. Hugleiddu eftirfarandi: Allt að ein og hálf milljón Kambódíumanna týndi lífi þegar Rauðu khmerarnir reyndu að koma á marxísku ríki án guðstrúar. Og stjórn Jósefs Stalíns í Sovétríkjunum kostaði tugi milljóna manna lífið. Sú stjórn hafði einnig trúleysi á stefnuskrá sinni. Vissulega er ekki rétt að kenna trúleysi einu og sér um þessi voðaverk en þau sýna þó að stjórnarfar, sem byggist á trúleysi, tryggir þegnunum ekki frið og farsæld.

Fáir neita því að trúarbrögðin hafi valdið mannkyni miklum þjáningum. En er það Guði að kenna? Nei, hann ber ekki sök á því frekar en hægt er að kenna bílaframleiðanda um umferðarslys sem rekja má til þess að ökumaðurinn var að tala í farsíma. Þjáningar mannkyns eiga sér margar orsakir, og ein þeirra vegur þyngra en trúarbrögðin. Í Biblíunni er bent á að um sé að ræða meðfæddan ófullkomleika mannsins. „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð,“ segir þar. (Rómverjabréfið 3:23) Þessi tilhneiging til syndar ýtir undir eigingirni, óviðeigandi stolt, ofbeldi og löngun til að vera siðferðilega óháður. (1. Mósebók 8:21) Hún veldur því sömuleiðis að fólk réttlætir ranga breytni og hallast að trúarskoðunum sem afsaka hana. (Rómverjabréfið 1:24-27) Jesús Kristur sagði réttilega: „Frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi.“ — Matteus 15:19.

Grundvallarmunur

Nú er rétt að gera greinarmun á falskri guðsdýrkun og sannri, það er að segja guðsdýrkun sem Guð hefur velþóknun á. Sönn guðsdýrkun hlýtur að hjálpa fólki að berjast gegn þeim tilhneigingum sem ófullkomleikinn hefur í för með sér. Hún hlýtur að hvetja til fórnfýsi, kærleika, friðar, gæsku, góðvildar, sjálfsaga, tryggðar við maka sinn og virðingu fyrir náunganum. (Galatabréfið 5:22, 23) Falstrú ýtir frekar undir það sem er vinsælt hverju sinni — það sem „kitlar eyrun“ eins og það er orðað í Biblíunni — því að hún líður og lætur viðgangast sumt af því illa sem Jesús fordæmdi. — 2. Tímóteusarbréf 4:3.

Er hætta á að trúleysi geti stuðlað að sömu óvissu eða ringulreið í siðferðismálum? Ef menn líta svo á að Guð sé ekki til þurfa þeir ekki að standa æðri máttarvöldum reikningsskap gerða sinna, og þá „eru ekki til nein hlutlæg gildi sem okkur ber að virða“. Þetta segir Phillip Johnson sem er prófessor í lögum. Siðferði verður þar af leiðandi afstætt og hver maður setur sér sínar eigin lífsreglur — ef hann kýs á annað borð að hafa einhverjar. Trúleysi höfðar vafalaust til sumra sem aðhyllast þess konar lífsviðhorf. — Sálmur 14:1.

Sannleikurinn er hins vegar sá að Guð umber ekki endalaust ósannindi né þá sem viðhalda þeim, hvort heldur ósannindin snúa að trú eða trúleysi. * Eftirfarandi loforð er að finna í Biblíunni: „Hinir [siðferðilega og trúarlega] hreinlyndu munu byggja landið og hinir ráðvöndu verða þar áfram. En hinir ranglátu verða upprættir úr landinu og hinum svikulu verður tortímt.“ (Orðskviðirnir 2:21, 22) Þegar það gerist skapast friður og farsæld um allan heim, og það er meira en nokkur maður, nokkur hugmyndafræði manna og nokkur stofnun manna getur áorkað. —  Jesaja 11:9.

[Neðanmáls]

^ Í 11. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? er að finna skýringu Biblíunnar á því að Guð skuli hafa umborið illsku og þjáningar um tíma. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

[Rammi á bls. 6]

SKOÐUN GUÐS Á TRÚARLEGUM GRIMMDARVERKUM

Landið, sem Ísraelsmönnum var gefið endur fyrir löngu, var byggt Kanverjum en þeir voru siðspilltir með afbrigðum. Þeir stunduðu sifjaspell, sódómsku og kynmök við dýr, auk þess að fórna börnum í trúarlegum tilgangi. (3. Mósebók 18:2-27) Í bókinni Archaeology and the Old Testament segir að við uppgröft „hafi fundist haugar af ösku og leifar af beinum ungbarna í grafreitum kringum heiðin ölturu en það bendir til þess að [barnafórnir] hafi verið algengar“. Kanverjar tilbáðu guði sína með því að fullnægja siðlausum fýsnum, og einnig með því að fórna þeim frumgetnum börnum sínum, að því er fram kemur í biblíuhandbók. Síðan segir: „Fornleifafræðingar, sem grafa upp borgarrústir Kanverja, undrast að Guð skyldi ekki tortíma þeim fyrr en hann gerði.“

Að Guð skyldi útrýma Kanverjum er sterk áminning fyrir okkur sem nú lifum um að hann umberi ekki endalaust að menn fremji ódæðisverk í nafni hans. „[Guð] hefur sett dag er hann mun . . . dæma heimsbyggðina með réttvísi,“ segir í Postulasögunni 17:31.

[Myndir á bls. 7]

Bæði trúlaust fólk og trúarlega sinnað hefur framið grimmdarverk.

Kirkjunnar menn studdu Hitler.

Bein fórnarlamba Rauðu khmeranna í Kambódíu.

[Rétthafi myndar]

AP Photo