Það er aldrei of seint að verða vinur Guðs
Það er aldrei of seint að verða vinur Guðs
Olavi J. Mattila segir frá
„Hefurðu nokkurn tíma hugleitt að þú getir fengið nákvæma þekkingu á skaparanum?“ Vottur Jehóva spurði mig að þessu og ég fór að velta spurningunni fyrir mér. Ég var þá kominn yfir áttrætt og hafði kynnst mörgum háttsettum mönnum, meira að segja stjórnmálaleiðtogum. En gæti ég virkilega kynnst Guði svona seint á ævinni og orðið vinur hans?
ÉG FÆDDIST í október árið 1918 í Hyvinkää í Finnlandi. Ungur að árum fór ég að vinna ýmiss konar bústörf. Á búi fjölskyldu minnar voru nautgripir, hestar, hænsni og gæsir. Ég lærði að vinna og vera stoltur af því sem ég gerði.
Þegar ég varð eldri hvöttu foreldrarnir mig til að leita mér menntunar. Þegar ég hafði aldur til fór ég því að heiman í háskólanám. Ég tók einnig þátt í íþróttum og kynntist Urho Kekkonen, formanni Íþróttasambands Finnlands. Ekki grunaði mig þá að Kekkonen yrði forsætisráðherra landsins og síðar forseti þjóðarinnar og myndi gegna þeim embættum í þrjá áratugi. Hvað þá heldur gat ég ímyndað mér hve mikil áhrif hann átti eftir að hafa á líf mitt.
Frami og völd
Árið 1939 brutust út hernaðarátök milli Finnlands og Sovétríkjanna. Í nóvember sama ár var ég kvaddur í herinn. Í fyrstu starfaði ég sem þjálfari í varaliðinu en síðar sem yfirmaður vélbyssudeildar. Vígstöðvarnar voru í Karelíu sem er svæði á landamærum Finnlands og Sovétríkjanna. Sumarið 1941 varð ég fyrir sprengjubroti og særðist alvarlega meðan barist var í nágrenni Vyborgar. Ég var fluttur á herspítala. Meiðslin komu í veg fyrir að ég færi aftur á vígvöllinn.
Í september árið 1944 var ég leystur undan herþjónustu og fór aftur í háskóla. Ég hélt líka áfram að iðka íþróttirnar. Þrisvar sinnum varð ég Finnlandsmeistari, tvisvar í boðhlaupi og einu sinni í grindahlaupi. Ég hlaut einnig háskólagráður í tæknifræði og hagfræði.
Meðan á þessu stóð komst Urho Kekkonen til áhrifa í stjórnmálum. Árið 1952, meðan hann var forsætisráðherra, bað hann mig um að starfa sem stjórnarerindreki í Kína. Þar hitti ég ýmsa opinbera embættismenn, meðal annarra Mao Tse-tung, leiðtoga Kína. En mikilvægasta persónan, sem ég hitti í Kína, var Annikki, yndisleg ung kona sem vann í finnska utanríkisráðuneytinu. Hún varð eiginkona mín í nóvember 1956.
Árið eftir var ég fluttur til í starfi og fór að vinna í finnska sendiráðinu í Argentínu. Þar eignuðumst við fyrstu börnin okkar, tvo syni. Í janúar 1960 snerum við aftur til Finnlands.
Skömmu síðar eignuðumst við telpu, þriðja barnið okkar.Háttsettur í ríkisstjórn
Í nóvember árið 1963 bauð Kekkonen forseti mér að verða ráðherra utanríkisviðskipta þrátt fyrir að ég hefði aldrei verið skráður í neinn stjórnmálaflokk. Næstu 12 árin gegndi ég sex ráðherraembættum, þar af tvisvar sem utanríkisráðherra. Á þessum tíma trúði ég því staðfastlega að mennirnir gætu leyst vandamál heimsins með hugviti sínu. En mér varð fljótlega ljóst að menn þyrstir í völd. Ég varð vitni að þeim skaðlegu áhrifum sem vantraust og öfund geta haft. – Prédikarinn 8:9.
Auðvitað varð ég einnig var við að margir reyna í einlægni að bæta heiminn. En þótt leiðtogar séu allir af vilja gerðir ná þeir ekki markmiðum sínum þegar til kastanna kemur.
Sumarið 1975 komu leiðtogar 35 ríkja til Helsinki til að sækja ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu. Á þeim tíma var ég utanríkisráðherra og náinn ráðgjafi Kekkonens. Mér var falin sú ábyrgð á hendur að skipuleggja ráðstefnuna og ég hitti alla þjóðarleiðtogana sem sóttu hana.
Á þessum fáu dögum reyndi til hins ýtrasta á stjórnunarhæfileika mína. Það var meira að segja þrautin þyngri að fá þátttakendur til að vera sammála um sætaskipan! Samt sem áður fannst mér ráðstefnan, ásamt röð funda sem fylgdu í kjölfarið, stuðla að bættum mannréttindum og meira umburðarlyndi í samskiptum stórveldanna.
Meðvitaður um andlega þörf mína
Árið 1983 settist ég í helgan stein og við fluttumst til Frakklands þar sem dóttir okkar bjó. Árið 1994 urðum við fyrir miklum áföllum. Í nóvember það ár var Annikki greind með krabbamein í brjósti. Sama ár flæktist ég í fjárfestingaráætlun sem reyndist svikamylla. Alla ævi hafði ég lagt mikið á mig til að varðveita gott mannorð. En dómgreindarleysi í þetta eina skipti setti blett á mannorð mitt.
Vottar Jehóva höfðu heimsótt mig við og við alla tíð. Ég mat heimsóknir þeirra og þáði blöðin af þeim en ég var mjög upptekinn og hafði engan tíma til að sinna andlegum málum. Árið 2000 var Annikki enn að berjast við krabbameinið og ég annaðist hana eftir bestu getu. Dag einn í september 2002 heimsótti mig vottur Jehóva. Hann lagði fyrir mig spurninguna sem getið er um í upphafi þessarar greinar. Ég velti fyrir mér hvort það væri í raun og veru mögulegt að læra sannleikann um Guð. Er hægt að verða vinur hans? Ég
gróf upp Biblíuna mína, sem hafði safnað á sig þykku ryklagi, og fór að ræða efni Biblíunnar við vottana á reglulegum grundvelli.Í júní 2004 lést elskuleg eiginkona mín og ég var orðinn einn. Börnin veittu mér að sjálfsögðu tilfinningalegan stuðning. En spurningin hvað yrði um okkur þegar við dæjum sótti á mig. Ég leitaði svara hjá tveim lúterskum prestum. Svar þeirra var einfalt: „Ja, þetta eru erfiðar spurningar.“ Ég var ekki ánægður með svar þeirra. Ég fann bara enn sterkar fyrir andlegri þörf minni.
Ég hélt áfram að kynna mér efni Biblíunnar með vottunum og fékk nákvæmari þekkingu á henni eins og ég hafði þráð. Til dæmis segir í Biblíunni að dauðinn sé meðvitundarleysi líkt og svefn og að hinir dánu eigi í vændum að lifa aftur á jörðinni. (Jóhannes 11:25) Þetta gaf mér von og veitti mér mikla huggun.
Áður en langt um leið las ég alla Biblíuna. Einn af þeim ritningarstöðum, sem hafði mikil áhrif á mig, var Míka 6:8. Þar segir: „Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.“ Viskan og einfaldleikinn í þessu spakmæli heillaði mig og dró fram hve kærleiksríkur og réttlátur Jehóva Guð er.
Framtíðarvon
Samfara aukinni þekkingu á sannleika Guðs jókst trú mín og traust á hann. Ég eignaðist vináttusamband við skaparann. Mér þótti mikið til orða hans koma í Jesaja 55:11: „Eins er því farið með orð mitt sem kemur af munni mínum, það hverfur ekki aftur til mín við svo búið heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast og framkvæmir það sem ég fel því.“ Guð hefur svo sannarlega staðið við loforð sín fram að þessu og hann mun gera það í framtíðinni. Hann mun ná markmiðinu sem stjórnum manna og ráðstefnum þeirra hefur ekki tekist að ná. Í Sálmi 46:10 segir til dæmis: „Hann stöðvar stríð til endimarka jarðar.“
Ég hef haft mjög mikið gagn af að sækja samkomurnar hjá Vottum Jehóva. Þar hef ég séð með eigin augum þann einlæga kristilega kærleika sem auðkennir sanna fylgjendur Jesú. (Jóhannes 13:35) Þessi kærleikur ber af þjóðernishyggju og þekkist ekki í heimi stjórnmála og viðskipta.
Dýrmætasta blessunin
Ég er nú kominn yfir nírætt og mesta blessunin, sem ég hef öðlast, er að vera vottur Jehóva. Andlega tómarúmið er horfið. Ég hef fengið þá blessun að kynnast tilgangi lífsins og sannleikanum um Guð.
Það gleður mig einnig að geta tekið þátt í starfi kristna safnaðarins þrátt fyrir háan aldur. Þótt ég hafi hitt marga valdamikla menn og gegnt mörgum ábyrgðarstörfum á lífsleiðinni stenst ekkert samanburð við þá blessun að kynnast Jehóva Guði, skaparanum, og vera vinur hans. Ég er honum afar þakklátur og mig langar til að lofa hann fyrir að fá þetta tækifæri til að verða einn af samverkamönnum hans. (1. Korintubréf 3:9) Það er aldrei of seint að verða vinur Jehóva Guðs, skaparans.
[Mynd á bls. 15]
Með Kekkonen forseta og Ford Bandaríkjaforseta á ráðstefnunni í Helsinki árið 1975.
[Mynd á bls. 15]
Með Kekkonen forseta og Brezhnev, leiðtoga Sovétríkjanna.
[Mynd á bls. 16]
Ég tek virkan þátt í starfi safnaðar Votta Jehóva.
[Rétthafi myndar á bls. 15]
Að neðan til vinstri: Ensio Ilmonen/Lehtikuva. Að neðan til hægri: Esa Pyysalo/Lehtikuva