Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sjónarmið biblíunnar

Af hverju ættum við að hrósa öðrum?

Af hverju ættum við að hrósa öðrum?

MARGIR hafa á tilfinningunni að það sé lítið tekið eftir því sem þeir gera. Starfsmönnum finnst oft að vinnuveitendur kunni ekki að meta störf sín. Margir hafa á tilfinningunni að maki þeirra líti á þá sem sjálfsagðan hlut. Og börn halda stundum að þau geti aldrei risið undir væntingum foreldra sinna. Hægt væri að draga verulega úr slíkri líðan ef við værum öll tilbúin til að hrósa hvert öðru af og til.

Einlægt hrós er fremur sjaldgæft í heimi nútímans. Það kemur engum á óvart því að í Biblíunni segir um okkar tíma: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Menn verða sérgóðir . . . vanþakklátir.“ – 2. Tímóteusarbréf 3:1, 2.

Hefurðu fengið einlægt hrós fyrir eitthvað? Þá veistu hve ánægjulegt og hvetjandi það getur verið. „Fagurt er orð í tíma talað,“ segir í Biblíunni. (Orðskviðirnir 15:23) Heilög ritning getur hjálpað okkur að sýna hvert öðru góðvild.

Sjáðu hið góða í fari annarra

Guð hefur mikinn áhuga á velferð okkar. Hann bæði sér og kann að meta góð verk okkar og eiginleika. Í Biblíunni segir: „Augu Drottins skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann.“ (2. Kroníkubók 16:9) Hann tekur eftir því þegar við höldum lög hans og sýnum þar með að við elskum hann.

Jehóva Guð leitar ekki að göllum í fari okkar. Enginn myndi standast ef hann gerði það. (Sálmur 130:3) Þess í stað er Jehóva eins og námumaður sem sigtar heilu haugana af grjótmulningi til að leita að gimsteinum. Námumaðurinn gleðst þegar hann finnur gimstein. Óslípaður steinninn er ekkert sérlega dýrmætur að sjá en námumaðurinn veit hvers virði hann getur verið. Eins er það þegar Guð rannsakar hjörtu okkar. Hann er ekki að leita að göllum heldur góðum eiginleikum. Hann gleðst þegar hann finnur þá. Hann veit að það er hægt að slípa þessa góðu eiginleika þannig að úr verði mikil verðmæti – það er að segja trúr og tryggur þjónn hans.

Við getum farið að dæmi Guðs. Þegar við horfum á aðra hættir okkur kannski til að einblína á galla þeirra. Ef við sjáum fólk sömu augum og Jehóva horfum við hins vegar eftir góðum eiginleikum þeirra. (Sálmur 103:8-11, 17, 18) Þegar við komum auga á dýrmæta eiginleika annarra höfum við tækifæri til að hrósa. Það getur haft hressandi áhrif á fólk og orðið til þess að það reyni enn betur að gera það sem er rétt. Og við uppskerum gleðina sem fylgir því að gefa. – Postulasagan 20:35.

Viðurkenndu það sem vel er gert

Jesús hafði næmt auga fyrir góðum verkum annarra og nefndi þau oft. Einu sinni laumaðist veik kona til að snerta yfirhöfn hans til að hljóta lækningu. Jesús hrósaði konunni, sem var hrædd og skjálfandi, og sagði við hana: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér.“ – Markús 5:34.

Öðru sinni var Jesús að kenna í musterinu í Jerúsalem og sá þar marga auðmenn leggja gjafir sínar í fjárhirsluna. Síðan sá hann fátæka ekkju leggja fram „tvo smápeninga“. Margir höfðu gefið miklu meira en hún. En Jesús hrósaði ekkjunni fyrir einlægni hennar og sagði: „Ég segi ykkur með sanni, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir. Hinir allir lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína.“ – Lúkas 21:1-4.

Hvernig getum við líkt eftir Jesú? Í Biblíunni segir: „Synjaðu ekki góðs þeim sem þarfnast ef það er á þínu valdi að veita það.“ – Orðskviðirnir 3:27.

Hrós er áhrifaríkt

Í vanþakklátum heimi nútímans þurfum við öll að finna að einhverjum þyki vænt um okkur og að við séum einhvers metin. Þegar við hrósum öðrum í einlægni getum við verið þeim til styrktar og uppörvunar. Það verður þeim hvatning til að halda áfram að gera sitt besta. – Orðskviðirnir 31:28, 29.

„Hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka,“ segir í Biblíunni. (Hebreabréfið 10:24) Heimurinn væri betri ef allir sýndu öðrum einlægan áhuga, hefðu augun opin fyrir hinu góða í fari þeirra og viðurkenndu það sem vel er gert. Hrós er sannarlega áhrifaríkt.

HEFURÐU HUGLEITT?

● Hvers vegna er gott að hrósa öðrum fyrir það sem þeir gera vel? – Orðskviðirnir 15:23.

● Eftir hverju leitar Jehóva þegar hann rannsakar okkur? – 2. Kroníkubók 16:9.

● Hvenær ættum við að hrósa? – Orðskviðirnir 3:27.

[Mynd á bls. 22]

Gefurðu gaum að góðum verkum annarra og hrósar þeim fyrir?