Gegnsýrður af ofbeldi
Gegnsýrður af ofbeldi
HEIMUR nútímans er gegnsýrður af ofbeldi. Ofbeldi hefur að vísu alltaf einkennt afþreyingarefni. En á vefsíðunni Media Awareness Network segir: „Á undanförnum árum hefur eitthvað breyst við ofbeldi eins og það birtist í fjölmiðlum. Í fyrsta lagi er meira af því nú en áður.“ Og síðan er bætt við: „Það er líka orðið miklu myndrænna, miklu kynferðislegra og það sýnir miklu meiri kvalalosta.“ Hugleiddu eftirfarandi staðreyndir.
Tónlist: Á fyrrnefndri vefsíðu kemur fram að æ ofbeldisfyllri söngtextar séu „viðurkenndir í tónlistariðnaðinum“. Í sumum lagatextum er notað ruddalegt orðbragð og farið fögrum orðum um það að fremja morð og nauðga, jafnvel eiginkonum og mæðrum.
Tölvuleikir: „Það er óþægileg staðreynd hversu miklar blóðsúthellingar einkenna tölvuleiki,“ er haft eftir bresku tímariti fyrir áhugamenn um tölvuleiki. Það bætir við: „Að vissu marki þarf maður að elska ofbeldi til að hafa gaman af tölvuleikjum.“ Til dæmis geta þátttakendur í einum vinsælum tölvuleik leikið sér að því að berja konur til bana með hafnaboltakylfum. Sumir telja að tölvuleikir geti haft verri áhrif á börn en sjónvarpið þar sem þau eru sjálf þátttakendur í leiknum.
Kvikmyndir: Rannsóknir sýna að ofbeldi, kynlíf og blótsyrði hafa aukist verulega í kvikmyndum. Og þó að mynd sé ekki bönnuð er það ekki endilega sönnun fyrir því að hún sé boðleg. Þar að auki eru það ekki bara „skúrkarnir“ sem eru ofbeldisfullir. Samkvæmt einni rannsókn er nærri helmingur ofbeldis, sem sýnt er í sjónvarpi, kvikmyndum og tónlistarmyndböndum, framið af „hetjunum“.
Fréttir: Vitað er að ofbeldi selur og það hafa margar fréttastofur að leiðarljósi. Fréttaflutningur er stór atvinnugrein og fréttamenn gera sér grein fyrir að ofbeldi laðar til sín áhorfendur. Og því fleiri sem horfa því fleiri auglýsa, en víða er sjónvarpsdagskráin fjármögnuð með auglýsingum.
Vefsíður: Á Netinu er að finna bæði raunverulegar og tilbúnar myndir sem sýna pyntingar, limlestingar, sundurlimanir og morð. Mörg börn heimsækja slíkar vefsíður.
Hefur ofbeldi í fjölmiðlum áhrif á okkur?
Hefur ofbeldi í sjónvarpi, kvikmyndum, bókum, tónlist og öðru skemmtiefni áhrif á fólk? Þeir sem hagnast á ofbeldi í fjölmiðlum halda því gjarnan fram að efnið, sem þeir bjóða upp á, hafi engin skaðleg áhrif. En hugleiddu þetta: Viðskiptaheimurinn borgar milljarða dollara í auglýsingar til að hafa áhrif á hugsun fólks. Þó taka þær oft ekki meira en hálfa mínútu. Er þá rökrétt að ætla að 90 mínútna kvikmynd, þar sem söguhetjurnar eru bæði siðlausar og ofbeldisfullar, hafi lítil sem engin áhrif á huga fólks, ekki síst ungra barna?
Jehóva Guð, skapari okkar, þekkir mannlegt eðli mun betur en við. Hvað segir hann um það að eiga samneyti við ofbeldisfullt fólk, meðal annars þá sem skemmta okkur gegnum vinsælt efni í fjölmiðlum? Líttu á eftirfarandi vers úr Biblíunni:
● „Drottinn reynir réttlátan og ranglátan, hann hatar þann sem elskar ofríki.“ – Sálmur 11:5.
● „Leggðu ekki lag þitt við reiðigjarnan mann og eigðu ekki samneyti við hinn skapbráða til þess að þú temjir þér ekki hegðun hans og leggir snörur fyrir líf þitt.“ – Orðskviðirnir 22:24, 25.
Við getum að sjálfsögu ekki varið okkur gegn öllum slæmum áhrifum. En við getum valið okkur skemmtiefni og vini. Spyrðu þig hvernig manneskja þú viljir vera. Veldu þér síðan þannig vini, það er að segja fólk sem hefur sömu markmið og lífsgildi og þú vilt tileinka þér. – Orðskviðirnir 13:20.
Þó að val okkar á vinum og skemmtiefni hafi áhrif á afstöðu okkar til ofbeldis er fleira sem getur gert það. Eins og hvað?
[Mynd á bls. 4]
Val okkar á skemmtiefni hefur áhrif á afstöðu okkar til ofbeldis.