GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABANDIÐ
Að mætast á miðri leið
VANDINN
Þið hjónin eruð ekki sammála um hvað skuli gera í ákveðnu máli. Þú hefur að minnsta kosti þrjá valkosti:
-
Þú gætir krafist þess að fá þínu fram.
-
Þú gætir látið undan óskum maka þíns.
-
Þið gætuð mæst á miðri leið.
„En mér finnst hugmyndin um málamiðlun fráhrindandi,“ segirðu kannski. „Það hljómar eins og hvorugt okkar fái það sem það vill.“
Þú mátt vera viss um að þótt þið farið milliveginn getið þið komist að niðurstöðu sem þið eruð bæði sátt við. En til þess þurfið þið að vita hvernig þið eigið að bera ykkur að. Áður en við skoðum hvernig best er að fara að skulum við líta á nokkur atriði sem gott er að hafa í huga.
ÞAÐ SEM ÞÚ ÆTTIR AÐ VITA
Að mætast á miðri leið krefst samvinnu. Áður en þú giftir þig tókstu ef til vill allar ákvarðanir upp á eigin spýtur. En nú hafa hlutirnir breyst. Nú skiptir hjónabandið meira máli en eigin óskir og langanir. Í stað þess að líta á það sem ókost ættirðu að hugleiða hvernig það getur verið til góðs. „Lausnin verður oft betri þegar hjónin sameina hugmyndir sínar í stað þess að reyna að finna lausn hvort í sínu lagi,“ segir gift kona að nafni Alexandra.
Þú þarft að vera opinn fyrir nýjum hugmyndum. „Þú þarft ekki að vera sammála maka þínum í einu og öllu. En þú þarft að vera tilbúinn til að taka mið af skoðunum hans,“ skrifar hjónabandsráðgjafinn John M. Gottman. „Ef þú stendur sjálfan þig að því að krossleggja hendur og hrista höfuðið (jafnvel bara í huganum) þegar maki þinn reynir að ræða málin við þig komist þið aldrei að niðurstöðu.“ *
Að mætast á miðri leið krefst fórnfýsi. Það er erfitt að búa með maka sem vill alltaf fá sínu framgengt og tekur ekkert annað í mál. Hlutirnir ganga mun betur ef hjónin eru bæði tilbúin til að gefa eftir. „Stundum læt ég eftir óskum mannsins míns til að gleðja hann og stundum gerir hann það sama fyrir mig,“ segir gift kona að nafni June. „Þetta er það sem hjónabandið ætti að snúast um – að gefa og þiggja, ekki bara að þiggja.“
HVAÐ ER TIL RÁÐA?
Byrjið á réttan hátt. Samræður enda oft eins og þær byrja. Ef þú hreytir út úr þér ónotum eru litlar líkur á að þið finnið friðsamlega lausn. Fylgdu því ráðleggingu Biblíunnar: „Íklæðist ... meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.“ (Kólossubréfið 3:12) Ef þið hjónin sýnið þessa eiginleika eigið þið auðveldara með að forðast rifrildi og hefjast handa við að finna lausn á vandanum. – Ráðlegging Biblíunnar: Kólossubréfið 4:6.
Finnið sameiginlegan grundvöll. Ef samræðurnar enda alltaf í hörkurifrildi gæti verið að þið einblínið of mikið á það sem þið eruð ósammála um. Reynið frekar að finna út hvað þið eruð sammála um. Prófið eftirfarandi:
Gerið hvort um sig lista með tveimur dálkum. Skrifið í fyrri dálkinn þau atriði sem þið viljið ekki gefa eftir. Í seinni dálkinn skuluð þið skrifa þau atriði þar sem þið gætuð hugsanlega komið til móts við makann. Ræðið svo saman um það sem þið skrifuðuð. Kannski komist þið að raun um að þið eruð sammála um fleiri hluti en þið hélduð. Þá ætti ekki að vera of erfitt fyrir ykkur að mætast á miðri leið. Og þó að ykkur beri saman um fátt, skiljið þið vandann betur eftir að hafa skrifað hugsanir ykkar niður.
Skiptist á hugmyndum. Sum vandamál eru auðleyst. En þegar vandamálin eru flókin geta hjón skipst á hugmyndum og jafnvel fundið lausn sem hvorugu þeirra hefði dottið í hug í einrúmi. Það getur líka styrkt sambandið. – Ráðlegging Biblíunnar: Prédikarinn 4:9.
Ekki ríghalda í eigin skoðanir. Í Biblíunni segir: „Hver og einn skal elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig en konan beri lotningu fyrir manni sínum.“ (Efesusbréfið 5:33) Þegar hjón elska hvort annað og virða eru þau fús til að hlusta á skoðanir hvort annars og skipta jafnvel um skoðun. Giftur maður að nafni Cameron segir: „Makinn getur vakið áhuga manns á ýmsu sem maður hefði annars ekki gefið tækifæri.“ – Ráðlegging Biblíunnar: 1. Mósebók 2:18.
^ gr. 12 Úr bókinni The Seven Principles for Making Marriage Work.