Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Páfafiskurinn – sandgerðarvél?

Páfafiskurinn – sandgerðarvél?

HVERNIG verður sandur til? Hann verður til á ýmsa vegu en það sem rætt er um í þessari grein gæti komið þér á óvart. Greinin fjallar um fisk sem mylur kórala niður í fínan sand – páfafiskinn.

Hann er að finna í höfum á suðrænum slóðum víða um heim. Páfafiskar gleypa mulinn kóral sem þeir vinna næringu úr og skila svo frá sér úrganginum sem sandi. Til þess nota þeir kröftugan gogglaga skolt og sterka jaxla. Sumar tegundirnar lifa í allt að 20 ár án þess að eyða upp tönnunum.

Sums staðar framleiðir páfafiskurinn meiri sand en myndast á annan hátt í náttúrunni, með því að bryðja dauðan kóral. Sumir vísindamenn áætla að venjulegur páfafiskur framleiði um hundrað kíló af sandi á ári.

Dökkur páfafiskur (Scarus niger)

Páfafiskurinn sinnir líka öðru mikilvægu hlutverki. Þar sem hann nagar af kappi dauða þörungahjúpaða kórala og aðrar jurtir heldur hann kóralnum hreinum. Þetta sérkennilega mataræði páfafisksins heldur kóralrifunum heilbrigðum. Þar sem páfafiskinn og aðrar jurtaætur er ekki að finna fyllist allt af þörungum og þangi sem kæfir kóralrifin. Í bókinni Reef Life segir: „Sumir segja að kóralrifin væru varla eins og við þekkjum þau ef ekki væri fyrir jurtaæturnar.“

Þetta útheimtir góða næturhvíld og aftur er hegðun páfafisksins óvenjuleg. Nóttin á kóralrifi er hættuleg því ránfiskar ráða þar ríkjum. Venjulega sefur páfafiskurinn undir klettasyllum en slíkur felustaður verndar hann ekki alltaf frá hungruðum hákarli.

Sumir páfafiskar hjúpa sig þar að auki í slímblöðru á næturnar sem þeir mynda sér til verndar. Hún lítur út eins og gegnsær náttkjóll. Sjávarlíffræðingar telja að þessi illa lyktandi hjúpur verndi þá fyrir ránfiskum.

Páfafiskurinn er einn áhugaverðasti og mest áberandi fiskur kóralrifanna. Bæði kynin eru litrík og eru gjarnan í öllum regnbogans litum sem breytast með aldrinum. En skemmtilegast af öllu er hvað páfafiskurinn er gæfur á stöðum þar sem hann er ekki ofveiddur. Því er mjög auðvelt að skoða hann náið.

Það er ógleymanleg upplifun fyrir þá sem skoða kóralrifin að komast í návígi við páfafiskinn og heyra hann maula á kóral. Á meðan páfafiskurinn skartar sínu fegursta heldur hann umhverfinu heilbrigðu fyrir aðrar lífverur kóralrifanna og gerir okkur kleift að njóta fegurðar þeirra.