GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UNGLINGAR
Þegar þú þarft að flytja aftur heim
VANDINN
Ungt fólk, sem hefur farið að heiman og reynt að standa á eigin fótum, lendir stundum í fjárhagserfiðleikum og þarf að flytja aftur heim til foreldra sinna. Hefur þú lent í þessu?
Það getur verið erfitt að flytja aftur heim þótt manni þyki vænt um foreldra sína. „Ég fékk aukið sjálfstraust þegar ég fór að heiman því að þá þurfti ég ekki að vera upp á aðra komin. En þegar ég flutti aftur heim fannst mér ég vera aftur orðin barn,“ segir Sara, * sem er ung kona. Ungur maður að nafni Ríkharður hefur svipaða reynslu. Hann segir: „Mig langaði ekki til að flytja aftur heim en ég gat einfaldlega ekki séð fyrir mér. Mér fannst ég vera misheppnaður.“
Ef þú ert í svipaðri stöðu getur þessi grein hjálpað þér að standa aftur á eigin fótum.
ÁSTÆÐAN
Fjármál. Margt ungt fólk vaknar upp við vondan draum þegar það áttar sig á hvað það er dýrt að lifa. „Allur sparnaðurinn minn fór bara í að sjá fyrir mér,“ segir Ríkharður sem áður er vitnað í. Ung kona, sem heitir Selma, hefur sömu sögu að segja. Hún fór að heiman 24 ára en þurfti að flytja heim aftur eftir eitt og hálft ár. „Ég hefði getað farið betur með peningana,“ viðurkennir hún. „Ég fór blönk að heiman og kom aftur skuldug.“ *
Atvinnuleysi. Skynsamlegustu áform geta farið út um þúfur þegar maður missir vinnuna eins og Selma uppgötvaði. Hún segir: „Ég útskrifaðist úr námi á heilbrigðissviði og skráði mig hjá atvinnumiðlun sem hjálpaði mér að fá vinnu. En þegar ég svo missti vinunna sá ég enga leið út úr vandræðunum. Ég bjó í dreifbýli þar sem enga vinnu var að fá í mínu fagi.“
Óraunhæfar væntingar. Sumt ungt fólk fer út á vinnumarkaðinn án þess að gera sér grein fyrir hvað þarf til að sjá fyrir sér. Vinnan er oft erfiðari en þeir héldu að hún yrði. Sér til skelfingar uppgötva þeir að sjálfstæðið, sem þeir þráðu svo heitt, er ekki svo spennandi. Þeir gerðu ekki ráð fyrir að það yrði svona erfitt að vera fullorðinn.
HVAÐ ER TIL RÁÐA?
Talaðu við foreldra þína varðandi það að flytja aftur heim. Ræddu um eftirfarandi mál: Hve lengi þarftu að búa heima? Hvernig ætlarðu að taka þátt í útgjöldum heimilisins á meðan þú býrð heima? Hvaða heimilisstörf getur þú séð um? Hvað ætlarðu að gera til að geta staðið aftur á eigin fótum? Óháð aldri þarftu að muna að þú býrð aftur á heimili foreldra þinna og verður að fara eftir þeirra reglum. – Ráðlegging Biblíunnar: 2. Mósebók 20:12.
Lærðu að fara vel með peninga. Bókin The Complete Guide to Personal Finance: For Teenagers and College Students segir: „Hvernig þú eyðir peningunum þínum ræður miklu um það hvort þú getir stýrt fjármálum þínum á farsælan hátt ... Það er nauðsynlegt að skilja að lykilatriði er að eyða ekki peningum í óþarfa.“ – Ráðlegging Biblíunnar: Lúkas 14:28.
Fáðu góð ráð. Foreldrar eða annað fullorðið fólk getur gefið þér hagnýt ráð í sambandi við bankamál, fjárhagsáætlanir og að borga reikninga. „Ég varð að byrja aftur á undirstöðuatriðunum,“ segir ung kona sem heitir María. „Vinkona mín hjálpaði mér að gera lista yfir nauðsynleg og ónauðsynleg útgjöld. Ég trúði varla eigin augum. Næstum allt sem ég keypti var ónauðsynlegt! Ég lærði líka að temja mér sjálfstjórn, eiginleika sem er nauðsynlegur þegar maður ætlar að standa á eigin fótum.“ – Ráðlegging Biblíunnar: Orðskviðirnir 13:10.
Það skiptir meira máli að verða fær í starfi sínu en hvaða starf maður hefur.
Leggðu þig fram við að leita að vinnu. Notaðu þann tíma sem hefði farið í vinnu til að sækja um vinnu. Til umhugsunar: Sumir segja þér kannski að „láta drauma þína rætast“ þegar þú velur þér framtíðarstarf. En þú átt líklega erfiðara með að finna vinnu ef þú einblínir á að finna „draumastarfið“ því að þá kemurðu ekki auga á atvinnumöguleikana sem blasa við. Í stað þess að eyða tíma í að leita að einhverju ákveðnu starfi, skaltu vera opinn fyrir öðrum möguleikum. Mundu að það skiptir meira máli að verða fær í starfi sínu en hvaða starf maður hefur. Það hefur sýnt sig að því meiri starfsreynslu og leikni sem starfsfólk hefur, þeim mun meiri ánægju hefur það af vinnunni. Þú þarft ekki að vinna við það sem þú hefur ánægju af til að hafa ánægju af vinnunni.