Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

BÝR HÖNNUN AÐ BAKI?

Skærblár litur pollia-bersins

Skærblár litur pollia-bersins

VÍÐA um Afríku vex planta sem nefnist Pollia condensata. Smágerð ber hennar eru skærblá. Í öllu jurtaríkinu finnst ekki skærblárri litur. Þó er ekkert blátt litarefni í berjunum. Hver er leyndardómurinn að baki þessum sterka lit?

Hugleiddu þetta: Frumuveggirnir í hýði berjanna eru myndaðir úr fíngerðum þráðum sem liggja hlið við hlið eins og röð af eldspýtum. Raðirnar liggja í lögum hver ofan á annarri. Hverju lagi er snúið örlítið miðað við lagið fyrir neðan þannig að þræðirnir mynda gorm- eða skrúfulaga mynstur. Þræðirnir sjálfir eru ekki bláir. Liturinn stafar öllu heldur af því hvernig þeir raðast. Það er því röðun þráðanna en ekki litarefni sem er ástæðan fyrir sterkbláum litnum en hann breytist eftir því hvernig ljósið fellur á berin. Flestar frumurnar virðast bláar en sé breytt um sjónarhorn gefa sumar frá sér græn, bleik eða gul litbrigði eftir því hvernig lögin snúa. Við nánari athugun kemur auk þess í ljós að litirnir eru ekki jafnir heldur virðast þeir dílóttir eins og litir á tölvuskjá.

Þar sem pollia-berin innihalda ekkert litarefni halda þau litnum jafnvel eftir að þau falla af plöntunni. Til eru ber sem voru tínd fyrir rúmri öld en eru enn þá skærblá eins og væru þau nýtínd. Það er ekkert aldinkjöt í berjunum, aðeins fræ. En fuglarnir standast ekki freistinguna þegar þeir sjá berin, að sögn vísindamanna.

Vísindamenn telja að litarefnalaus litur pollia-bersins geti orðið kveikjan að vörum eins og litum sem dofna ekki, pappír sem ekki er hægt að falsa og ýmsu þar á milli.

Hvað heldur þú? Þróaðist skærblár litur pollia-bersins? Eða býr hönnun að baki?