Gleði – eiginleiki sem við fáum frá Guði
FLESTIR vilja njóta ánægju og gleði í lífinu. En núna eru „örðugar tíðir“ og allir kljást við einhverja erfiðleika. (2. Tím. 3:1) Sumir missa gleðina vegna þess að þeir eru beittir órétti, verða veikir, missa vinnuna eða ástvinur deyr. Aðrir missa gleðina vegna einhvers annars sem gerir þá niðurdregna eða kvíðna. Þjónar Guðs geta jafnvel orðið niðurdregnir og misst gleði sína smám saman. Hvernig geturðu endurheimt gleðina ef það hefur hent þig?
Áður en við svörum því skulum við skoða hvað sönn gleði er og hvernig aðrir hafa haldið gleði sinni þrátt fyrir raunir og erfiðleika. Síðan verður rætt um hvernig við getum haldið gleðinni og jafnvel aukið hana.
HVAÐ ER GLEÐI?
Gleði er annað og meira en kæti eða glaðværð. Lýsum því með dæmi: Sá sem er drukkinn kann að vera glaður og kátur. En þegar rennur af honum hverfur gleðin og hann þarf aftur að horfast í augu við lífið sem er kannski fullt af erfiðleikum og sorgum. Skammvinn kæti hans var ekki sönn gleði. – Orðskv. 14:13.
Gleði er aftur á móti eiginleiki sem á rætur í hjartanu. Gleði hefur verið lýst sem „þeirri tilfinningu sem vaknar við að hljóta eitthvað gott eða vænta þess“. Sönn gleði gerir okkur ánægð eða hamingjusöm hvort sem aðstæður okkar eru góðar eða slæmar. (1. Þess. 1:7) Þessi djúpstæða gleði hverfur ekki þó að eitthvað komi okkur úr jafnvægi. Postularnir voru til dæmis húðstrýktir fyrir að tala við aðra um Jesú Krist. En „þeir fóru burt frá ráðinu, glaðir yfir því að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú“. (Post. 5:41) Þeir glöddust að sjálfsögðu ekki yfir að hafa verið húðstrýktir heldur af því að þeir voru Guði ráðvandir.
Gleði er hvorki meðfædd né kemur hún sjálfkrafa. Sönn gleði er hluti af ávexti heilags anda Guðs. Með hjálp anda Guðs getum við ,íklæðst hinum nýja manni‘ en gleði er hluti af honum. (Ef. 4:24; Gal. 5:22) Og þegar við ræktum með okkur gleði erum við betur í stakk búin að takast á við þá erfiðleika sem mæta okkur.
FORDÆMI TIL EFTIRBREYTNI
Það var ekki ætlun Jehóva að ástandið á jörðinni yrði slæmt eins og raun ber vitni heldur átti lífið að vera gott. En illskuverk annarra ræna hann samt ekki gleðinni. Í Biblíunni segir: „Máttur og gleði [eru] á helgistað hans.“ (1. Kron. 16:27) Þar að auki gleður það hjarta Jehóva að sjá allt það góða sem þjónar hans áorka. – Orðskv. 27:11.
Við fylgjum fordæmi Jehóva ef við látum áhyggjur ekki yfirbuga okkur þegar hlutirnir fara ekki eins og við reiknuðum með. Í stað þess að láta það ræna okkur gleðinni getum við einbeitt okkur að því góða sem við njótum *
núna og beðið þolinmóð eftir öllu því góða sem bíður okkar í framtíðinni.Þar að auki eru mörg dæmi í Biblíunni um menn og konur sem varðveittu gleðina í erfiðum aðstæðum. Abraham varðveitti til dæmis gleði sína þó að hann lenti í lífshættu og aðrir gerðu honum lífið leitt. (1. Mós. 12:10-20; 14:8-16; 16:4, 5; 20:1-18; 21:8, 9) Þrátt fyrir erfiðleikana var Abraham glaður í hjarta sér. Hvernig hélt hann gleðinni? Hann hafði skýrt í huga vonina um að búa í nýjum heimi undir stjórn Messíasar. (1. Mós. 22:15-18; Hebr. 11:10) Jesús sagði: „Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn.“ (Jóh. 8:56) Við fylgjum fordæmi Abrahams með því að íhuga gleðina sem bíður okkar. – Rómv. 8:21.
Páll postuli og Sílas, samstarfsmaður hans, höfðu hugann við loforð Guðs rétt eins og Abraham. Þeir höfðu sterka trú og héldu gleðinni þrátt fyrir erfiðar prófraunir. Eitt sinn voru þeir til dæmis barðir illa og þeim kastað í fangelsi. En „um miðnætti báðust þeir Páll og Sílas fyrir og lofsungu Guði“. (Post. 16:23-25) Þeir sóttu styrk í vonina en þeir voru einnig glaðir þar sem þeir þjáðust vegna nafns Krists. Við líkjum eftir Páli og Sílasi með því að muna að okkur er umbunað fyrir að þjóna Guði trúfastlega. – Fil. 1:12-14.
Nú á dögum eru einnig mörg dæmi um bræður og systur sem hafa haldið gleði sinni þrátt fyrir mikla erfiðleika. Fellibylurinn Haiyan lagði til að mynda í rúst heimili meira en 1.000 fjölskyldna bræðra og systra þegar hann gekk yfir miðbik Filippseyja í nóvember 2013. George bjó í Tacloban og húsið hans var lagt í rúst. Hann sagði: „Trúsystkini okkar eru glöð þrátt fyrir það sem gerðist. Ég á erfitt með að lýsa gleðinni sem við finnum fyrir.“ Við getum alltaf haldið gleðinni í erfiðleikum ef við íhugum með þakklæti það sem Jehóva hefur gert fyrir okkur. Hvað fleira hefur Jehóva látið okkur í té sem gefur okkur ástæðu til að vera glöð?
ÁSTÆÐUR TIL AÐ GLEÐJAST
Höfum við nokkra betri ástæðu til að gleðjast en að eiga vináttu við Guð? Hugsaðu þér: Við þekkjum Drottin alheims. Hann er faðir okkar, Guð og vinur. – Sálm. 71:17, 18.
Við kunnum einnig að meta þá gjöf sem lífið er og að geta notið þess. (Préd. 3:12, 13) Við erum skynsemi gæddar verur sem Jehóva hefur dregið til sín og við skiljum vilja hans með okkur. (Kól. 1:9, 10) Þar af leiðandi hefur líf okkar raunverulegan tilgang og við vitum hvernig við eigum að lifa því. Meirihluti mannkyns skilur hins vegar ekki hver er tilgangur lífsins. Þessi munur er undirstrikaður í orðum Páls: „Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, það allt hefur Guð fyrirbúið þeim er hann elska. En Guð hefur látið anda sinn opinbera okkur hana því að andinn rannsakar allt, jafnvel djúpin í Guði.“ (1. Kor. 2:9, 10) Er ekki gleðiefni að við skulum skilja hver sé vilji og fyrirætlun Jehóva?
Veltum fyrir okkur hvað fleira Jehóva hefur gert fyrir þjóna sína. Gleðjumst við ekki yfir því að hann skuli fyrirgefa syndir okkar? (1. Jóh. 2:12) Vegna miskunnar Guðs höfum við örugga von um að fá að lifa í nýja heiminum sem er skammt undan. (Rómv. 12:12) Nú þegar hefur Jehóva gefið okkur góðan félagsskap, trúsystkini okkar. (Sálm. 133:1) Biblían fullvissar okkur einnig um að Jehóva verndi þjóna sína fyrir Satan og illu öndunum. (Sálm. 91:11) Gleði okkar eykst þegar við hugsum um hve ríkulega Jehóva hefur blessað okkur. – Fil. 4:4.
HVERNIG GETUM VIÐ AUKIÐ GLEÐINA?
Getur glaður þjónn Jehóva orðið enn glaðari? Jesús sagði: „Þetta hef ég talað til yðar til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn.“ (Jóh. 15:11) Gefur það ekki til kynna að gleði okkar geti aukist enn frekar, eða fullkomnast? Hægt er að líkja gleðinni við bál. Til að glæða eldinn þarf að bæta á hann. Eins þurfum við að næra okkur andlega til að glæða gleðina. Mundu að gleði er hluti af ávexti anda Guðs. Þess vegna þurfum við stöðugt að biðja um hjálp heilags anda og hugleiða innblásið orð Guðs í bænarhug til að gleði okkar aukist. – Sálm. 1:1, 2; Lúk. 11:13.
Gleði okkar eykst jafnframt ef við erum upptekin af því sem gleður Jehóva. (Sálm. 35:27; 112:1) Af hverju gerist það? Af því að við erum sköpuð til að ,óttast Guð og halda boðorð hans því að það á hver maður að gera‘. (Préd. 12:13) Með öðrum orðum erum við gerð til að gera vilja Guðs. Þess vegna er eðlilegt að við njótum lífsins sem best þegar við þjónum Jehóva. *
GAGNIÐ AF ÞVÍ AÐ ÞROSKA MEÐ SÉR GLEÐI
Við njótum á marga vegu góðs af því að rækta með okkur gleðina sem kemur frá Guði. Til dæmis hefur himneskur faðir okkar meiri velþóknun á okkur þegar við þjónum honum glöð, jafnvel þegar aðstæður eru erfiðar. (5. Mós. 16:15; 1. Þess. 5:16-18) Ef við njótum sannrar gleði leggjum við auk þess ekki megináherslu á efnisleg gæði heldur erum við fús til að færa enn frekari fórnir í þágu Guðsríkis. (Matt. 13:44) Þegar við sjáum gagnið af þessum fórnum eykst gleðin, okkur líður sjálfum betur og við aukum gleði annarra. – Post. 20:35; Fil. 1:3-5.
„Ef maður er glaður og ánægður með lífið núna eru meiri líkur á að maður verði hraustur síðar á lífsleiðinni.“ Þetta skrifaði rannsóknarmaður við Háskólann í Nebraska í Bandaríkjunum eftir að hafa rannsakað hreysti. Þetta kemur heim og saman við Biblíuna sem segir: „Glatt hjarta veitir góða heilsubót.“ (Orðskv. 17:22) Því meir sem gleðin eykst því betri áhrif hefur hún á heilsuna.
Þó að við lifum á erfiðum tímum getum við þroskað með okkur sanna og varanlega gleði. Það er hægt með hjálp heilags anda sem við fáum með því að biðja til Jehóva og lesa og hugleiða orð hans. Auk þess eykst gleði okkar þegar við íhugum þær blessanir sem við njótum nú þegar, líkjum eftir trú annarra og leitumst við að gera vilja Guðs. Þá getum við tekið undir það sem stendur í Sálmi 64:11: „Hinn réttláti gleðst yfir Drottni og leitar hælis hjá honum.“
^ gr. 10 Rætt verður um langlyndi síðar í þessari greinaröð um ,ávöxt andans‘.
^ gr. 20 Sjá rammann „ Fleiri leiðir til að auka gleðina“.