Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frjálsi viljinn er dýrmæt gjöf

Frjálsi viljinn er dýrmæt gjöf

„Þar sem andi Drottins er, þar er frelsi.“ – 2. KOR. 3:17.

SÖNGVAR: 62, 65

1, 2. (a) Hvaða ólíku hugmyndir um frjálsan vilja hefur fólk? (b) Hvað kennir Biblían um frelsið til að taka ákvarðanir og hvaða spurningar eru ræddar í greininni?

KONA nokkur sagði við vin sinn þegar hún þurfti að taka ákvörðun: „Ekki biðja mig um að hugsa. Segðu mér bara hvað ég á að gera. Það er auðveldara fyrir mig.“ Konan vildi frekar láta segja sér hvað hún ætti að gera en að nota frjálsa viljann sem er dýrmæt gjöf frá skaparanum. Hvað um þig? Finnst þér gott að láta aðra segja þér hvað þú átt að gera eða finnst þér betra að geta tekið eigin ákvarðanir? Hvernig hugsar þú um frjálsa viljann?

2 Fólk hefur greint á um þetta mál öldum saman. Sumir segja að það sé ekkert til sem heitir frjáls vilji heldur ákveði Guð fyrir fram allt sem við gerum. Aðrir halda því fram að algert frelsi sé forsenda þess að við getum haft frjálsan vilja. En til að fá nákvæman skilning á þessu máli verðum við að skoða hvað orð Guðs, Biblían, segir um það. Hvers vegna? Þar kemur fram að Jehóva hafi skapað okkur með frjálsan vilja – hæfileikann og frelsið til að taka skynsamlegar ákvarðanir. (Lestu Jósúabók 24:15.) Í Biblíunni eru líka svör við eftirfarandi spurningum: Hvernig eigum við að nota frelsi okkar til að taka ákvarðanir? Er frelsið ótakmarkað? Hvernig getum við sýnt með ákvörðunum okkar hve heitt við elskum Jehóva? Og hvernig getum við sýnt að við virðum ákvarðanir annarra?

HVAÐ GETUM VIÐ LÆRT AF JEHÓVA OG JESÚ?

3. Hvernig beitir Jehóva ótakmörkuðu frelsi sínu?

3 Jehóva einn hefur ótakmarkað frelsi og við getum lært af honum hvernig við eigum að nota frelsi okkar. Jehóva valdi til dæmis Ísraelsmenn til að vera þjóð sín – „eignarlýður“. (5. Mós. 7:6-8) Það var ekki gert af handahófi. Jehóva vildi halda loforð sem hann hafði gefið Abraham, vini sínum, öldum áður. (1. Mós. 22:15-18) Jehóva beitir líka alltaf frelsi sínu í samræmi við kærleika sinn og réttlæti. Það kom vel fram þegar hann agaði Ísraelsmenn sem óhlýðnuðust honum æ ofan í æ. Jehóva sýndi þeim fúslega kærleika og miskunn þegar þeir iðruðust í einlægni. Hann sagði: „Ég ætla að lækna tryggðarof þeirra og elska þá af frjálsum og fúsum vilja.“ (Hós. 14:5) Jehóva notaði frelsið öðrum til góðs! Þar er hann okkur góð fyrirmynd.

4, 5. (a) Hver fékk fyrstur frjálsan vilja að gjöf og hvernig fór hann með hann? (b) Að hverju verðum við öll að spyrja okkur?

4 Þegar Jehóva byrjaði að skapa ákvað hann að gefa vitibornum sköpunarverum sínum frjálsan vilja. Jesús var fyrsta sköpunarverk Jehóva. Hann skapaði hann eftir mynd sinni og gaf honum frjálsan vilja. (Kól. 1:15) Hvernig hefur Jesús notað frelsi sitt? Áður en hann kom til jarðar ákvað hann að vera Jehóva trúr og fylgja ekki Satan í uppreisninni. Þegar Jesús var á jörðinni kaus hann að hafna freistingum Satans. (Matt. 4:10) Kvöldið áður en hann dó sagði hann föður sínum í bæn að hann væri staðráðinn í að gera vilja hans: „Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ (Lúk. 22:42) Við skulum líkja eftir Jesú og nota frelsi okkar til að heiðra Jehóva og gera vilja hans. Getum við það?

5 Já, við getum líkt eftir Jesú af því að við erum sköpuð eftir mynd Guðs, rétt eins og hann. (1. Mós. 1:26) Við höfum hins vegar ekki ótakmarkað frelsi eins og Jehóva. Biblían útskýrir að frelsi okkar séu takmörk sett og að við verðum að viðurkenna þau mörk sem Jehóva setur okkur. Eiginkonur þurfa til dæmis að vera eiginmönnum sínum undirgefnar og börn foreldrum sínum. (Ef. 5:22; 6:1) Hvernig beitum við frjálsa viljanum innan þessara marka? Svarið getur ráðið því hvort við fáum eilíft líf.

AÐ BEITA FRJÁLSA VILJANUM RÉTT EÐA RANGT

6. Lýstu með dæmi hvers vegna það er nauðsynlegt að setja frelsinu takmörk.

6 Erum við frjáls í raun ef við megum bara nota frjálsa viljann innan ákveðins ramma? Já, það erum við. Hvernig er hægt að segja það? Það getur verndað fólk ef frelsi þess eru sett ákveðin takmörk. Tökum dæmi. Við getum ákveðið að aka til ákveðins bæjar langt í burtu. En hugsum okkur að það giltu engin umferðarlög á þjóðvegunum og að menn gætu ráðið sjálfir hve hratt þeir keyrðu og hvorum megin á veginum. Yrði þér óhætt í umferðinni? Auðvitað ekki. Ákveðin takmörk eru nauðsynleg til að allir geti búið við raunverulegt frelsi. Skoðum núna nokkur dæmi í Biblíunni sem sýna að það er til góðs fyrir okkur að Jehóva skuli setja frelsi okkar viss mörk.

7. (a) Hvað hafði Adam til að bera sem dýrin höfðu ekki? (b) Hvernig fékk Adam að nota frjálsa viljann?

7 Guð gaf Adam, fyrsta manninum, einnig frjálsan vilja þegar hann skapaði hann – sömu gjöf og englarnir á himnum fengu. Það greindi hann frá dýrunum þar sem þau láta stjórnast af eðlishvöt. Skoðum hvernig Adam fékk að nota frjálsa viljann. Dýrin voru til á undan Adam. En Jehóva leyfði honum að gefa dýrunum nöfn. Hann „lét þau koma fram fyrir manninn til þess að sjá hvað hann nefndi þau“. Adam fylgdist grannt með hverju dýri fyrir sig og gaf því viðeigandi nafn. Jehóva greip ekki fram fyrir hendurnar á honum heldur leyfði dýrunum að halda nöfnunum. „Hvert það heiti, sem maðurinn [gaf] hinum lifandi skepnum, skyldu þær bera.“ – 1. Mós. 2:19.

8. Hvernig fór Adam með frjálsa viljann og með hvaða afleiðingum?

8 Adam var því miður ekki ánægður með það verkefni að annast paradísina og stækka hana. Guð sagði: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna og ríkið yfir fiskum ... fuglum ... og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.“ (1. Mós. 1:28) Adam kunni ekki að meta það mikla frelsi sem hann hafði fengið til að gera verkefni sínu skil. Hann hunsaði þau takmörk sem Guð hafði sett og borðaði af forboðna ávextinum. Þannig fór hann svívirðilega með frjálsa viljann og kallaði yfir afkomendur sína mikla kvöl og þjáningu um þúsundir ára. (Rómv. 5:12) Munum hvaða afleiðingar ákvörðun Adams hafði. Það getur verið okkur hvöt til að nota frelsi okkar á ábyrgan hátt og virða þau mörk sem Jehóva setur.

9. Hvaða val hafði þjóð Guðs og hverju lofaði hún Jehóva?

9 Allir afkomendur Adams og Evu hafa fengið ófullkomleika og dauða í arf. Guð tók hins vegar ekki frjálsa viljann frá þeim. Það má sjá af því hvernig hann kom fram við Ísraelsmenn. Hann gaf þjóðinni val. Hún gat valið að verða „sérstök eign“ hans eða hafna því. (2. Mós. 19:3-6) Hvað valdi þjóðin? Af fúsum og frjálsum vilja valdi hún að verða þjóð Guðs og lúta honum. Einum rómi svaraði hún: „Við skulum gera allt sem Drottinn hefur boðið.“ (2. Mós. 19:8) Seinna meir fór þjóðin illa með frjálsa viljann og sveik því miður loforðið. Við getum lært heilmikið af því. Við skulum alltaf hlýða réttlátum lögum Jehóva og varðveita náið samband við hann. Þannig sýnum við að við erum þakklát fyrir að hafa fengið frjálsan vilja að gjöf. – 1. Kor. 10:11.

10. Hvaða dæmi sýna að ófullkomið fólk getur notað frjálsa viljann til að heiðra Guð? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

10 Í Hebreabréfinu 11. kafla er að finna nöfn 16 þjóna Jehóva sem völdu að nota frjálsa viljann innan þess ramma sem hann setur. Fyrir vikið hlutu þeir ríkulega blessun og örugga framtíðarvon. Nói hafði sterka trú og sýndi það með því að smíða örk til bjargar fjölskyldu sinni og ókomnum kynslóðum. (Hebr. 11:7) Abraham og Sara hlýddu fúslega leiðsögn Guðs og fluttust frá blómlegri borg til lands sem Guð lofaði að gefa þeim. Jafnvel á leiðinni þangað höfðu þau tækifæri til að snúa aftur til Úr. En þau horfðu með augum trúarinnar á það sem Guð hafði lofað þeim. Þau þráðu „betri ættjörð“ en þau komu frá. (Hebr. 11:8, 13, 15, 16) Móse sneri bakinu við fjársjóðum Egyptalands og „kaus fremur að þola illt með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni“. (Hebr. 11:24-26) Við skulum líkja eftir trú þessara karla og kvenna og nota frjálsa viljann á réttan hátt – til að gera vilja Guðs.

11. (a) Hvaða tækifæri höfum við þar sem við höfum frjálsan vilja? (b) Af hverju viltu nota frjálsa viljann Jehóva til heiðurs?

11 Það gæti virst auðveldara að láta aðra taka ákvörðun fyrir okkur. En þá misstum við af tækifæri sem lýst er í 5. Mósebók 30:19, 20. (Lestu.) Í versi 19 kemur fram að Jehóva gaf Ísraelsmönnum tvo valkosti. Í versi 20 sjáum við að þeir fengu tækifæri til að sýna honum hve heitt þeir elskuðu hann. Við fáum líka að velja hvort við þjónum Jehóva eða ekki. Við höfum frábært tækifæri til sýna Jehóva hve innilega við elskum hann með því að nota frjálsa viljann honum til heiðurs.

MISNOTAÐU EKKI FRJÁLSA VILJANN

12. Hvernig megum við aldrei fara með þá gjöf sem frjálsi viljinn er?

12 Ímyndaðu þér að þú gæfir vini þínum dýrmæta gjöf. Þú fréttir síðan að hann hafi hent henni í ruslið eða notað hana til að skaða einhvern. Yrðirðu ekki vonsvikinn? Jehóva hefur gefið okkur frjálsan vilja. Það hlýtur að særa hann mikið að horfa upp á svo marga misnota frelsi sitt og taka rangar ákvarðanir í lífinu sem skaða jafnvel aðra. Biblían spáði því að menn yrðu „vanþakklátir“ á „síðustu dögum“. (2. Tím. 3:1, 2) Við skulum aldrei misnota þessa verðmætu gjöf frá Jehóva né líta á hana sem sjálfsagðan hlut. En hvernig getum við forðast það?

13. Hvernig ættum við ekki að nota frjálsan vilja okkar?

13 Okkur er öllum frjálst að velja okkur félagsskap, afþreyingu og klæðnað. En ef við værum þrælar holdlegra langana eða eltumst við tískusveiflur heimsins gætum við farið að misnota þetta frelsi til að „hylja vonsku“. (Lestu 1. Pétursbréf 2:16.) Við viljum alls ekki nota frelsi okkar „í þágu eigin girnda“ heldur nota það til að ,gera allt Guði til dýrðar‘ eins og við erum hvött til. – Gal. 5:13; 1. Kor. 10:31.

14. Hvað þurfum við að gera til að nota frjálsa viljann rétt?

14 Hvað annað getum við gert til að taka góðar ákvarðanir innan þess ramma sem Jehóva setur? Við þurfum að treysta honum og leyfa honum að leiðbeina okkur og vernda. Hann ,kennir okkur það sem gagnlegt er, leiðir okkur þann veg sem við skulum ganga‘. (Jes. 48:17) Við verðum að vera auðmjúk og viðurkenna að „enginn maður ræður för sinni, enginn stýrir skrefum sínum á göngunni“. (Jer. 10:23) Göngum aldrei í þá gildru að reiða okkur á eigið hyggjuvit eins og Adam og uppreisnargjarnir Ísraelsmenn gerðu. Við skulum heldur treysta Jehóva af öllu hjarta. – Orðskv. 3:5.

VIRTU VALFRELSI ANNARRA

15. Hvað lærum við af meginreglunni í Galatabréfinu 6:5?

15 Við verðum að virða rétt annarra til að taka ákvarðanir og það setur frelsi okkar vissar skorður. Við höfum öll fengið frjálsan vilja að gjöf og engir tveir einstaklingar taka nákvæmlega sömu ákvörðun, ekki einu sinni í málum sem varða hegðun eða tilbeiðslu. Í Galatabréfinu 6:5 erum við minnt á mikilvæga meginreglu. (Lestu.) Við virðum valfrelsi annarra ef við höfum hugfast að „sérhver mun verða að bera sína byrði“.

Við getum tekið ákvarðanir án þess að þröngva samvisku okkar upp á aðra. (Sjá 15. grein.)

16, 17. (a) Hvaða vandamál kom upp í Korintu vegna valfrelsis? (b) Hvað gerði Páll til að leysa ágreininginn og hvað lærum við um réttindi annarra af þessu dæmi?

16 Skoðum dæmi í Biblíunni sem sýnir vel hvers vegna það er mikilvægt að virða val annarra í samviskumálum. Kristna menn í Korintu greindi á um hvort borða mætti kjöt sem hafði hugsanlega verið fórnað skurðgoðum en var síðan selt á markaði. Sumir hugsuðu sem svo að skurðgoð væri ekki neitt og því mætti borða kjötið með góðri samvisku. Öðrum sem höfðu áður tilbeðið skurðgoð fannst rangt að borða kjötið því að það væri ákveðin tilbeiðsluathöfn. (1. Kor. 8:4, 7) Þetta var viðkvæmt mál og ógnaði einingu safnaðarins. Hvernig hjálpaði Páll kristnum mönnum í Korintu að sjá málið frá sjónarhóli Jehóva?

17 Páll minnti fyrst báða hópana á að matur færði þá ekki nær Guði. (1. Kor. 8:8) Því næst varaði hann þá við að nota frelsi sitt þannig að það yrði „hinum óstyrku að falli“. (1. Kor. 8:9) Síðan sagði hann þeim sem voru með viðkvæma samvisku að dæma ekki hina sem kusu að borða þetta kjöt. (1. Kor. 10:25, 29, 30) Þetta mál var síður en svo lítilvægt þar sem það tengdist tilbeiðslunni. Samt sem áður mátti hver og einn taka eigin ákvörðun í samræmi við samvisku sína. Ættum við þá ekki að virða rétt trúsystkina okkar til að taka ákvarðanir í málum sem skipta minna máli? – 1. Kor. 10:32, 33.

18. Hvernig ætlarðu að sýna að frjálsi viljinn sé þér mikils virði?

18 Jehóva hefur gefið okkur frjálsan vilja og honum fylgir sannkallað frelsi. (2. Kor. 3:17) Þessi gjöf er okkur mikils virði af því að hún gefur okkur tækifæri til að taka ákvarðanir sem sýna Jehóva hve heitt við elskum hann. Við skulum halda áfram að sýna að við kunnum að meta þessa dýrmætu gjöf með því að nota hana Jehóva til heiðurs. Virðum einnig rétt annarra til að beita frjálsum vilja sínum eins og þeim þykir best.