Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Friður – hvernig er hægt að finna hann?

Friður – hvernig er hægt að finna hann?

VIÐ búum í heimi þar sem mikið er um ágreining og átök. Þess vegna þurfum við að leggja hart að okkur til að njóta friðar. En þó að við njótum friðar að nokkru marki er oft erfitt að viðhalda honum. Hvernig getur orð Guðs hjálpað okkur að finna sannan og varanlegan frið? Og hvernig getum við hjálpað öðrum að eignast slíkan frið?

HVERNIG GETUM VIÐ ÖÐLAST SANNAN FRIÐ?

Við njótum ekki friðar í raun nema okkur líði vel og við finnum til öryggis. Og við þurfum líka að byggja upp sterka vináttu við aðra. Mikilvægast er þó að eiga náið samband við Guð til að njóta varanlegs friðar. Hvernig getum við það?

Áhyggjur lífsins ræna marga friði.

Þegar við hlýðum réttlátum fyrirmælum og meginreglum Jehóva sýnum við að við treystum honum og að okkur langar til að eiga friðsamlegt samband við hann. (Jer. 17:7, 8; Jak. 2:22, 23) Þá nálægir hann sig okkur og veitir okkur innri frið. Í Jesaja 32:17 segir: „Ávöxtur réttlætisins verður friður og afrakstur réttlætisins hvíld og öryggi um eilífð.“ Ef við hlýðum Jehóva í einlægni öðlumst við innri frið. – Jes. 48:18, 19.

Heilagur andi, einstök gjöf frá himneskum föður okkar, auðveldar okkur líka að eignast varanlegan frið. – Post. 9:31.

ANDI GUÐS AUÐVELDAR OKKUR AÐ VERA FRIÐSÖM

Páll postuli nefnir frið sem þriðja eiginleika ,ávaxtar andans‘. (Gal. 5:22, 23) Sannur friður er ávöxtur anda Guðs og þess vegna þurfum við að leyfa heilögum anda að verka í okkur til að þroska með okkur þennan eiginleika. Skoðum hvernig andi Guðs getur hjálpað okkur á tvo vegu að öðlast frið.

Í fyrsta lagi fáum við hjálp til að temja okkur friðsemi með því að lesa reglulega í innblásnu orði Guðs. (Sálm. 1:2, 3) Þegar við hugleiðum boðskap Biblíunnar fáum við hjálp heilags anda til að skilja hvernig Jehóva lítur á hlutina. Við sjáum til dæmis að hann er alltaf friðsamur og hvers vegna friður skiptir hann miklu máli. Þegar við tökum til okkar kennsluna í orði Guðs njótum við meiri friðar. – Orðskv. 3:1, 2.

Í öðru lagi þurfum við að biðja um heilagan anda Guðs. (Lúk. 11:13) Ef við biðjum Jehóva um hjálp lofar hann okkur þessu: „Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“ (Fil. 4:6, 7) Þegar við biðjum oft um heilagan anda veitir Jehóva okkur þann innri frið sem aðeins er hægt að njóta með því að eiga gott vináttusamband við hann. – Rómv. 15:13.

Sumir hafa tekið til sín ráð Biblíunnar og gert nauðsynlegar breytingar. Það hefur veitt þeim frið við Jehóva, sjálfa sig og aðra. Hvernig?

ÞAU URÐU FRIÐSÖM

Sumir í kristna söfnuðinum á okkar dögum voru áður reiðigjarnir en eru nú orðnir hugulsamir, gæskuríkir, þolinmóðir og friðsamir í samskiptum við aðra. * (Orðskv. 29:22) Þetta er reynsla tveggja trúsystkina okkar. Þau fengu hjálp til að sigrast á reiði og verða friðsöm.

Við getum öðlast frið með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar og biðja um anda Guðs.

David var neikvæður og það kom fram í talsmáta hans. Áður en hann kynntist sannleikanum var hann oft gagnrýninn og kom illa fram við fjölskylduna. Með tímanum skildi David að hann þyrfti að breyta sér og temja sér friðsemi. Hvernig tókst honum það? Hann segir: „Þegar ég byrjaði að fara eftir meginreglum Biblíunnar stuðlaði það að gagnkvæmri virðingu milli mín og annarra í fjölskyldunni.“

Rachel átti erfiða æsku og það hafði áhrif á framkomu hennar. Hún viðurkennir: „Ég glími enn við reiði því að ég er alin upp í fjölskyldu þar sem reiði var ríkjandi.“ Hvað hjálpaði henni að verða friðsamari? Hún svarar: „Ég bað Jehóva oft um hjálp.“

David og Rachel eru dæmi um friðsælan ávöxt þess að taka til sín meginreglurnar í orði Guðs og reiða sig á hjálp anda hans. Við getum því átt frið í fjölskyldunni og við trúsystkini okkar þó að við búum í fjandsamlegum heimi. En Jehóva hvetur okkur til að hafa „frið við alla menn“. (Rómv. 12:18) Er það hægt? Og hvernig er það til góðs að leggja sig fram um að hafa frið við aðra?

VINNUM AÐ FRIÐI VIÐ AÐRA

Með boðuninni bjóðum við fólki að njóta góðs af friðarboðskapnum um ríki Guðs. (Jes. 9:5, 6; Matt. 24:14) Sem betur fer hafa margir tekið við boðskapnum. Þeir eru því ekki lengur örvæntingarfullir eða reiðir vegna þess sem gerist í kringum þá heldur hafa trausta von um framtíðina og ,leita friðar og leggja stund á hann‘. – Sálm. 34:15.

Ekki eru allir jákvæðir gagnvart boðskapnum, að minnsta kosti ekki til að byrja með. (Jóh. 3:19) En þó að þeir séu það ekki hjálpar andi Guðs okkur að færa þeim fagnaðarboðskapinn á virðulegan og friðsaman hátt. Þannig förum við eftir leiðbeiningum Jesú um boðunina í Matteusi 10:11-13. Þar gefur hann þetta ráð: „Þegar þér komið í hús þá árnið því góðs og sé það verðugt skal friður yðar koma yfir það en sé það ekki verðugt skal friður yðar aftur hverfa til yðar.“ Þegar við fylgjum leiðbeiningum Jesú getum við farið í friði með von um að húsráðandinn hlusti á boðskapinn síðar.

Við stuðlum einnig að friði þegar við sýnum embættismönnum virðingu – líka þeim sem eru á móti starfi okkar. Til dæmis lét ríkisstjórn í einu Afríkuríki fordóma koma í veg fyrir að við fengjum leyfi til að byggja ríkissali. Í von um að leysa málið friðsamlega var bróðir, sem hafði verið trúboði í þessu landi, fenginn til að tala við sendiherra landsins í Lundúnum. Hann átti að segja honum frá því friðsama starfi sem vottar Jehóva sinna í heimalandi hans. Hvernig fór?

Hann segir: „Af klæðaburði konunnar í móttökunni ályktaði ég af hvaða ættbálki hún væri. Ég hafði einmitt lært málið sem þessi ættbálkur talar og heilsaði henni á því máli. Hún varð hissa og spurði mig hvert erindið væri. Ég bað kurteislega um að fá að tala við sendiherrann. Konan hringdi í sendiherrann sem kom fram og heilsaði mér á sama tungumáli. Síðan hlustaði hann vandlega á mál mitt þegar ég sagði honum frá friðsömu starfi vottanna.“

Kurteisleg skýring bróðurins leiðrétti misskilning og fordóma sem sendiherrann hafði gagnvart starfi okkar. Einhverju síðar aflétti ríkisstjórn landsins banninu við að byggja ríkissali. Trúsystkini okkar voru himinlifandi yfir því að málið leystist svo friðsamlega. Friður er einn af þeim mörgu kostum sem fylgja því að koma fram við aðra af virðingu.

NJÓTUM VARANLEGS FRIÐAR

Þjónar Jehóva nú á dögum njóta raunverulegs friðar í andlegri paradís. Við aukum friðinn með því að rækta með okkur þennan eiginleika ávaxtar andans. Og það sem meira er, við njótum velþóknunar Jehóva og ríkulegs friðar í nýjum heimi hans að eilífu. – 2. Pét. 3:13, 14.

^ gr. 13 Rætt verður um gæsku síðar í þessari greinaröð um ávöxt anda Guðs.