Gleymið ekki að sýna aðkomufólki góðvild
„Gleymið ekki gestrisninni.“ – HEBR. 13:2.
1, 2. (a) Hvað þarf margt aðflutt fólk að takast á við? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Á hvað minnti Páll postuli og hvaða spurningar vekur það?
OSEI [1] fluttist frá Gana til Evrópu fyrir rúmlega 30 árum. Hann var ekki vottur á þeim tíma. „Ég komst fljótlega að raun um að flestum stóð á sama um mig,“ segir hann. „Það var líka heilmikið áfall að uppgötva hvernig loftslagið var. Ég fór að gráta þegar ég yfirgaf flugstöðina og fann fyrir kuldanum í fyrsta sinn.“ Osei átti í basli við að læra tungumálið og tókst ekki að finna almennilega vinnu í meira en ár. Hann var fjarri fjölskyldunni, einmana og með heimþrá.
2 Veltu fyrir þér hvernig þú vildir að aðrir kæmu fram við þig ef þú stæðir í svipuðum sporum. Myndi þér ekki þykja gott að fá hlýlegar móttökur í ríkissalnum, óháð þjóðerni þínu eða hörundslit? Biblían hvetur sannkristna menn til að ,gleyma ekki gestrisninni‘, það er að segja að sýna aðkomufólki góðvild. (Hebr. 13:2) Við skulum því leita svara við eftirfarandi spurningum: Hvernig lítur Jehóva á aðkomufólk? Hvers vegna gætum við þurft að endurskoða afstöðu okkar til aðkomufólks? Og hvernig getum við stuðlað að því að fólk af erlendu bergi brotið kunni vel við sig í söfnuðinum okkar?
VIÐHORF JEHÓVA TIL AÐKOMUFÓLKS
3, 4. Hvernig átti þjóð Guðs til forna að koma fram við útlendinga, samanber 2. Mósebók 23:9, og hvers vegna?
3 Eftir að Jehóva frelsaði Ísraelsmenn frá Egyptalandi setti hann þeim lög sem vitnuðu um umhyggju hans fyrir þeim mörgu útlendingum sem höfðu slegist í för með þeim. (2. Mós. 12:38, 49; 22:20) Útlendingar eiga oft erfitt uppdráttar og Jehóva gerði því sérstakar ráðstafanir til að hjálpa þeim. Ein þeirra var að þeir máttu tína það sem eftir var á ökrum og í víngörðum eftir að uppskeru var lokið. – 3. Mós. 19:9, 10.
4 Jehóva fyrirskipaði ekki Ísraelsmönnum að bera virðingu fyrir útlendingum heldur höfðaði til samkenndar þeirra. (Lestu 2. Mósebók 23:9.) Þeir þekktu af eigin raun hvernig það var að vera aðkomumenn í öðru landi. Líklegt er að Egyptar hafi sniðgengið Ísraelsmenn sökum þjóðernishroka eða trúarfordóma, jafnvel áður en þeir hnepptu þá í þrælkun. (1. Mós. 43:32; 46:34; 2. Mós. 1:11-14) Ísraelsmenn vissu hve erfitt var að vera útlendingar en Jehóva ætlaðist til að þeir kæmu fram við útlendinga sín á meðal eins og ,innborna menn‘. – 3. Mós. 19:33, 34.
5. Hvað getur hjálpað okkur að endurspegla umhyggju Jehóva fyrir útlendingum?
5 Jehóva lætur sér jafn annt um fólk af erlendum uppruna sem sækir samkomur hjá okkur og um útlendingana sem bjuggu meðal Ísraelsmanna. (5. Mós. 10:17-19; Mal. 3:5, 6) Ef við hugleiðum þær áskoranir, sem það þarf að takast á við, svo sem mismunun og framandi tungumál, reynum við eflaust að sýna því góðvild og samkennd. – 1. Pét. 3:8.
ÞURFUM VIÐ AÐ SJÁ AÐKOMUFÓLK Í ÖÐRU LJÓSI?
6, 7. Hvað sýnir að frumkristnir menn sigruðust á rótgrónum fordómum?
6 Kristnir menn á fyrstu öld sigruðust á rótgrónum fordómum sem ríktu meðal Gyðinga. Á hvítasunnu árið 33 voru kristnir menn í Jerúsalem gestrisnir við fólk frá ýmsum löndum sem var nýbúið að taka trú. (Post. 2:5, 44-47) Ást og umhyggja þeirra fyrir trúsystkinum vitnar um að þeir skildu hvað fólst í hugtakinu gestrisni, það er að segja að sýna aðkomufólki góðvild.
7 Þegar fjölgaði í frumkristna söfnuðinum kom upp sú staða að fólki virtist vera mismunað. Grískumælandi Gyðingar kvörtuðu undan því að horft væri fram hjá ekkjum úr þeirra hópi. (Post. 6:1) Postularnir skipuðu þá sjö menn til að tryggja að enginn yrði út undan. Þessir menn hétu allir grískum nöfnum. Það bendir til þess að postularnir hafi viljað gera sitt ýtrasta til að draga úr spennunni sem virðist hafa verið meðal frumkristinna manna vegna mismunandi uppruna. – Post. 6:2-6.
8, 9. (a) Hvað getur bent til þess að við séum haldin fordómum eða þjóðernishroka? (b) Hvað þurfum við að uppræta úr hjarta okkar? (1. Pét. 1:22)
8 Við erum öll undir sterkum áhrifum okkar eigin menningar, hvort sem við erum meðvituð um það eða ekki. (Rómv. 12:2) Líklegt er að við heyrum nágranna okkar, vinnufélaga eða skólafélaga segja eitthvað niðrandi um fólk af öðrum uppruna, þjóðerni eða hörundslit. Hve sterk áhrif hafa fordómar annarra á okkur? Og hvernig eru viðbrögð okkar þegar gert er grín að þjóðerni okkar, til dæmis með því að ýkja einhver einkenni menningar okkar?
9 Pétur postuli var um tíma með fordóma í garð fólks af öðrum þjóðum. En honum tókst smám saman að uppræta neikvæð viðhorf úr hjarta sér. (Post. 10:28, 34, 35; Gal. 2:11-14) Ef við finnum fyrir einhverjum fordómum eða þjóðernishroka í fari okkar ættum við sömuleiðis að uppræta það markvisst úr hjarta okkar. (Lestu 1. Pétursbréf 1:22.) Það er gott að minna sig á að ekkert okkar verðskuldar hjálpræði. Við erum öll ófullkomin, óháð þjóðerni. (Rómv. 3:9, 10, 21-24) Af hverju ætti okkur þá að finnast við vera yfir aðra hafin? (1. Kor. 4:7) Við ættum að hugsa líkt og Páll postuli en hann minnti andasmurð trúsystkini sín á að þau væru „ekki framar gestir og útlendingar heldur ... heimamenn Guðs“. (Ef. 2:19) Ef við leggjum okkur fram við að uppræta úr hjarta okkar fordóma í garð fólks af öðrum uppruna auðveldar það okkur að íklæðast hinum nýja manni. – Kól. 3:10, 11.
AÐ SÝNA ÓKUNNUGUM GÓÐVILD
10, 11. Hvernig sést af samskiptum Bóasar við Rut frá Móab að hann hafði tileinkað sér viðhorf Jehóva til ókunnugra?
10 Bóas hafði greinilega tileinkað sér viðhorf Jehóva til ókunnugra. Það má sjá af framkomu hans við Rut frá Móab. Þegar hann kom til að líta eftir ökrum sínum um uppskerutímann tók hann strax eftir duglegri útlendri konu sem tíndi korn á eftir kornskurðarmönnunum. Samkvæmt Móselögunum hafði hún rétt til að gera það, en þegar Bóasi var sagt að hún hefði beðið um leyfi sýndi hann það örlæti að leyfa henni að tína korn innan um kornbindin. – Lestu Rutarbók 2:5-7, 15, 16.
11 Af framhaldinu má sjá að Bóas lét sér annt um Rut og bága stöðu hennar sem útlendings. Hann bauð henni að halda sig nálægt stúlkunum hans til að vinnumennirnir ömuðust ekki við henni. Hann sá jafnvel um að hún fengi nóg að borða og drekka, rétt eins og vinnufólkið. Bóas talaði ekki niður til þessarar fátæku útlendu konu heldur hughreysti hana. – Rut. 2:8-10, 13, 14.
12. Hvaða jákvæðu áhrif getum við haft með því að sýna þeim góðvild sem eru nýfluttir frá framandi landi?
12 Bóas hreifst bæði af því að Rut skyldi sýna Naomí, tengdamóður sinni, óeigingjarnan kærleika og að hún skyldi vera farin að tilbiðja Jehóva. Góðvild Bóasar endurspeglaði kærleika Jehóva til þessarar konu sem var komin til að ,leita verndar undir vængjum hans‘. (Rut. 2:12, 20; Orðskv. 19:17) Með því að sýna góðvild getum við hjálpað alls konar fólki að kynnast sannleikanum og skynja hve heitt Jehóva elskar þá. – 1. Tím. 2:3, 4.
13, 14. (a) Hvers vegna ættum við að heilsa aðkomufólki í ríkissalnum? (b) Hvað geturðu gert ef þér finnst vandræðalegt að tala við fólk frá öðrum menningarheimi?
13 Við getum sýnt útlendingum, sem eru nýfluttir til landsins, góðvild með því að taka hlýlega á móti þeim í ríkissalnum. Þú hefur ef til vill tekið eftir að innflytjendur eru stundum feimnir og hlédrægir. Uppeldi þeirra og þjóðfélagsstaða getur haft þau áhrif að þeim finnist þeir óæðri en fólk af öðrum kynþætti eða þjóðerni. Við ættum því að eiga frumkvæðið og sýna þeim hlýju og einlægan áhuga. Með því að nota appið JW Language geturðu ef til vill lært að heilsa aðkomumönnum á móðurmáli þeirra. – Lestu Filippíbréfið 2:3, 4.
14 Þú óttast kannski að þú verðir vandræðalegur ef þú gefur þig á tal við fólk frá
öðrum menningarheimi. Til að sigrast á þessari tilfinningu gætirðu kannski sagt eitthvað frá sjálfum þér. Oft kemur þá í ljós að þið eigið margt sameiginlegt þó að sumt virðist ólíkt við fyrstu sýn. Þú uppgötvar líklega að báðir menningarheimar hafa sína styrkleika og veikleika.STUÐLUM AÐ ÞVÍ AÐ ALLIR KUNNI VEL VIÐ SIG
15. Hvað hjálpar okkur að vera skilningsrík í garð þeirra sem eru að laga sig að aðstæðum í nýju landi?
15 Þú getur stuðlað að því að öðrum líði vel í söfnuðinum með því að spyrja þig: Hvernig vildi ég láta koma fram við mig ef ég flyttist til annars lands? (Matt. 7:12) Vertu þolinmóður við þá sem eru að laga sig að aðstæðum í nýju landi. Í byrjun skiljum við ef til vill ekki til fulls hugsunarhátt þeirra og viðbrögð. En er ekki ágætt að taka þeim eins og þeir eru í stað þess að ætlast til að þeir tileinki sér þína menningu? – Lestu Rómverjabréfið 15:7.
16, 17. (a) Hvað getum við gert til að tengjast trúsystkinum frá öðrum menningarheimum nánari böndum? (b) Hvernig getum við aðstoðað innflytjendur í söfnuðinum okkar?
16 Við eigum líklega auðveldara með að eiga samskipti við hina aðfluttu ef við öflum okkur upplýsinga um heimaland þeirra og menningu. Kannski getum við gefið okkur tíma í tilbeiðslustund fjölskyldunnar til að kynna okkur betur menningarheima þeirra sem eru í söfnuðinum okkar eða á starfssvæðinu. Önnur leið til að kynnast þeim betur er að bjóða þeim heim í mat. Fyrst Jehóva hefur „opnað ... dyr trúarinnar“ fyrir fólki af öllum þjóðum ættum við að geta opnað okkar eigin dyr fyrir aðfluttum trúsystkinum. – Post. 14:27; Gal. 6:10; Job. 31:32.
17 Með því að verja tíma með aðfluttri fjölskyldu getum við áttað okkur betur á Orðskv. 3:27.
því sem hún leggur á sig til að aðlagast menningu okkar. En hún þarf eflaust aðstoð við að læra tungumálið. Getum við bent á opinbera aðila sem geta aðstoðað við að finna hentugt húsnæði eða vinnu? Það getur verið mikils virði fyrir trúsystkini okkar ef við leggjum þeim lið með þessum hætti. –18. Hvað geta innflytjendur lært af Rut?
18 Innflytjendur ættu auðvitað að gera sitt besta til að laga sig að menningu nýja landsins. Rut er góð fyrirmynd um það. Í fyrsta lagi sýndi hún virðingu fyrir siðvenjum í nýja landinu með því að biðja um leyfi til að tína korn á ökrunum. (Rut. 2:7) Hún gekk ekki að því sem gefnum hlut að hún ætti þennan rétt, eins og aðrir skulduðu henni eitthvað. Í öðru lagi var hún innilega þakklát fyrir þá góðvild sem hún naut. (Rut. 2:13) Þegar innflytjendur hugsa þannig eykur það líkurnar á að þeir ávinni sér virðingu heimamanna og trúsystkina.
19. Hvers vegna ættum við að taka vel á móti aðkomufólki?
19 Það gleður okkur að Jehóva skuli sýna þá einstöku góðvild að leyfa fólki af öllum þjóðum að heyra fagnaðarerindið. Sumir hafa ekki haft tækifæri til að kynna sér Biblíuna í heimalandi sínu eða sækja samkomur með þjónum Jehóva. En núna hafa þeir tækifæri til að vera með okkur. Ættum við þá ekki að hjálpa þeim svo að þeir finni að þeir eigi heima meðal okkar? Við höfum kannski takmarkaða möguleika á að aðstoða þá fjárhagslega eða hjálpa þeim að finna sér húsnæði, vinnu og fleira. Við endurspeglum hins vegar kærleika Jehóva til þeirra með því að sýna þeim góðvild. Verum því „eftirbreytendur Guðs“ og gerum okkar allra besta til að taka hlýlega á móti aðkomufólki á meðal okkar. – Ef. 5:1, 2.
^ [1] (1. grein.) Nafninu er breytt.