Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það er mikilvægt að ræða málin opinskátt og í tíma.

Þegar ástvinur er með banvænan sjúkdóm

Þegar ástvinur er með banvænan sjúkdóm

DOREEN var mjög brugðið þegar Wesley, eiginmaður hennar, greindist með ágengt og illkynja heilaæxli aðeins 54 ára að aldri. * Læknarnir sögðu að hann ætti aðeins fáeina mánuði eftir ólifaða. „Ég trúði ekki því sem þeir sögðu,“ segir hún. „Ég var alveg dofin í margar vikur. Mér leið eins og þetta væri að koma fyrir einhverja aðra en ekki okkur. Ég var ekki undir þetta búin.“

Það er ekki óalgengt að fólk bregðist við eins og Doreen. Banvænn sjúkdómur getur skyndilega skotið upp kollinum hjá hverjum sem er. Og það er sannarlega hrósvert þegar aðstandendur taka fúslega að sér að annast ástvin sem greinist með banvænan sjúkdóm. En slík umönnun getur tekið verulega á. Hvað getur fjölskyldan gert til að annast ástvin sinn sem best? Hvernig geta þeir sem annast hinn veika tekist á við allar þær tilfinningar sem þeir kunna að upplifa meðan á veikindum ástvinarins stendur? Og hverju má búast við þegar dauðinn nálgast? Fyrst skulum við þó skoða hvers vegna það er einstaklega mikil áskorun nú á tímum að annast einhvern sem er með banvænan sjúkdóm.

NÚTÍMAVANDI

Í kjölfar framfara í læknavísindum getur fólk lifað lengur en áður. Fyrir um það bil einni öld var meðalaldur manna mun styttri, jafnvel í iðnríkjum heims. Flestir dóu fljótlega ef þeir fengu smitsjúkdóm eða lentu í slysi. Fólk hafði takmarkaðan aðgang að sjúkrahúsum og því voru flestir sjúklingar í umsjá fjölskyldunnar og dóu heima fyrir.

Nútímalæknisfræði hefur gert læknum kleift að berjast gegn illvígum sjúkdómum til að lengja líf fólks. Sjúkdóma, sem áður fyrr hefðu bundið snöggan enda á líf fólks, er nú hægt að meðhöndla þannig að hægt er að lengja líf sjúklingsins. En það þýðir ekki endilega að hann læknist af sjúkdómnum. Margir sjúklingar eiga við það alvarlegan heilsubrest að stríða að þeir eru ófærir um að sjá um sig sjálfir. Umönnun slíkra sjúklinga er mjög flókin og erfið.

Þar af leiðandi er mun algengara að fólk verji síðustu dögum ævi sinnar á sjúkrahúsum en ekki heima. Dánarferlið er flestum ókunnugt nú á tímum og fáir hafa í raun horft upp á einhvern deyja. Þess vegna getur óttinn við hið óþekkta dregið úr viðleitni aðstandenda eða jafnvel hindrað þá í að annast dauðvona ástvin. En hvað er til ráða?

SKIPULEGGIÐ FYRIR FRAM

Margir verða niðurbrotnir þegar ástvinur greinist með banvænan sjúkdóm, líkt og Doreen sem sagt er frá í byrjun greinarinnar. En hvernig er hægt að búa sig undir það sem fram undan er þrátt fyrir mikinn kvíða, ótta og sorg? Trúfastur þjónn Guðs bað eitt sinn: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ (Sálmur 90:12) Biddu Guð einlæglega að sýna þér hvernig þú getur ,talið daga þína‘ viturlega þannig að þú getir notað tímann, sem eftir er með ástvini þínum, á sem bestan hátt.

Það er nauðsynlegt að skipuleggja fyrir fram. Ef ástvinur þinn getur enn tjáð sig og er fús til að ræða málin er viturlegt að spyrja hann hver eigi að taka ákvarðanir þegar hann getur ekki lengur gert það sjálfur. Það er gott að ræða hreinskilnislega um hvort hann vilji endurlífgun, vera lagður inn á spítala eða hvort hann samþykki ákveðna meðferð. Það getur komið í veg fyrir misskilning og sektarkennd aðstandenda sem þurfa að taka ákvarðanir fyrir sjúklinginn ef hann er ófær um það. Ef málin eru rædd opinskátt og í tíma getur fjölskyldan einbeitt sér að því að ástvinur þeirra fái sem besta umönnun. Í Biblíunni segir: „Áform verða að engu þar sem engin er ráðagerðin.“ – Orðskviðirnir 15:22.

AÐ VEITA AÐSTOÐ

Yfirleitt er hlutverk þess sem annast sjúklinginn aðallega að hughreysta hann og sjá til þess að honum líði vel. Dauðvona sjúklingur þarf að vita að hann sé elskaður og standi ekki einn. Hvernig er hægt að sýna það? Þú gætir lesið eða sungið fyrir sjúklinginn og valið lesefni og söngva sem eru uppbyggjandi og ánægjulegir fyrir hann. Mörgum finnst hughreystandi þegar einhver úr fjölskyldunni heldur í höndina á þeim og talar blíðlega til þeirra.

Þegar einhver kemur í heimsókn er gott að segja sjúklingnum hver það er. Í skýrslu einni segir: „Heyrnin er það skilningarvit sem fer síðast hjá flestum. Oft heyrir [sjúklingurinn] mjög vel það sem fram fer í kringum hann þótt hann virðist vera sofandi. Forðastu því að segja nokkuð í viðurvist hans sem þú myndir ekki segja við hann ef hann væri vakandi.“

Biðjið saman ef kostur er. Í Biblíunni er sagt frá atviki þar sem Páll postuli og samferðamenn hans voru undir miklu álagi og jafnvel hræddir um líf sitt. Hvar leituðu þeir hjálpar? Páll bað vini sína um aðstoð og sagði: „Þið getið einnig hjálpað til ... með því að biðja fyrir mér.“ (2. Korintubréf 1:8-11) Einlæg bæn getur verið mikils megnug þegar fólk er undir miklu álagi eða berst við illvígan sjúkdóm.

AÐ HORFAST Í AUGU VIÐ VERULEIKANN

Tilhugsunin um að ástvinur komi til með að deyja getur verið mjög sársaukafull. Og það er ekkert skrýtið vegna þess að dauðinn er óeðlilegur. Við erum ekki sköpuð þannig að okkur finnist dauðinn vera eðlilegur hluti af lífinu. (Rómverjabréfið 5:12) Í Biblíunni er dauðinn þess vegna kallaður „óvinurinn“. (1. Korintubréf 15:26) Það er því skiljanlegt og jafnvel eðlilegt að okkur finnist tilhugsunin um dauða ástvinar erfið.

En ef fjölskyldan býr sig undir það sem fram undan er getur það dregið úr óttanum og hjálpað öllum að einbeita sér að því að gera hlutina eins þægilega og hægt er. Í rammanum „ Síðustu vikur ævinnar“ er bent á nokkur atriði sem geta einkennt líðan dauðvona sjúklinga. Þau eiga þó ekki öll við um hvern einasta sjúkling og það er einstaklingsbundið í hvaða röð þau koma. Samt sem áður upplifa flestir sjúklingar einhverjar af þessum breytingum.

Eftir að ástvinurinn er látinn getur verið viturlegt að tala við náinn vin sem hefur boðið fram hjálp sína. Kannski þarf fjölskyldan að fá huggun og fullvissu um að barátta ástvinarins sé á enda og að hann þjáist ekki meir. Og kærleiksríkur skapari okkar fullvissar okkur um það. Hann segir: „Hinir dauðu vita ekki neitt.“ – Prédikarinn 9:5.

SÁ SEM ANNAST OKKUR BEST

Við getum lært að hafna ekki hjálp annarra.

Það sem mestu máli skiptir er að setja traust sitt á Guð. Ekki aðeins á meðan ástvinur þinn berst við illvígan sjúkdóm heldur einnig þegar tekist er á við sorgina sem fylgir dauða hans. Guð getur gefið okkur styrk í gegnum orð og verk annarra. „Ég lærði að hafna ekki hjálpinni sem aðrir buðu fram,“ segir Doreen. „Við vorum agndofa yfir allri þeirri hjálp sem okkur bauðst. Við hjónin vorum sannfærð um að með þessu væri Jehóva að segja við okkur: ,Ég er hér til að hjálpa ykkur í gegnum þetta.‘“ Hún bætir við: „Því mun ég aldrei gleyma.“

Jehóva Guð er sá sem annast okkur best. Hann er skapari okkar og skilur því sorgir okkar og þjáningar. Hann bæði vill og getur veitt okkur alla þá hjálp og hughreystingu sem við þurfum á að halda. Og hann hefur meira að segja lofað að útrýma dauðanum í eitt skipti fyrir öll og veita milljörðum manna, sem hann geymir í minni sér, upprisu til lífs á ný. (Jóhannes 5:28, 29; Opinberunarbókin 21:3, 4) Þá getum við öll tekið undir orð Páls postula sem sagði: „Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?“ – 1. Korintubréf 15:55.

^ gr. 2 Nöfnum hefur verið breytt.