FORSÍÐUEFNI | HVER ER BESTA GJÖFIN?
Leitin að bestu gjöfinni
Það er ekki auðvelt að finna gjöf sem hentar fullkomlega fyrir þann sem fær hana. Þegar öllu er á botninn hvolft er gildi gjafarinnar metin af viðtakandanum. Og það sem einum finnst góð gjöf hentar kannski ekki öðrum.
Unglingi finnst kannski nýjasta græjan á markaðnum vera fullkomin gjöf. Fullorðnum einstaklingi gæti hins vegar fundist ákaflega verðmætt að fá gjöf sem hefur tilfinningalegt gildi, eins og erfðagrip. Sums staðar þykir það góð gjöf að gefa peninga hvort heldur ungum eða eldri. Þá getur viðtakandinn varið peningunum að eigin vild.
Hugulsamir vinir eða ættingjar hafa oft mikið fyrir því að finna góða gjöf fyrir þann sem þeim þykir vænt um þrátt fyrir að það geti verið áskorun. Og þó að ekki sé alltaf hægt að finna hentugustu gjöfina er gott að hugleiða hvað eykur líkurnar á að manni takist það. Lítum á fjögur atriði sem geta stuðlað að því að viðtakandinn verði ánægður með gjöfina.
Óskir viðtakandans. Maður, sem býr í Belfast á Norður-Írlandi, segir að besta gjöf sem hann hafi fengið hafi verið keppnisreiðhjól sem hann fékk þegar hann var 10 eða 11 ára gamall. Af hverju? „Af því að mig langaði mjög mikið í það,“ segir hann. Svar hans sýnir að óskir viðtakandans hafa mikið um það að segja hversu mikils hann metur gjöfina. Hugsaðu því um viðtakandann þegar þú ætlar að gefa gjöf. Reyndu að koma auga á hvað hann kann að meta vegna þess að það hefur oft áhrif á óskir hans. Tökum dæmi: Flestir afar og ömmur kunna vel að meta að verja tíma með fjölskyldunni. Þau óska þess kannski að hitta börnin og barnabörnin eins oft og hægt er. Frí með fjölskyldunni væri þeim líklega verðmætara en nokkur önnur gjöf.
Til þess að vita hvers aðrir óska sér er mikilvægt að hlusta vel. Í Biblíunni erum við hvött til að vera ,fljót til að heyra og sein til að tala‘. (Jakobsbréfið 1:19) Þegar þú talar við vini eða ættingja skaltu vera vakandi fyrir því sem þeim líkar og mislíkar. Þá eru meiri líkur á að þú getir gefið gjöf sem þeim líkar.
Þarfir viðtakandans. Jafnvel lítil og ódýr gjöf er verðmæt ef hún fullnægir ákveðinni þörf. En hvernig geturðu vitað hvers aðrir þarfnast?
Auðveldasta leiðin væri kannski að spyrja viðkomandi hvað hann vantar – eða jafnvel hvað hann langar í. En það tekur að hluta til ánægjuna af því að gefa því að þig langar sennilega frekar að koma viðtakandanum á óvart með gjöf sem hittir beint í mark. Mörgum finnst líka tiltölulega auðvelt að segja hvað þá langar eða langar ekki í en finnst kannski erfitt að segja hvers þeir þarfnast.
Hafðu því augun opin fyrir aðstæðum þess sem þú ætlar að gefa gjöf. Er viðtakandinn ungur, gamall, einhleypur, giftur, fráskilinn, ekkill eða ekkja, í vinnu eða á eftirlaunum? Hugleiddu þá hvers konar gjöf myndi koma sér vel fyrir hann.
Til að skilja betur hvers viðtakandinn þarfnast skaltu tala við aðra sem hafa verið í svipuðum aðstæðum. Kannski geta þeir opnað augu þín fyrir einhverju sem aðrir hafa ekki tekið eftir. Slík hjálp gæti gert þér kleift að gefa gjöf sem viðtakandinn þarfnast og öðrum hefur ekki dottið í hug að gefa honum.
Tímasetningin. Í Biblíunni segir: „Fagurt er orð í tíma talað.“ (Orðskviðirnir 15:23) Þetta biblíuvers sýnir að það getur skipt sköpum að finna réttan tíma til að segja hlutina. Það sama á við um það sem við gerum. Rétt eins og orð í tíma töluð geta verið ánægjuleg fyrir þann sem heyrir þau, getur gjöf, sem gefin er á réttum tíma eða við rétt tækifæri, verið sérlega ánægjuleg fyrir þann sem fær hana.
Vinur þinn er að fara að gifta sig, unglingur að útskrifast úr skóla eða hjón eiga von á barni. Þetta eru bara fáein dæmi um tilefni til að gefa gjafir. Sumum finnst gagnlegt að punkta hjá sér viðburði sem verða á komandi ári því að þannig fá þeir nægan tíma til að hugleiða hvaða gjöf gæti hentað við hvert tilefni. *
Þú getur að sjálfsögðu haft ánægju af að gefa hvenær sem er og án sérstaks tilefnis. Þú þarft þó að sýna gætni. Tökum dæmi: Ef karlmaður gefur konu gjöf án þess að sérstakt tilefni sé til gæti hún dregið þá ályktun að hann hefði áhuga á að kynnast henni betur. Slík gjöf gæti valdið misskilningi eða erfiðleikum ef hann hefur ekkert slíkt í huga. Það leiðir okkur að öðrum mikilvægum þætti málsins – hvötum gjafarans.
Hvatir gjafarans. Eins og fram kemur í fyrrnefndu dæmi er gott að hugleiða hvort viðtakandi gjafarinnar gæti mistúlkað hvatir gjafarans. Á hinn bóginn ætti sá sem gefur að skoða eigin hvatir. Þótt flestum finnist þeir gefa af réttum hvötum gefa margir gjafir á sérstökum dögum vegna þess að þeim finnst að þeir verði að gera það. Og svo eru aðrir sem gefa gjafir til þess að fá eitthvað í staðinn eða til að koma sér í mjúkinn hjá viðkomandi.
Hvernig geturðu verið fullviss um að þú gefir gjafir af réttum hvötum? Í Biblíunni segir: „Auðsýnið kærleika í öllu sem þið gerið.“ (1. Korintubréf 16:14) Ef þú gefur vegna þess að þér er innilega annt um viðkomandi verður gjöfinni líklega tekið fagnandi og þú finnur fyrir þeirri gleði sem fylgir gjafmildi. Þegar gjafmildi þín er einlæg gleðurðu líka himneskan föður þinn. Páll postuli hrósaði kristnum mönnum í Korintu til forna fyrir gjafmildi þeirra þegar þeir hjálpuðu með gleði nauðstöddum trúsystkinum sínum í Júdeu. Hann sagði við þá: „Guð elskar glaðan gjafara.“ – 2. Korintubréf 9:7.
Ef við höfum í huga atriðin sem rædd hafa verið í þessari grein getur það sannarlega stuðlað að því að við gefum öðrum gjafir sem veita þeim ánægju. Guð hafði meðal annars þessi atriði í huga þegar hann gerði okkur mögulegt að eignast mestu gjöf sem hugsast getur. Við hvetjum þig til að kynna þér hvaða stórkostlega gjöf þetta er með því að lesa næstu grein.
^ gr. 13 Margir gefa einnig gjafir á afmælum og öðrum tyllidögum. En oft stangast hefðir slíkra tyllidaga á við það sem Biblían kennir. Sjá greinina „Lesendur spyrja – ættu kristnir menn að halda jól?“ í þessu tölublaði.