Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 29

Ertu viðbúinn þrengingunni miklu?

Ertu viðbúinn þrengingunni miklu?

‚Verið viðbúnir.‘ – MATT. 24:44.

SÖNGUR 150 Leitum hjálpræðis Guðs

YFIRLIT a

1. Hvers vegna er skynsamlegt að búa sig undir hamfarir?

 UNDIRBÚNINGUR getur bjargað mannslífum. Þegar hamfarir dynja til dæmis yfir er fólk sem hefur búið sig undir þær líklegra til að lifa af og geta komið öðrum til hjálpar. Samtök í Evrópu sem hafa það að markmiði að hjálpa fólki orða það þannig: „Góður undirbúningur getur gert gæfumuninn.“

2. Hvers vegna ættum við að búa okkur undir þrenginguna miklu? (Matteus 24:44)

2 Þrengingin mikla skellur skyndilega á. (Matt. 24:21) En ólíkt öðrum hamförum kemur hún ekki öllum í opna skjöldu. Fyrir um 2.000 árum hvatti Jesús fylgjendur sína til að vera viðbúnir þessum degi. (Lestu Matteus 24:44.) Ef við erum viðbúin verður auðveldara að komast í gegnum þennan erfiða tíma og hjálpa öðrum að gera það líka. – Lúk. 21:36.

3. Hvernig mun þolgæði, samkennd og kærleikur hjálpa okkur að vera viðbúin þrengingunni miklu?

3 Skoðum þrjá eiginleika sem geta hjálpað okkur að vera viðbúin þrengingunni miklu. Hver verða viðbrögð okkar ef við verðum beðin um að flytja harðan dómsboðskap og fólk utan safnaðarins snýst gegn okkur? (Opinb. 16:21) Við munum þurfa á þolgæði að halda til að hlýða Jehóva og treysta því að hann verndi okkur. Hvað gerum við ef trúsystkini okkar missa sumar eða allar efnislegar eigur sínar? (Hab. 3:17, 18) Við þurfum að hafa samkennd til að veita þeim hjálp. Hver verða viðbrögð okkar ef við þurfum að búa með trúsystkinum við þrengsli um tíma vegna árásar bandalags þjóða? (Esek. 38:10–12) Við munum þurfa að bera sterkan kærleika til þeirra til að komast í gegnum þennan erfiða tíma.

4. Hvernig gefur Biblían til kynna að við verðum að halda áfram að rækta með okkur þolgæði, samkennd og kærleika?

4 Orð Guðs hvetur okkur til að rækta stöðugt með okkur þolgæði, samkennd og kærleika. Lúkas 21:19 segir: „Ef þið eruð þolgóðir varðveitið þið líf ykkar.“ Kólossubréfið 3:12 segir: „Íklæðist … samúð.“ Og í 1. Þessaloníkubréfi 4:9, 10 segir: „Guð hefur kennt ykkur að elska hvert annað … En við hvetjum ykkur, bræður og systur, til að gera það í enn ríkari mæli.“ Öll þessi biblíuvers voru stíluð á lærisveina sem höfðu þegar sýnt þolgæði, samkennd og kærleika. En þeir þurftu að halda áfram að rækta með sér þessa eiginleika. Við þurfum að gera það líka. Til að hjálpa okkur til þess skulum við skoða hvernig frumkristnir menn sýndu hvern eiginleika fyrir sig. Síðan sjáum við hvernig við getum líkt eftir þeim og sýnt fram á að við séum viðbúin þrengingunni miklu.

STYRKJUM ÞOLGÆÐI OKKAR

5. Hvernig sýndu hinir frumkristnu þolgæði í prófraunum?

5 Kristnir menn á fyrstu öld þurftu að vera þolgóðir. (Hebr. 10:36) Auk þess að glíma við vandamál sem fólk þurfti almennt að gera þurftu þeir að horfast í augu við aðrar prófraunir. Margir þeirra voru ofsóttir, ekki bara af trúarleiðtogum Gyðinga og yfirvöldum Rómverja heldur líka eigin fjölskyldu. (Matt. 10:21) Og stundum þurftu þeir að berjast gegn áhrifum fráhvarfsmanna og kenninga þeirra innan safnaðarins. (Post. 20:29, 30) En þessir þjónar Guðs voru þolgóðir. (Opinb. 2:3) Hvernig tókst þeim það? Þeir hugleiddu vandlega frásögur Biblíunnar af þolgóðum einstaklingum, eins og Job. (Jak. 5:10, 11) Þeir báðu um styrk. (Post. 4:29–31) Og þeir höfðu skýrt í huga það góða sem það hefði í för með sér að sýna þolgæði. – Post. 5:41.

6. Hvað lærir þú af því sem Merita gerði til að vera þolgóð þrátt fyrir andstöðu?

6 Við getum líka verið þolgóð ef við rannsökum og hugleiðum reglulega dæmi um þolgæði í orði Guðs og ritum safnaðarins. Þannig gat Merita, systir í Albaníu, sýnt þolgæði þrátt fyrir heiftarlega andstöðu fjölskyldunnar. Hún segir: „Það hafði sterk áhrif á mig að skoða vandlega frásögu Biblíunnar af Job. Hann þjáðist svo mikið og vissi ekki hvað var á bak við prófraunirnar en samt sagði hann: ‚Svo lengi sem ég lifi læt ég ekki af ráðvendni minni!‘ (Job. 27:5) Ég hugleiddi hversu miklu meiri erfiðleikar Jobs voru í samanburði við mína. Ólíkt honum vissi ég hver var ástæðan fyrir prófraunum mínum.“

7. Hvað ættum við að gera þótt við glímum ekki við erfiðar prófraunir eins og stendur?

7 Við getum líka styrkt þolgæði okkar með því að biðja oft til Jehóva og segja honum frá áhyggjum okkar. (Fil. 4:6; 1. Þess. 5:17) Þú stendur kannski ekki frammi fyrir erfiðri prófraun núna. En leitarðu samt leiðsagnar Jehóva hvenær sem þú kemst í uppnám, ert ráðvilltur eða veist ekki hvað þú átt að gera? Ef þú gerir það að venju að leita til Guðs um hjálp í minni háttar vandamálum áttu auðveldara með að gera það þegar þú mætir stærri vandamálum í framtíðinni. Þá verður þú fullviss um að hann viti nákvæmlega hvenær og hvernig hann á að hjálpa þér. – Sálm. 27:1, 3.

ÞOLGÆÐI

Hver prófraun sem við stöndumst styrkir okkur fyrir þá næstu. (Sjá 8. grein.)

8. Hvernig sýnir reynsla Miru að þolgæði í prófraunum núna hjálpar okkur í prófraunum í framtíðinni? (Jakobsbréfið 1:2–4) (Sjá einnig mynd.)

8 Við erum líklegri til að vera þolgóð í þrengingunni miklu ef við erum það í prófraununum sem við glímum við núna. (Rómv. 5:3) Hvers vegna getum við sagt það? Mörg trúsystkini okkar hafa komist að því að hver trúarprófraun sem þau standast hjálpar þeim að vera þolgóð í þeirri næstu. Þolgæðið fágar þau og styrkir trú þeirra á að Jehóva sé tilbúinn og fús til að hjálpa. Og trúin hjálpar þeim að vera þolgóð í næstu prófraun. (Lestu Jakobsbréfið 1:2–4.) Mira er brautryðjandi í Albaníu. Hún hefur fundið að þolgæði hennar áður fyrr hefur hjálpað henni að sýna þolgæði þegar hún glímir við ný vandamál. Hún viðurkennir að stundum líði henni eins og hún sé sú eina sem glími við svona mörg vandamál. En þá rifjar hún upp hvað Jehóva hefur gert mikið síðustu 20 ár til að styðja hana og segir við sjálfa sig: „Vertu trúföst áfram. Láttu ekki öll þessi ár og allar orrusturnar sem þú hefur unnið með hjálp Jehóva verða til einskis.“ Við getum líka rifjað upp hvernig Jehóva hefur þegar hjálpað okkur að vera þolgóð. Við getum verið viss um að hann tekur eftir því í hvert sinn sem við sýnum þolgæði í prófraunum og að hann umbunar okkur. (Matt. 5:10–12) Þegar þrengingin mikla hefst verðum við í stakk búin til að sýna þolgæði og ákveðin í að vera þolgóð.

SÝNUM SAMKENND

9. Hvernig sýndi söfnuðurinn í Antíokkíu í Sýrlandi samkennd?

9 Skoðum hvað gerðist þegar kristnir menn í Júdeu þurftu að þola mikla hungursneyð. Eftir að söfnuðurinn í Antíokkíu í Sýrlandi heyrði af hungursneyðinni fundu bræður og systur þar örugglega til samkenndar gagnvart trúsystkinum í Júdeu. En síðan sýndu þau samkenndina í verki. Þau „ákváðu þá að senda hjálpargögn til trúsystkinanna sem bjuggu í Júdeu, hver eftir því sem hann hafði efni á“. (Post. 11:27–30) Þótt trúsystkinin sem urðu fyrir barðinu á hungursneyðinni byggju langt í burtu voru kristnir menn í Antíokkíu ákveðnir í að koma þeim til hjálpar. – 1. Jóh. 3:17, 18.

SAMKENND

Náttúruhamfarir gefa okkur tækifæri til að sýna samkennd. (Sjá 10. grein.)

10. Hvernig getum við sýnt samkennd þegar trúsystkini okkar verða fyrir hamförum? (Sjá einnig mynd.)

10 Við getum líka sýnt samkennd þegar við fréttum af trúsystkinum sem hafa orðið fyrir hamförum. Við bregðumst fúslega við og spyrjum kannski öldungana hvort við getum aðstoðað. Við gefum ef til vill framlög til alþjóðastarfsins eða biðjum fyrir þeim sem hafa orðið fyrir hamförum. b (Orðskv. 17:17) Árið 2020 voru til dæmis meira en 950 hjálparstarfsnefndir settar á laggirnar um allan heim til hjálpar þeim sem hafa orðið fyrir áhrifum COVID-19 faraldursins. Þeir sem starfa í hjálparstarfsnefndum eiga hrós skilið. Vegna samkenndar í garð bræðra og systra hafa þeir dreift hjálpargögnum, hjálpað þeim að halda áfram að þjóna Jehóva og í sumum tilfellum gert við eða endurbyggt heimili og tilbeiðslustaði. – Samanber 2. Korintubréf 8:1–4.

11. Hvenig heiðra verk knúin af samkennd föður okkar á himnum?

11 Aðrir taka eftir þeim fórnum sem við færum þegar við sýnum samkennd í kjölfar hamfara. Árið 2019 eyðilagði fellibylurinn Dorian ríkissal á Bahamaeyjum. Þegar bræður okkar voru að endurbyggja salinn spurðu þeir verktaka sem var ekki vottur hvað það myndi kosta að fá hann í verkið. Hann sagði: „Ég myndi vilja gefa framlag … lána tækin og gefa vinnuna og efnið … Mig langar bara að gera þetta fyrir söfnuðinn ykkar. Ég er snortinn af því að sjá hvernig þið hugsið um vini ykkar.“ Fæstir í heiminum þekkja Jehóva. En margir sjá hvað vottar Jehóva gera til að hjálpa öðrum. Það er frábært að vita að samkenndin sem við sýnum getur dregið fólk til hans sem er „ríkur að miskunn“. – Ef. 2:4.

12. Hvernig hjálpar það okkur að búa okkur undir þrenginguna miklu að þroska með okkur samkennd núna? (Opinberunarbókin 13:16, 17)

12 Hvers vegna þurfum við að sýna samkennd í þrengingunni miklu? Biblían gefur til kynna að þeir sem styðja ekki stjórnir þessa heims muni upplifa erfiðleika, bæði núna og í þrengingunni miklu. (Lestu Opinberunarbókina 13:16, 17.) Bræður okkar og systur gætu þurft hjálp til að hafa nauðsynjar. Þegar Jesús Kristur konungur okkar kemur til að fullnægja dómi viljum við að hann sjái að við sýnum samkennd og bjóði okkur að ‚taka við ríkinu‘. – Matt. 25:34–40.

STYRKJUM KÆRLEIKA OKKAR

13. Hvernig styrktu hinir frumkristnu kærleiksböndin eins og kemur fram í Rómverjabréfinu 15:7?

13 Kærleikur einkenndi hina frumkristnu. En var auðvelt fyrir þá að sýna kærleika? Hugsum okkur hve fjölþjóðlegur söfnuðurinn í Róm var. Í honum voru ekki aðeins Gyðingar sem voru aldir upp til að hlýða Móselögunum heldur líka fólk af þjóðunum sem hafði gerólíkan bakgrunn. Sumir þjónar Guðs voru líklega þrælar en aðrir voru frjálsir, og sumir áttu jafnvel þræla. Hvernig gátu kristnir menn sýnt hver öðrum kærleika þrátt fyrir þennan mismun? Páll postuli hvatti þá til að ‚taka vel á móti hver öðrum‘. (Lestu Rómverjabréfið 15:7.) Hvað átti hann við? Orðið sem er þýtt „taka vel á móti“ merkir að taka á móti einhverjum af góðvild og gestrisni, eins og á heimili sitt eða í vinahóp sinn. Páll sagði Fílemon til dæmis að taka vel á móti strokuþrælnum Ónesímusi með orðunum: ‚Þú skalt taka vel á móti honum‘. (Fílem. 17) Og Priskilla og Akvílas tóku vel á móti Appolósi, sem þekkti kristnina ekki eins vel og þau, og ‚tóku hann að sér‘. (Post. 18:26) Þessir þjónar Guðs létu það ekki orsaka vandamál að þeir voru ólíkir heldur tóku vel á móti hver öðrum.

KÆRLEIKUR

Við þurfum á kærleika allra bræðra okkar og systra að halda. (Sjá 15. grein.)

14. Hvernig sýndu Anna og eiginmaður hennar kærleika?

14 Við getum líka sýnt bræðrum og systrum kærleika með því að bjóða þeim vináttu okkar. Það getur hvatt þau til að sýna okkur kærleika á móti. (2. Kor. 6:11–13) Skoðum reynslu Önnu og eiginmanns hennar. Stuttu eftir að þau fluttu á nýtt trúboðssvæði í Vestur-Afríku skall COVID-19 faraldurinn á. Þar sem þau voru nýkomin gátu þau ekki hitt trúsystkinin í söfnuðinum augliti til auglitis. Hvernig gátu þessi hjón sýnt kærleika? Þau notuðu fjarfundabúnað til að vera í sambandi við bræður og systur og sögðu þeim hvað þau langaði mikið að kynnast þeim betur. Þetta hafði mikil áhrif á fjölskyldurnar í söfnuðinum og þær hringdu oft og sendu skilaboð til hjónanna. Hvers vegna reyndu hjónin að kynnast bræðrum og systrum í söfnuðinum? Anna segir: „Kærleikurinn sem ég hef upplifað gagnvart mér og fjölskyldu minni á góðum tímum og erfiðum hefur fest rætur í hjarta mér og hvetur mig til að sýna öðrum kærleika.“

15. Hvað getum við lært af Vanessu um að sýna öllum bræðrum okkar og systrum kærleika? (Sjá einnig mynd.)

15 Mörg okkar tilheyra söfnuði þar sem bræður og systur hafa ólíkan bakgrunn og persónuleika. Við getum styrkt kærleikann til þeirra með því að beina athygli okkar að góðum eiginleikum þeirra. Systur sem heitir Vanessa og býr á Nýja-Sjálandi fannst erfitt að láta sér lynda við suma í söfnuðinum. Í stað þess að reyna að forðast þá sem fóru í taugarnar á henni ákvað hún að verja meiri tíma með þeim. Það hjálpaði henni að koma auga á það sem Jehóva kunni að meta í fari þeirra. Hún segir: „Frá því að maðurinn minn varð farandhirðir höfum við verið í sambandi við miklu fleiri bræður og systur með mismunandi persónuleika og mér finnst auðveldara að láta mér lynda við þau. Ég kann núna að meta fjölbreytileikann. Jehóva kann greinilega að meta hann líka vegna þess að hann hefur dregið svo mismunandi fólk til sín.“ Við sýnum kærleika okkar til annarra þegar við lærum að sjá þá sömu augum og Jehóva. – 2. Kor. 8:24.

Í þrengingunni miklu munum við finna þá vernd sem Jehóva lofar þegar við höldum áfram að þjóna honum ásamt bræðrum okkar og systrum. (Sjá 16. grein.)

16. Hvers vegna verðum við að elska bræður okkar og systur? (Sjá einnig mynd.)

16 Við þurfum að elska bræður okkar og systur í þrengingunni miklu. Hvar finnum við vernd þegar hún hefst? Hugleiðum hvað Jehóva sagði fólki sínu að gera þegar ráðist var á Babýlon til forna: „Farðu, þjóð mín, inn í innstu herbergi þín og lokaðu á eftir þér. Feldu þig stutta stund þar til reiðin er liðin hjá.“ (Jes. 26:20) Svo virðist sem þessi orð eigi líka við okkur þegar þrengingin mikla hefst. Með orðunum „innstu herbergi“ gæti verið átt við söfnuðina okkar. Í þrengingunni miklu munum við finna þá vernd sem Jehóva lofar þegar við höldum áfram að þjóna honum ásamt bræðrum okkar og systrum. Við þurfum þess vegna að leggja okkur fram við að elska bræður okkar og systur en ekki bara umbera þau. Björgun okkar gæti verið undir því komin!

UNDIRBÚUM OKKUR NÚNA

17. Hvað munum við geta gert í þrengingunni miklu ef við búum okkur undir hana núna?

17 „Hinn mikli dagur Jehóva“ verður öllu mannkyni mjög erfiður tími. (Sef. 1:14, 15) Þjónar Jehóva munu líka ganga í gegnum erfiðleika. En ef við undirbúum okkur núna getum við haldið ró okkar og komið öðrum til hjálpar. Við munum sýna þolgæði í hverri raun. Þegar trúsystkini okkar þjást gerum við okkar besta til að hjálpa þeim með því að sýna samkennd og sjá fyrir þörfum þeirra. Og við verðum í nánum samskiptum við bræður okkar og systur vegna þess að við berum nú þegar kærleika til þeirra. Jehóva umbunar okkur síðan með eilífu lífi í heimi þar sem hamfara og erfiðleika verður ekki minnst framar. – Jes. 65:17.

SÖNGUR 144 Horfðu á sigurlaunin

a Þrengingin mikla hefst fljótlega. Eiginleikar eins og þolgæði, samkennd og kærleikur hjálpa okkur að vera viðbúin erfiðustu tímum sem menn hafa reynt. Tökum eftir hvernig frumkristnir menn lærðu að sýna þessa eiginleika, hvernig við getum gert það líka og hvernig þessir eiginleikar búa okkur undir þrenginguna miklu.

b Þeir sem vilja aðstoða við verkefni á vegum hjálparstarfsnefndar ættu fyrst að fylla út Umsókn um að vera sjálfboðaliði hjá hönnunar- og byggingardeildinni á svæðinu (DC-50) eða Umsókn um sjálfboðastarf (A-19) og bíða síðan eftir að vera boðið að hjálpa til.