Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Níutíu ár síðan ég fór að muna eftir Skapara mínum

Níutíu ár síðan ég fór að muna eftir Skapara mínum

Níutíu ár síðan ég fór að muna eftir Skapara mínum

Edwin Ridgwell segir frá

VOPNAHLÉSDAGINN 11. nóvember 1918 var skólabörnunum óvænt safnað saman til þess að halda hátíðleg lok stríðsins mikla sem síðar var kallað heimstyrjöldin fyrri. Ég var aðeins fimm ára og skildi ekki alveg tilefnið. Samt vissi ég að ég ætti ekki að taka þátt í athöfninni miðað við það sem foreldrar mínir höfðu frætt mig um Guð. Ég bað til Guðs en réð ekki við tilfinningarnar og fór að gráta. En ég tók ekki þátt í hátíðahaldinu. Þetta var upphaf þess að ég fór að muna eftir skapara mínum. — Préd.12:1.

Nokkrum mánuðum áður en atvikið í skólanum átti sér stað hafði fjölskyldan flust til Glasgow í Skotlandi. Um það leyti hlustaði faðir minn á ræðuna „Milljónir núlifandi manna munu aldrei deyja“. Það breytti lífi hans. Foreldrar mínir fóru að kynna sér Biblíuna og töluðu oft saman um Guðsríki og þá blessun sem í vændum var. Ég þakka Guði fyrir að þaðan í frá var mér kennt að elska Guð og setja traust mitt á hann. — Orðskv. 22:6.

Boðberi í fullu starfi

Þegar ég var fimmtán ára hefði ég getað farið í framhaldsnám en mig langaði meira til að verða boðberi í fullu starfi. Pabbi taldi mig vera of ungan svo að ég vann á skrifstofu um tíma. Löngunin til að þjóna Jehóva í fullu starfi var samt svo sterk að ég skrifaði einn daginn bréf til J. F. Rutherfords. Hann hafði þá umsjón með boðunarstarfinu um allan heim. Ég spurði hann hvernig honum litist á áætlanir mínar. Bróðir Rutherford skrifaði til baka: „Ef þú ert nógu gamall til þess að vinna ertu nógu gamall til að vera í þjónustu Drottins . . . Ég veit að Guð blessar þig ef þú leggur þig fram í dyggri þjónustu við hann.“ Þetta bréf, sem var dagsett 10. mars 1928, hafði mikil áhrif á fjölskylduna. Áður en langt um leið voru foreldrar mínir, eldri systir og ég farin að starfa sem boðberar í fullu starfi.

Á móti í Lundúnum árið 1931 auglýsti bróðir Rutherford eftir sjálfboðaliðum til að boða fagnaðarerindið erlendis. Ég gaf mig fram og við Andrew Jack vorum sendir til Kaunas sem þá var höfuðborg Litháens. Ég var þá 18 ára.

Boðunarstarfið í Litháen

Á þessum tíma var Litháen fátækt landbúnaðarsamfélag og erfiðleikum bundið að starfa í sveitunum. Það var erfitt að fá húsnæði og sumir staðir líða mér seint úr minni. Til dæmis vöknuðum við Andrew upp eina nóttina við einhver óþægindi. Þegar við höfðum kveikt á olíulampanum sáum við að í rúminu var krökkt af veggjalús. Við vorum bitnir frá hvirfli til ilja! Til að draga úr sársaukanum fór ég á hverjum morgni í heila viku út í nálæga á og stóð þar upp að hálsi í köldu vatninu. Við vorum samt ákveðnir í að halda áfram boðunarstarfinu. Stuttu síðar leystist húsnæðisvandamálið. Við hittum ung hjón sem höfðu tekið sannleika Biblíunnar opnum örmum. Þau tóku okkur inn á heimili sitt sem var mjög lítið en hreint. Við vorum ánægðir að sofa á gólfinu. Og hvílíkur léttir!

Rómversk-kaþólska kirkjan og rússneska rétttrúnaðarkirkjan réðu þá lögum og lofum í Litháen. Aðeins þeir efnuðu höfðu ráð á að eignast biblíu. Aðalmarkmið okkar var að fara yfir eins stórt svæði og mögulegt var og skilja eftir sem mest af biblíutengdum ritum hjá áhugasömu fólki. Fyrst fundum við okkur gistingu í einhverjum bænum. Því næst fórum við gætilega yfir svæðin í kring. Síðan störfuðum við með hraði í sjálfum bænum. Með þessu móti gátum við venjulega lokið verki okkar af áður en prestarnir þar gátu stofnað til vandræða.

Uppnám og umtal

Árið 1934 var Andrew falið að starfa á deildarskrifstoðunni í Kaunas og John Sempey varð starfsfélagi minn. Við upplifðum nokkur eftirminnileg atvik. Einn daginn kom ég á lögfræðiskrifstofu í smábæ. Maðurinn reiddist, dró skammbyssu upp úr skúffunni og skipaði mér að fara. Ég bað í hljóði og mundi eftir ráðleggingu Biblíunnar: „Mildilegt svar stöðvar bræði.“ (Orðskv. 15:1) Ég sagði því: „Ég kom hingað sem vinur til að boða góð tíðindi og ég þakka þér fyrir að láta ekki til skarar skríða.“ Fingur mannsins slaknaði á gikknum og ég gekk gætilega aftur á bak út úr skrifstofunni.

Þegar ég hitti John sagði hann farir sínar ekki sléttar. Það hafði verið farið með hann á lögreglustöðina. Hann var að ósekju sakaður um að hafa stolið verðmætum peningaseðli frá konu sem hann hafði hitt. Á stöðinni var gerð á honum líkamsleit. Auðvitað var hann ekki með seðilinn. Seinna náðist þjófurinn.

Bæði atvikin ollu verulegu uppnámi í þessu annars rólega bæjarfélagi. En þau urðu til þess að starf okkar fékk víðtæka auglýsingu án þess að við þyrftum nokkuð að hafa fyrir því!

Starfsemi á laun

Það var áhættusamt að fara með biblíutengd rit inn í Lettland en þar var starf okkar bannað. Um það bil einu sinni í mánuði fórum við þangað með næturlest. Þegar við höfðum skilað ritunum af okkur fórum við stundum áfram til Eistlands til að ná í fleiri blöð og rit sem við skildum eftir í Lettlandi í bakaleiðinni.

Í eitt skiptið hafði verið stungið að tollverði í hvaða erindagerðum við værum. Hann krafist þess að við færum úr lestinni og sýndum yfirmanni hans ritin. Við John báðum báðir Jehóva um að hjálpa okkur. Þótt undarlegt sé sagði tollvörðurinn ekki yfirmanninum hvað við höfðum í fórum okkar en sagði aðeins: „Þessir menn eru með tollskyldan varning.“ Ég sagðist vera með rit sem gætu hjálpað fólki í almennum skólum og háskólum að skilja þýðingu þess sem væri að gerast í viðsjárverðum heimi. Yfirmaðurinn bandaði með hendinni til merkis um að við mættum fara og við komum sendingunni klakklaust áleiðis.

Eftir því sem pólitíska ástandið í Eystrasaltslöndunum versnaði jókst andstaðan gegn vottunum. Boðunarstarfið í Litháen var einnig bannað. Andrew og John var vísað úr landi og þar sem síðari heimsstyrjöldin vofði yfir var öllum breskum þegnum ráðlagt að fara úr landi. Ég gerði það líka en með eftirsjá.

Farsælt starf á Norður-Írlandi

Þegar hér var komið sögu höfðu foreldrar mínir flust til Norður-Írlands. Árið 1937 flutti ég þangað til þeirra. Rit okkar höfðu einnig verið bönnuð á Norður-Írlandi vegna stríðsæsings en við héldum áfram að boða fagnaðarerindið meðan á stríðinu stóð. Eftir síðari heimstyrjöldina gátum við haldið áfram starfinu án nokkurra hafta. Harold King, reyndur boðberi sem seinna starfaði sem trúboði í Kína, stóð fyrir því að fluttar væru opinberar ræður undir berum himni. Hann sagði við mig: „Ég held fyrstu ræðuna á laugardaginn.“ Hann horfði á mig og sagði: „Þú heldur ræðuna laugardaginn þar á eftir.“ Mér varð um og ó.

Ég man vel eftir fyrstu ræðu minni. Fólk var mætt í hundraðatali. Ég stóð á kassa á meðan ég flutti hana og talaði án nokkurs hátalarakerfis. Í lok ræðunnar kom maður til mín, tók í höndina á mér og sagðist heita Bill Smith. Hann sagðist hafa séð mannfjöldann og stansað til að sjá hvað um væri að vera. Í ljós kom að faðir minn hafði áður haft samband við Bill. Sambandið hafði slitnað þegar faðir minn og stjúpmóðir fluttu til Dyflinnar og gerðust brautryðjendur þar. Við hófum biblíunám. Með tímanum urðu níu manns úr fjölskyldu Bills þjónar Jehóva.

Síðar starfaði ég í hverfi með stórum einbýlishúsum í útjaðri Belfast. Þar hitti ég rússneska konu sem hafði átt heima í Litháen. Þegar ég sýndi henni ritin benti hún á eina bókina og sagði: „Þessa á ég. Frændi minn, sem er prófessor við háskólann í Kaunas, gaf mér hana.“ Hún sýndi mér eina af biblíunámsbókunum sem við notuðum á þeim tíma en hún var á pólsku. Spássíurnar voru þéttskrifaðar athugasemdum. Hún varð mjög undrandi þegar hún heyrði að það var ég sem upphaflega gaf frænda hennar bókina þegar ég hitti hann í Kaunas! — Préd. 11:1.

Þegar John Sempey frétti að ég ætlaði til Norður-Írlands bað hann mig um að heimsækja yngri systur sína, Nellie, þar sem hún hafði sýnt einhvern áhuga á sannindum Biblíunnar. Við Connie, systir mín, fræddum hana um Biblíuna. Nellie tók örum framförum og vígði líf sitt Jehóva. Þegar fram í sótti fórum við að vera saman og gengum í hjónaband.

Við Nellie vorum 56 ár saman í þjónustu Jehóva og urðum þeirrar ánægju aðnjótandi að hjálpa meira en hundrað manns til þekkingar á sannleika Biblíunnar. Við höfðum vonast til að lifa áfram saman til loka Harmagedónstríðsins og inn í nýjan heim Jehóva. En óvinurinn dauðinn hrifsaði hana til sín 1998. Það var mikið áfall — það þungbærasta sem ég hef orðið fyrir á ævinni.

Aftur til Eystrasaltslandanna

Um ári eftir andlát Nelliear var ég svo lánsamur að fá boð um að heimsækja deildarskrifstofuna í Tallinn í Eistlandi. Í bréfi frá bræðrunum þar stóð: „Af tíu bræðrum, sem voru sendir til Eystrasaltslandanna seint á þriðja áratugnum og snemma á þeim fjórða, ert þú sá eini sem eftir lifir.“ Þar stóð ennfremur að á deildinni væri verið að skrifa sögu starfsins í Eistlandi, Lettlandi og Litháen og síðan var spurt: „Getur þú komið?“

En sá heiður að fá tækifæri til að segja frá starfi okkar félaganna fyrr á árum! Í Lettlandi gat ég sýnt bræðrum íbúðina þar sem deildarskrifstofan var fyrst til húsa og háaloftið þar sem við földum ritin. Lögreglan fann þau aldrei. Í Litháen var farið með mig til lítils bæjar sem hét Šiauliai en þar hafði ég verið brautryðjandi. Á samkomu, sem haldin var þar, sagði trúbróðir við mig: „Fyrir mörgum árum keyptum við mamma hús í bænum. Við vorum að henda út rusli af háaloftinu og þá rakst ég á nokkrar af fyrstu bókunum sem Vottar Jehóva gáfu út. Þegar ég las þær gerði ég mér ljóst að ég hefði fundið sannleikann. Það hlýtur að hafa verið þú sem skildir bækurnar eftir í húsinu fyrir mörgum árum!“

Ég var einnig á svæðismóti sem haldið var í bæ þar sem ég hafði verið brautryðjandi. Ég hafði verið á móti í þessum bæ 65 árum áður. Þá voru þar 35 viðstaddir. En hvílík gleði að sjá núna 1.500 áheyrendur! Jehóva hefur sannarlega blessað starfið.

‚Jehóva yfirgaf mig ekki‘

Nýlega fékk ég óvænta blessun þegar elskuleg trúsystir, Bee að nafni, tók bónorði mínu. Við vorum gefin saman í nóvember 2006.

Ungt fólk, sem er að hugleiða hvaða lífsstefnu það eigi að taka, getur treyst viskunni sem felst í innblásnum orðum Biblíunnar: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum“. Ég get glaðst eins og sálmaritarinn gerði. Hann sagði: „Guð, þú hefur kennt mér frá æsku og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín. Yfirgef mig eigi, Guð, þó að ég verði gamall og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð og mátt þinn öllum óbornum.“ — Sálm. 71:17, 18.

[Kort á blaðsíðu 25]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Það var áhættusamt verkefni að fara með ritin inn í Lettland.

[Caption on page 25]

EISTLAND

TALLINN

Rígaflói

LETTLAND

RÍGA

LITHÁEN

VILNÍUS

Kaunas

[Mynd á blaðsíðu 26]

Ég var 15 ára þegar ég fór að starfa sem brautryðjandi í Skotlandi.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Við Nellie á brúðkaupsdeginum árið 1942.