Biblíunám fjölskyldunnar lífsnauðsynlegt!
Biblíunám fjölskyldunnar lífsnauðsynlegt!
LEIÐUM hugann að því hversu ógurlegur ‚hinn mikli dagur Guðs hins alvalda‘ mun verða! (Opinb. 16:14) Míka spámaður lýsti þessu á lifandi myndmáli og skrifaði: „Fjöllin bráðna . . . og dalirnir gliðna sem vax fyrir eldi líkt og vatn steypist ofan bratta hlíð.“ (Míka 1:4) Hvaða hörmulegu endalok bíða þeirra sem þjóna ekki Jehóva? Orð Guðs segir: „Þeir sem felldir verða af Drottni munu á þeim degi liggja dreifðir um alla jörðina.“ — Jer. 25:33.
Í ljósi þessarar vitneskju ættu þeir sem veita fjölskyldu forstöðu — þar á meðal einstæðir foreldrar — að spyrja sig varðandi börn sín sem eru orðin nógu gömul til að nota rökhugsun: „Munu börnin mín lifa af Harmagedón?“ Biblían sannfærir okkur um að þau muni gera það ef þau hafa byggt upp sterkt og gott samband við Jehóva miðað við aldur. — Matt. 24:21.
Mikilvægi þess að taka frá tíma fyrir biblíunám fjölskyldunnar
Sem foreldri skaltu gera allt sem í þínu valdi stendur til að ala börnin þín upp „með aga og fræðslu um Drottin“. (Ef. 6:4) Það verður aldrei ítrekað nógu oft hversu mikilvægt það er að fræða börnin um Biblíuna. Við viljum að unga fólkið okkar líkist hinum frumkristnu í Filippí en Páll hrósaði þeim fyrir hlýðni þeirra við Jehóva. Hann skrifaði: „Mín elskuðu, sem ætíð hafið verið hlýðin, vinnið nú að sáluhjálp ykkar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá ykkur, því fremur nú þegar ég er fjarri.“ — Fil. 2:12.
Eru börnin þín hlýðin lögum Jehóva jafnvel þótt þú sért ekki nærri? Hvernig haga þau sér í skólanum? Hvernig geturðu hjálpað börnunum að sjá viskuna í lögum Jehóva þannig að þau láti hana leiða sig jafnvel þótt þú sért ekki nálægt?
Biblíunám fjölskyldunnar getur átt stóran þátt í að byggja upp trú barnsins. Við skulum líta á þrennt sem getur gert biblíunámskvöld fjölskyldunnar árangursríkt.
Hafðu reglufestu á náminu
Í frummáli Biblíunnar gefur orðalagið „dag nokkurn“ í Jobsbók 1:6 til kynna að englasonum Guðs sé boðið að koma fram fyrir hann á ákveðnum tímum. Hafðu sama háttinn á í fjölskyldunni þinni. Ákveddu hvenær fjölskyldunámið á að fara fram og haltu þig við þann tíma. Taktu einnig frá annan tíma ef eitthvað skyldi koma upp á.
Forðastu að leyfa því hugarfari að læðast inn með tímanum að það sé ásættanlegt að halda fjölskyldunámið bara af og til. Mundu að börnin þín eru mikilvægustu biblíunemendurnir þínir. Satan myndi gjarnan vilja gera þau að bráð sinni. (1. Pét. 5:8) Ef þú sleppir fjölskyldunáminu til að horfa á sjónvarpið með fjölskyldunni eða eitthvað annað í þá veru, hefur Satan unnið ákveðinn sigur. — Ef. 5:15, 16; 6:12; Fil. 1:10.
Hafðu námið gagnlegt
Biblíunámskvöld fjölskyldunnar ætti að snúast um meira en að sitja bara og lesa. Reyndu að hafa það gagnlegt. Hvernig? Stundum væri hægt að velja efni sem tengist því sem börnin þurfa að takast á við á komandi dögum eða vikum. Hvernig væri til dæmis að láta þau æfa kynningar fyrir boðunarstarfið? Krökkum finnst gaman að gera hluti sem þeir standa sig vel í. Ef þið æfið 2. Tím. 2:15.
kynningar og kennið þeim að svara mótbárum fá þau meira sjálfstraust til að taka þátt í hinum ýmsu greinum boðunarstarfsins. —Þú gætir einnig látið börnin æfa viðbrögð við hópþrýstingi. Nota mætti 15. kafla í 2. bindi bókarinnar Spurningar unga fólksins — svör sem duga, sem grunn að frekari samræðum í fjölskyldunáminu. Á blaðsíðum 132 og 133 er opna sem nefnist „Viðbrögð við hópþrýstingi“. Þar er að finna tillögur að svörum og svo getur barnið einnig undirbúið svör sem það er sjálft sátt við. Neðst á blaðsíðu 133 stendur síðan: „Æfðu viðbrögðin með foreldri eða þroskuðum vini“. Hvers vegna ekki að hafa slíkar æfingar inn á milli í fjölskyldunáminu?
Í fjölskyldunáminu gefst tækifæri fyrir foreldra að benda börnunum á mikilvægi þess að setja sér andleg markmið. Efni sem tengist því er að finna í 38. kafla í 2. bindi bókarinnar Spurningar unga fólksins, en hann nefnist „Hvernig ætla ég að nota líf mitt?“ Þegar þið ræðið efni kaflans geturðu reynt að hjálpa barninu að sjá viskuna í því að láta líf sitt snúast um að þjóna Jehóva því að það sé besta lífsstefnan. Hjálpaðu barninu að þroska með sér löngun til þess að verða brautryðjandi, þjóna á Betel, fara í Þjónustuþjálfunarskólann eða stefna að því að öðru leyti að þjóna Jehóva í fullu starfi.
Aðvörunarorð: Sumir foreldrar, sem vilja þó vel, einblína svo mikið á það hvað þeir vilja að barnið geri í framtíðinni að þeir horfa fram hjá því sem barnið er nú þegar að gera í þjónustunni við Jehóva. Að sjálfsögðu er gott að hvetja börn sín til að setja sér góð markmið eins og að þjóna á Betel eða gerast trúboðar. En þegar þú gerir það skaltu passa þig á að ergja ekki barnið með eftirvæntingum þínum þannig að það verði niðurdregið. (Kól. 3:21) Mundu ávallt að sonur þinn eða dóttir verða að elska Jehóva sjálf — þú getur ekki gert það fyrir þau. (Matt. 22:37) Vertu því vakandi fyrir tækifærum til að hrósa barninu fyrir það sem það gerir vel og forðastu að einblína á það sem það gerir ekki. Kenndu barninu að meta að verðleikum allt það góða sem Jehóva gerir fyrir okkur. Það fær barnið til að sýna í verki að það sé þakklátt fyrir góðvild Jehóva.
Hafðu námið skemmtilegt
Ef þú vilt að biblíunámskvöld fjölskyldunnar sé vel heppnað er mikilvægt að reyna að hafa það skemmtilegt. Hvernig geturðu gert það? Kannski getið þið stundum hlustað á leikrit eða horft á mynddiska sem gefnir eru út af Vottum Jehóva og rætt saman um efnið á eftir. Eða að þið gætuð lesið saman í Biblíunni þar sem hver og einn les ákveðið hlutverk.
Í Varðturninum og Vaknið! er mikið um efni sem hægt er að nota sem grunn að fjölskyldusamræðum. Þú gætir til dæmis notað efnið á blaðsíðu 31 í Vaknið! sem nefnist „Hvert er svarið?“ Í almennri útgáfu Varðturnsins er stundum að finna greinar sem bera heitið „Fyrir unga lesendur“, og einnig
greinarflokk fyrir yngstu börnin sem nefnist „Kenndu börnunum.“Greinaflokkurinn „Ungt fólk spyr“ í Vaknið! ætti að vekja sérstakan áhuga foreldra sem eiga börn á unglingsaldri og einnig 2. bindi bókarinnar Spurningar unga fólksins. Þegar bókin er notuð ætti ekki að gleyma rammanum „Hvað finnst þér?“ í lok hvers kafla. Ramminn er ekki einungis ætlaður til upprifjunar. Hægt er að nota þessar spurningar til að koma af stað samræðum innan fjölskyldunnar.
Varastu samt að nota námskvöld fjölskyldunnar sem tækifæri til að yfirheyra börnin. Neyddu barnið til dæmis ekki til að lesa upphátt það sem það hefur skrifað í bókina, hvorki á þeim blaðsíðum sem bera yfirskriftina „Hugleiðingar“ eða annars staðar þar sem barnið á að tjá sig skriflega. Á blaðsíðu 3, sem ber yfirskriftina „Til foreldra“, stendur: „Til að auðvelda unglingnum að skrifa sínar innstu tilfinningar í bókina skaltu leyfa honum að hafa hana út af fyrir sig. Seinna meir vill hann kannski tjá sig um það sem hann hefur skrifað niður.“
Ef þú leggur þig fram um að hafa námskvöld fjölskyldunnar reglubundið, gagnlegt og skemmtileg, mun Jehóva blessa viðleitni þína ríkulega. Þessi sérstaki tími með fjölskyldunni mun stuðla að því að ástvinir þínir haldi sér andlega vakandi og sterkum í trúnni.
[Rammi á blaðsíðu 31]
Vertu hugmyndaríkur
„Þegar dætur okkar voru yngri notuðum við hjónin fjölskyldunámið til að undirbúa okkur fyrir samkomurnar og síðan báðum við stelpurnar að teikna mynd sem átti að fjalla um meginatriði námsins. Stundum sviðsettum við frásögur úr Biblíunni eða æfðum kynningar fyrir boðunarstarfið. Við létum námið hæfa aldri þeirra — það varð að vera áhugavert, jákvætt og skemmtilegt.“ — J.M., Bandaríkjunum.
„Til að hjálpa syni biblíunemanda míns að skilja hvernig það var að nota bókrollur á biblíutímum, prentuðum við út Jesajabók eftir að við höfðum strikað út öll kafla- og versanúmerin. Við límdum blaðsíðurnar síðan saman og festum hvorn endann við hólk. Strákurinn reyndi síðan að gera það sem Jesús hafði gert í samkundunni í Nasaret. Í frásögunni í Lúkasi 4:16-21 segir að Jesús hafi lokið upp Jesajabók og fundið staðinn sem hann leitaði að. (Jes. 61:1, 2) Þegar strákurinn reyndi síðan að gera það sama reyndist það hægara sagt en gert að finna kafla 61 í Jesaja þar sem búið var að taka út kafla- og versanúmerin. Dolfallinn yfir færni Jesú, hrópaði strákurinn upp yfir sig: ‚Jesús var frábær!‘“ — Y.T., Japan.
[Mynd á blaðsíðu 30]
Verklegar æfingar geta hjálpað börnunum að takast á við hópþrýsting.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Kappkostið að gera biblíunámskvöld fjölskyldunnar skemmtilegt.