Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fylgir þú Kristi að fullu?

Fylgir þú Kristi að fullu?

Fylgir þú Kristi að fullu?

„[Breytið] eins og þið reyndar gerið. En takið enn meiri framförum.“ — 1. ÞESS. 4:1.

1, 2. (a) Hvaða stórvirkjum voru margir vitni að á dögum Jesú? (b) Af hverju eru okkar tímar líka einstakir?

HEFUR þú einhvern tíma hugsað sem svo að það hefði verið ánægjulegt að vera uppi á þeim tíma þegar Jesús var á jörðinni? Þú hugsar kannski um möguleikann á að fá lækningu frá Jesú og losna þannig við erfið eða þjakandi veikindi. Þú gætir líka hugsað til þess hve ánægjulegt það hefði verið að sjá og heyra í Jesú — fá kennslu frá honum eða sjá hann vinna kraftaverk. (Mark. 4:1, 2; Lúk. 5:3-9; 9:11) Það hefði verið stórkostlegt að vera á staðnum þegar Jesús vann öll þessi stórvirki. (Lúk. 19:37) Engin kynslóð eftir það hefur orðið vitni að öðru eins, og það sem Jesús kom til leiðar „með fórn sinni“ verður ekki endurtekið. — Hebr. 9:26; Jóh. 14:19.

2 En okkar dagar eru líka einstakir. Af hverju? Við lifum núna á tímum sem Biblían kallar ,endalokin‘ og ,síðustu daga‘. (Dan. 12:1-4, 9; 2. Tím. 3:1) Á þessu tímabili hefur Satan verið varpað niður af himnum. Bráðum verður hann bundinn og honum kastað „í undirdjúpið“. (Opinb. 12:7-9, 12; 20:1-3) Það er líka á þessum dögum sem við höfum þann sérstaka heiður að fá að boða „fagnaðarerindið um ríkið“ um alla heimsbyggðina og segja fólki frá voninni um paradís framtíðarinnar. Og þetta starf verður aldrei endurtekið. — Matt. 24:14.

3. Hvað sagði Jesús fylgjendum sínum að gera rétt áður en hann steig upp til himna og hvað fæli það í sér?

3 Rétt áður en Jesús steig upp til himna sagði hann við fylgjendur sína: „Þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Post. 1:8) Þetta starf fæli í sér alþjóðlegt kennslustarf. Hvert væri markmiðið? Að gera menn að lærisveinum — fylgjendum Krists — áður en endirinn kæmi. (Matt. 28:19, 20) Hvað verðum við að gera til að ná að fylgja þessu boði Krists?

4. (a) Á hvað leggur Pétur áherslu í 2. Pétursbréfi 3:11, 12? (b) Gegn hverju þurfum við að vera á verði?

4 Taktu eftir þessum orðum Péturs postula: „Þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi.“ (2. Pét. 3:11, 12) Pétur leggur hér áherslu á nauðsyn þess að vera vel á verði nú á síðustu dögum og vera ákveðin í að halda áfram að lifa guðrækilegu lífi. Það felur í sér að boða fagnaðarerindið. Það veitir okkur því mikla gleði að sjá hve kröftuglega bræðrafélagið fylgir boði Krists um að prédika um allan heim. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir því að við verðum að gæta þess að daglegur þrýstingur frá heimi Satans og okkar eigin holdlegu langanir dragi ekki úr ákafa okkar í þjónustu Guðs. Skoðum því hvernig við getum gengið úr skugga um að við höldum áfram að fylgja Kristi.

Sinnum verkefnum okkar fúslega

5, 6. (a) Fyrir hvað hrósaði Páll trúsystkinum sínum í Jerúsalem og við hverju varaði hann þau? (b) Af hverju ættum við ekki að líta léttvægum augum á þjónustuna sem Guð felur okkur?

5 Í bréfi sínu til kristinna manna í Jerúsalem hrósaði Páll postuli trúsystkinum sínum fyrir þá trúfesti sem þau höfðu sýnt jafnvel í ofsóknum. Hann sagði: „Minnist fyrri daga, er þið höfðuð tekið á móti ljósinu, hvernig þið stóðust miklar þrengingar.“ Já, Jehóva mundi eftir trúfesti þeirra. (Hebr. 6:10; 10:32-34) Hlýlegt hrós Páls hlýtur að hafa verið hvetjandi fyrir þessa kristnu Hebrea. En í þessu sama bréfi varaði Páll einnig við mannlegri tilhneigingu sem gæti dregið úr ákafanum í þjónustu Guðs ef henni væri ekki haldið í skefjum. Hann sagði að kristnir menn ættu að gæta þess að skjóta sér ekki undan því að fylgja boðum Guðs.

6 Viðvörun Páls gegn tilhneigingunni að skjóta sér undan þjónustunni, sem Guð felur okkur, á einnig erindi til kristinna manna nú á dögum. Við vitum að við verðum að vera staðráðin í því að líta aldrei léttvægum augum á verkefni okkar eða leyfa ákafanum í þjónustu Guðs að dofna. (Hebr. 10:39) Það er um líf eða dauða að tefla hvort við sinnum heilagri þjónstu eða ekki. — 1. Tím. 4:16.

7, 8. (a) Hvað getur hjálpað okkur að halda áfram að vera kappsöm í þjónustu Guðs? (b) Hvað ættum við að muna um Jehóva og Jesú ef við höfum að einhverju leyti glatað þeim ákafa sem við höfðum áður?

7 Hvernig getum við varast að skjóta okkur undan skyldum okkar við Guð? Ein mikilvæg leið til að berjast gegn þessari tilhneigingu er að hugleiða reglulega þýðingu vígsluheitsins. Í stuttu máli lofuðum við Jehóva að við myndum framar öllu öðru í lífinu gera vilja hans, og við viljum halda það loforð. (Lestu Matteus 16:24.) Þess vegna verðum við stundum að staldra við og spyrja okkur: Er ég jafn staðráðinn í því að lifa í samræmi við vígsluheitið og þegar ég skírðist? Eða hef ég að einhverju leyti glatað þeim ákafa sem ég hafði áður?

8 Ef heiðarleg sjálfsrannsókn leiðir í ljós að við höfum slakað á í þjónustunni væri gott fyrir okkur að minnast hvetjandi orða Sefanía spámanns. Hann sagði: „Láttu ekki hugfallast. Drottinn, Guð þinn, er hjá þér, hin frelsandi hetja. Hann mun fagna og gleðjast yfir þér.“ (Sef. 3:16, 17) Þessi hughreystandi orð áttu fyrst við Ísraelsmenn til forna sem sneru aftur til Jerúsalem eftir útlegðina í Babýlon. En þetta loforð á líka við um þjóna Guðs nú á dögum. Þar sem starfið, sem við sinnum, er starf Jehóva verðum við að muna að bæði Jehóva og sonur hans styðja okkur og hjálpa að sinna verkefni okkar að fullu. (Matt. 28:20; Fil. 4:13) Ef við leitumst við að halda áfram að sinna starfi Guðs af kappi blessar hann okkur og hjálpar okkur að taka framförum í trúnni.

Verum ákveðin í að leita fyrst ríkis Guðs

9, 10. Hver er kjarninn í dæmisögu Jesú um kvöldmáltíðina miklu og hvaða lærdóm getum við dregið af henni?

9 Þegar Jesús var að borða máltíð á heimili eins af höfðingjum faríesa sagði hann dæmisögu um mikla kvöldmáltíð. Í dæmisögunni lýsti hann því tækifæri, sem stóð mönnum til boða, að fá hlut í ríkinu á himnum. Hann skýrði líka hvað það þýðir að skjóta sér undan eða „afsaka sig“. (Lestu Lúkas 14:16-21.) Boðsgestirnir í dæmisögu Jesú komu með afsakanir fyrir því að mæta ekki í veisluna. Einn sagðist þurfa að fara að skoða akur sem hann hafði nýlega keypt. Annar sagðist hafa keypt búfé og vildi skoða það. Sá þriðji sagði: „Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.“ Þetta voru lélegar afsakanir. Sá sem kaupir akur eða búfé skoðar það yfirleitt fyrir fram og því var ekki brýn þörf á að gera það eftir á. Og þótt einhver hafi nýlega gift sig er það engin ástæða til að afþakka svona mikilvægt boð. Það er engin furða að gestgjafinn í dæmisögunni hafi reiðst.

10 Allir þjónar Guðs geta dregið lærdóm af dæmisögu Jesú. Hver er hann? Við ættum aldrei að leyfa persónulegum málum, eins og þeim sem Jesús nefndi, að verða okkur svo mikilvæg að þau ýti til hliðar þjónustunni við Guð. Ef kristinn maður hefur ekki rétt viðhorf til þessara mála mun ákafi hans í boðunarstarfinu dofna með tímanum. (Lestu Lúkas 8:14.) Til að koma í veg fyrir að það gerist lifum við í samræmi við hvatningu Jesú: „Leitið fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis.“ (Matt. 6:33) Það er mjög uppörvandi að sjá þjóna Guðs, unga jafnt sem aldna, fylgja þessum mikilvægu leiðbeiningum. Margir hafa jafnvel gert ráðstafanir til að einfalda líf sitt svo að þeir hafi meiri tíma fyrir boðunarstarfið. Þeir læra af eigin reynslu að ef þeir eru ákveðnir í að leita fyrst ríkis Guðs veitir það þeim sanna hamingju og lífsfyllingu.

11. Hvaða frásaga í Biblíunni undirstrikar nauðsyn þess að þjóna Guði af heilum huga og ákafa?

11 Til að lýsa mikilvægi þess að vera kappsöm í þjónustu Guðs skulum við skoða atvik úr lífi Jóasar konungs í Ísrael. Hann var svo hræddur um að Ísrael félli í hendur Sýrlendinga að hann brast í grát frammi fyrir Elísa. Spámaðurinn sagði honum að skjóta ör út um gluggann í átt að Sýrlandi. En það táknaði að Jehóva myndi gefa þeim sigur yfir þessari þjóð. Þetta hefði vissulega átt að hughreysta konunginn. Næst sagði Elísa honum að taka örvar sínar og slá þeim á jörðina. Jóas gerði það aðeins þrisvar. Þetta vakti reiði Elísa því að ef Jóas hefði slegið á jörðina fimm eða sex sinnum hefði það þýtt að hann myndi gersigra Sýrland. En nú myndi Jóas aðeins vinna þrjá takmarkaða sigra gegn þeim. Áhugaleysi hans varð til þess að hann náði aðeins takmörkuðum árangri. (2. Kon. 13:14-19) Hvað getum við lært af þessari frásögu? Jehóva blessar okkur ríkulega svo framarlega sem við sinnum verki hans af heilum hug og ákafa.

12. (a) Hvað hjálpar okkur að vera kappsöm í þjónustunni þrátt fyrir erfiðleika lífsins? (b) Hvernig nýtur þú góðs af því að vera upptekinn í boðunarstarfinu?

12 Erfiðleikar í lífinu reyna á hollustu okkar og ákafa í þjónustu Guðs. Margir bræður og systur glíma við íþyngjandi fjárhagserfiðleika. Aðrir eru vonsviknir vegna þess að alvarleg veikindi takmarka það sem þeir geta gert í þjónustunni. En við getum öll gætt þess að varðveita eldmóð okkar og fylgja Kristi að fullu. Skoðaðu tillögurnar og ritningarstaðina í rammanum „Hvað getur hjálpað þér að fylgja Kristi?“ Hugleiddu hvernig þú getur farið sem best eftir þessum ráðum. Þá uppskerðu raunverulega blessun. Ef við erum upptekin í boðunarstarfinu gefur það okkur stöðugleika, auðgar líf okkar og færir okkur meiri frið og hamingju. (1. Kor. 15:58) Og ef við erum heilshugar í þjónustunni við Guð hjálpar það okkur um fram allt að „bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi“. — 2. Pét. 3:12.

Endurskoðaðu aðstæður þínar

13. Hvernig getum við metið hvort við þjónum Guði af heilum hug?

13 Það er gott að muna að klukkustundirnar, sem við verjum í boðunarstarfinu, eru ekki mælikvarði á það hvort við sinnum þjónustunni af heilum hug eða ekki. Aðstæður fólks eru mismunandi. Sá sem ver aðeins einni eða tveimur klukkustundum í boðunarstarfinu í hverjum mánuði gæti verið mjög velþóknanlegur í augum Jehóva ef þetta er í rauninni allt sem heilsa hans leyfir. (Samanber Markús 12:41-44.) Til að athuga hvort við þjónum Guði af heilum hug verðum við að meta hreinskilningslega getu okkar og aðstæður. Þar sem við erum fylgjendur Krists viljum við líka samræma viðhorf okkar hans viðhorfum. (Lestu Rómverjabréfið 15:5; 1. Kor. 2:16) Hvað lét Jesús ganga fyrir í lífi sínu? Hann sagði við mannfjöldann í Kapernaúm: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki því að til þess var ég sendur.“ (Lúk. 4:43; Jóh. 18:37) Hafðu eldmóð Jesú í huga þegar þú endurskoðar aðstæður þínar til að athuga hvort þú getir gert meira í þjónustunni. — 1. Kor. 11:1.

14. Hvernig gætum við gert meira í þjónustunni?

14 Ef við endurskoðum aðstæður okkar vandlega komumst við kannski að þeirri niðurstöðu að við gætum varið meiri tíma í boðunarstarfinu. (Matt. 9:37, 38) Til dæmis hafa þúsundir ungmenna í söfnuðinum aukið við starf sitt eftir skólagöngu og njóta nú þeirrar gleði sem fylgir brautryðjandastarfinu. Myndir þú líka vilja upplifa þá gleði? Sumir bræður og systur hafa skoðað aðstæður sínar og ákveðið að flytja þangað sem þörf er á fleiri boðberum, hvort sem það er innanlands eða fyrir utan landsteinana. Aðrir hafa lært nýtt tungumál til að hjálpa útlendingum á starfssvæðinu. Þótt það geti verið áskorun að auka við starf sitt færir það mikla blessun og þannig getum við hjálpað mörgum til viðbótar að komast „til þekkingar á sannleikanum“. — 1. Tím. 2:3, 4; 2. Kor. 9:6.

Fyrirmyndir í Biblíunni

15, 16. Fordæmi hverra getum við líkt eftir til að vera kappsamir fylgjendur Krists?

15 Hvernig brugðust sumir við sem síðar urðu postular þegar Kristur bauð þeim að fylgja sér? Frásagan segir um Matteus: „Hann stóð upp, yfirgaf allt og fylgdi honum.“ (Lúk. 5:27, 28) Við lesum um Pétur og Andrés sem voru við fiskveiðar: „Þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum.“ Næst sá Jesús þá Jakob og Jóhannes sem voru að gera við netin ásamt föður sínum. Hvernig brugðust þeir við boði Jesú? „Þeir yfirgáfu jafnskjótt bátinn og föður sinn og fylgdu honum.“ — Matt. 4:18-22.

16 Önnur góð fyrirmynd er Sál sem síðar varð Páll postuli. Þótt hann hafi ofsótt fylgjendur Krists grimmilega breytti hann sér og varð „verkfæri til þess að bera nafn [Krists]“. Páll „tók þegar að prédika í samkunduhúsunum að Jesús væri sonur Guðs“. (Post. 9:3-22) Og þótt hann hafi þurft að þola mikla erfiðleika og ofsóknir glataði hann aldrei ákafa sínum. — 2. Kor. 11:23-29; 12:15.

17. (a) Hvað vilt þú gera til að fylgja Kristi? (b) Hvaða blessana njótum við þegar við gerum vilja Jehóva af öllu hjarta og öllum mætti?

17 Við viljum vissulega líkja eftir góðu fordæmi þessara lærisveina og bregðast strax við boði Krists án þess að hika. (Hebr. 6:11, 12) Hvaða blessana njótum við þegar við leggjum okkur fram um að fylgja Kristi að fullu? Við upplifum sanna gleði þegar við gerum vilja Guðs. Og þegar við þiggjum aukin þjónustuverkefni og ábyrgðarstörf í söfnuðinum veitir það okkur mikla ánægju. (Sálm. 40:9; lestu 1. Þessaloníkubréf 4:1.) Já, þegar við leggjum okkur kappsamlega fram um að fylgja Kristi njótum við ríkulegra og varanlegra blessana á borð við hugarfrið, gleði, lífsfyllingu, velþóknun Guðs og von um eilíft líf.— 1. Tím. 4:10.

Manstu?

• Hvaða mikilvæga starf hefur okkur verið falið og hvernig ættum við að líta á það?

• Hvaða mannlegu tilhneigingu verðum við að varast og af hverju?

• Hvað verðum við að endurskoða reglulega í lífi okkar?

• Hvað getur hjálpað okkur að fylgja Kristi?

[Spurningar]

[Rammi/​mynd á bls. 27]

Hvað getur hjálpað þér að fylgja Kristi?

▪ Lestu orð Guðs daglega og hugleiddu það sem þú lest. — Sálm. 1:1-3; 1. Tím. 4:15.

▪ Biddu oft um stuðning og leiðsögn anda Guðs. — Sak. 4:6; Lúk. 11:9, 13.

▪ Hafðu félagsskap við þá sem hafa eldmóð fyrir boðunarstarfinu. — Orðskv. 13:20; Hebr. 10:24, 25.

▪ Gerðu þér grein fyrir því að við lifum á síðustu dögum. — Ef. 5:15, 16.

▪ Hafðu hugfast hve alvarlegt það er að skjóta sér undan eða „afsaka sig“. — Lúk. 9:59-62.

▪ Hugleiddu reglulega vígsluheitið og þær ríkulegu blessanir sem fylgja því að þjóna Jehóva og fylgja Kristi heilshugar. — Sálm. 116:12-14; 133:3; Orðskv. 10:22.