Lærum af auðmýkt Jesú
„Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður.“ – JÓH. 13:15.
1, 2. Hvað kenndi Jesús postulunum kvöldið fyrir dauða sinn?
ÞETTA er kvöldið fyrir dauða Jesú og hann er staddur með postulum sínum í loftsal í húsi nokkru í Jerúsalem. Meðan þeir eru að borða stendur Jesús á fætur og leggur frá sér kyrtilinn. Hann bindur um sig líndúk og hellir vatni í skál. Síðan þvær hann fætur lærisveinanna og þerrar með líndúknum. Að því búnu fer hann aftur í kyrtilinn. Af hverju sýndi Jesús slíka auðmýkt í verki? – Jóh. 13:3-5.
2 Jesús sagði við þá: „Skiljið þér hvað ég hef gert við yður? . . . Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður.“ (Jóh. 13:12-15) Með þessari auðmjúku þjónustu kenndi Jesús postulunum hvernig þeir ættu sjálfir að sýna auðmýkt. Það sem þeir lærðu við þetta tækifæri yrði greypt í huga þeirra um ókomna tíð.
3. (a) Við hvaða tvö tækifæri sýndi Jesús hve mikilvægt sé að vera auðmjúkur? (b) Um hvað verður fjallað í þessari grein?
3 Þetta var þó ekki í fyrsta skipti sem Jesús sýndi postulunum hve mikilvægt væri að vera auðmjúkur. Áður höfðu sumir postulanna farið að metast um hver þeirra væri mestur. Jesús lét lítið barn setjast hjá sér og sagði við þá: „Hver sem tekur við þessu barni í mínu nafni tekur við mér og hver sem tekur við mér tekur við þeim er sendi mig. Því að sá sem minnstur er meðal ykkar allra, hann er mestur.“ (Lúk. 9:46-48) Seinna meir þegar Jesús var að ræða við faríseana, sem þóttust vera öðrum fremri, sagði hann: „Hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ (Lúk. 14:11) Jesús vill augljóslega að fylgjendur sínir séu auðmjúkir, það er að segja lítillátir og lausir við stolt og hroka. Við skulum nú kanna hvað við getum lært af auðmýkt Jesú svo að við getum líkt eftir honum. Við munum einnig sjá hvernig þessi eiginleiki er til góðs bæði þeim sem sýna hann og öðrum.
„ÉG . . . FÆRÐIST EKKI UNDAN“
4. Hvernig sýndi einkasonur Guðs auðmýkt áður en hann kom til jarðar?
4 Einkasonur Guðs sýndi auðmýkt jafnvel áður en hann kom til jarðar. Jesús hafði verið á himnum með föður sínum um ómunatíð. Í Jesajabók í Biblíunni er sagt frá nánu sambandi sonarins við föðurinn. Þar segir: „Drottinn Guð hefur gefið mér lærisveinatungu svo að ég lærði að styrkja hinn þreytta með orðum. Á hverjum morgni vekur hann eyra mitt svo að ég hlusti eins og lærisveinn. Drottinn Guð opnaði eyra mitt og ég streittist ekki á móti, færðist ekki undan.“ (Jes. 50:4, 5) Jesús var auðmjúkur og hlustaði vandlega á það sem Jehóva, faðir hans, kenndi honum. Hann var ákafur nemandi og þráði heitt að hljóta fræðslu hjá hinum sanna Guði. Jesús hlýtur einnig að hafa lært af lítillæti Jehóva þegar hann sá hvernig hann miskunnaði syndugum mönnum.
5. Hvernig sýndi Jesús auðmýkt og hógværð þegar hann átti í orðadeilu við Satan?
5 En það höfðu ekki allar andaverur á himnum sama hugarfar og einkasonur Guðs. Engilinn, sem síðar varð Satan djöfullinn, langaði ekki til að hljóta fræðslu hjá Jehóva. Í stað þess að vera auðmjúkur varð hann stoltur og vildi upphefja sjálfan sig. Þar af leiðandi gerði hann uppreisn gegn Jehóva. Jesús var hins vegar hvorki óánægður með stöðu sína á himnum né vildi hann misnota vald sitt. Í Biblíunni er til dæmis sagt frá því þegar Jesús „átti í orðadeilu við [Satan] um líkama Móse“. Þegar þetta átti sér stað fór Jesús ekki út fyrir valdsvið sitt jafnvel þótt hann væri höfuðengillinn Míkael. Sonur Guðs var öllu heldur auðmjúkur og hógvær. Hann kaus að bíða þess að Jehóva, æðsti dómari alheims, dæmdi í málinu í samræmi við vilja sinn. – Lestu Júdasarbréfið 9.
6. Hvernig sýndi Jesús að hann var lítillátur með því að þiggja það verkefni að verða Messías?
6 Áður en Jesús kom til jarðar hafði hann eflaust fræðst um alla þá spádóma sem sögðu fyrir hvernig líf hans yrði sem Messías. Honum hefur því líklega verið ljóst hvers konar raunir biðu hans. Samt þáði hann það verkefni að lifa sem maður á jörð, deyja síðan fórnardauða og uppfylla þar með alla spádómana um Messías. Hvers vegna var hann fús til þess? Vegna þess að Jesús var lítillátur eins og Páll postuli benti á þegar hann skrifaði: „Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur.“ – Fil. 2:6, 7.
HANN „LÆGÐI SJÁLFAN SIG“
7, 8. Hvernig sýndi Jesús auðmýkt á bernskuárunum og í starfi sínu hér á jörð?
7 Páll skrifaði um Jesú: „Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.“ (Fil. 2:7, 8) Allt frá barnæsku sýndi Jesús lítillæti og við getum lært mikið af fordæmi hans. Þótt foreldrar Jesú, þau Jósef og María, hafi verið ófullkomin ,var hann þeim hlýðinn‘. (Lúk. 2:51) Hann er börnum og unglingum frábær fyrirmynd. Þegar þau hlýða foreldrum sínum öðlast þau blessun Guðs.
8 Sem fullorðinn maður sýndi Jesús auðmýkt með því að láta vilja Jehóva ganga fyrir öllu öðru í lífinu. (Jóh. 4:34) Í starfi sínu notaði hann nafn Guðs og hjálpaði einlægu fólki að öðlast nákvæma þekkingu á eiginleikum hans og fyrirætlun með mannkynið. Jesús fór líka sjálfur eftir því sem hann kenndi. Það fyrsta sem hann nefndi þegar hann kenndi lærisveinum sínum að biðja var: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ (Matt. 6:9) Jesús sýndi því fylgjendum sínum fram á að ekkert ætti að vera þeim mikilvægara en að helga nafn Guðs. Hann gekk líka á undan með góðu fordæmi. Skömmu áður en hann dó gat hann þess vegna sagt við Jehóva í bæn: „Ég hef kunngjört þeim [postulunum] nafn þitt og mun kunngjöra.“ (Jóh. 17:26) Jesús gaf Jehóva enn fremur heiðurinn af öllu því sem hann kom til leiðar á meðan hann starfaði hér á jörð. – Jóh. 5:19.
9. Hverju spáði Sakaría um Messías og hvernig rættist það á Jesú?
9 Sakaría spáði um Messías: „Fagna mjög, dóttirin Síon, lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem. Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, ungum ösnufola.“ (Sak. 9:9) Þetta rættist þegar Jesús kom til Jerúsalem rétt fyrir páskahátíðina árið 33. Fólkið þyrptist að honum og margir lögðu klæði sín eða trjágreinar á veginn. Íbúar Jerúsalem voru afar spenntir vegna komu hans. En jafnvel þegar fólkið hyllti Jesú sem konung var hann lítillátur. – Matt. 21:4-11.
10. Hvað sannaði Jesús með því að vera hlýðinn allt til dauða?
10 Meðan Jesús Kristur var hér á jörð sýndi hann lítillæti og hlýðni allt þar til hann dó á Job. 1:9-11; 2:4) Með því að vera föður sínum fullkomlega hlýðinn sýndi Kristur fram á að Jehóva sé réttlátur og réttmætur Drottinn alheims. Það hefur vissulega glatt Jehóva að sjá auðmjúkan son sinn sýna sér óbifanlega hollustu. – Lestu Orðskviðina 27:11.
kvalastaur. Þar með sannaði hann svo ekki verður um villst að mennirnir geta verið Jehóva trúir jafnvel í erfiðustu prófraunum. Jesús staðfesti einnig að sú ásökun Satans að mennirnir þjóni Jehóva aðeins vegna eigin hagsmuna átti ekki við rök að styðjast. (11. Hvað hefur lausnarfórn Jesú Krists í för með sér fyrir þá sem trúa á hann?
11 Jesús greiddi líka lausnargjaldið fyrir mannkynið með dauða sínum á kvalastaur. (Matt. 20:28) Fórn hans opnaði syndugum mönnum leiðina að eilífu lífi án þess fara á skjön við réttlæti Jehóva. Páll skrifaði: „Allir [verða] sýknir og öðlast líf sakir þess fullkomna verks sem einn vann.“ (Rómv. 5:18) Dauði Jesú hefur í för með sér að andasmurðir kristnir menn öðlast ódauðleika á himnum og ,aðrir sauðir‘ eilíft líf hér á jörð. – Jóh. 10:16; Rómv. 8:16, 17.
ÉG ER „AF HJARTA LÍTILLÁTUR“
12. Hvernig sýndi Jesús auðmýkt og nærgætni í samskiptum sínum við ófullkomna menn?
12 Jesús bauð öllum sem voru þreyttir og niðurdregnir að koma til sín. Hann sagði: „Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ (Matt. 11:28, 29) Þar sem Jesús var auðmjúkur og nærgætinn sýndi hann ófullkomnum mönnum vinsemd og sanngirni. Hann ætlaðist ekki til meira af lærisveinum sínum en þeir gátu gert. Jesús hrósaði þeim og hvatti þá. Hann lét þá aldrei fá á tilfinninguna að þeir væru vanhæfir eða lítils virði. Jesús var alls ekki hranalegur eða kröfuharður. Hann fullvissaði hins vegar lærisveina sína um að ef þeir fylgdu honum og héldu boðorð hans fengju þeir endurnærandi styrk, því að ok hans væri ljúft og byrði hans létt. Fólki leið vel í návist hans, bæði körlum, konum og börnum. – Matt. 11:30.
13. Hvernig sýndi Jesús bágstöddum meðaumkun?
13 Jesús fann til með bágstöddu almúgafólki í Ísrael og sinnti þörfum þess af alúð. Í grennd við Jeríkó hitti hann tvo blinda betlara, Bartímeus og ónafngreindan félaga hans. Þeir báðu Jesú þráfaldlega um hjálp en mannfjöldinn hastaði á þá að þeir þegðu. Jesús hefði auðveldlega getað hunsað áköll blindu mannanna. En þess í stað bað hann um að þeir yrðu færðir til hans og fullur Matt. 20:29-34; Mark. 10:46-52.
meðaumkunar gaf hann þeim sjónina á ný. Já, Jesús líkti eftir Jehóva, föður sínum, með því að vera lítillátur og miskunnsamur við synduga menn. –„SÁ SEM LÍTILLÆKKAR SJÁLFAN SIG MUN UPP HAFINN VERÐA“
14. Hverju kom Jesús til leiðar með auðmýkt sinni?
14 Lítillæti Jesú var mörgum til gleði og blessunar. Jehóva Guð gladdist þegar hann sá elskaðan son sinn beygja sig auðmjúklega undir vilja sinn. Jesús var ávallt hógvær og af hjarta lítillátur í samskiptum sínum við postulana og lærisveinana. Fordæmi hans, kennsla og hlýleg hvatning styrkti þá, endurnærði og hjálpaði þeim að verða betri þjónar Guðs. Aðrir höfðu einnig gagn af auðmýkt Jesú vegna þess að hann hjálpaði fólki, kenndi því og hvatti. Vegna lausnarfórnar Jesú geta í raun allir sem sýna trú á hann hlotið eilífa blessun.
15. Hvernig var það Jesú til blessunar að vera auðmjúkur?
15 En var það Jesú til blessunar að vera auðmjúkur? Já, svo sannarlega. Hann sagði við lærisveina sína: „Sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ (Matt. 23:12) Þessi orð rættust á Jesú. Páll sagði: „Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið [Jesú] og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.“ Vegna þess hve trúfastur og lítillátur Jesús var hér á jörð umbunaði Jehóva Guð honum með því að veita honum vald yfir öllu bæði á himni og jörð. – Fil. 2:9-11.
JESÚS MUN ,SÆKJA SIGURSÆLL FRAM Í ÞÁGU SANNLEIKA OG MILDI‘
16. Hvernig mun sonur Guðs halda áfram að sýna lítillæti í framtíðinni?
16 Auðmýkt verður einnig einkennandi fyrir son Guðs í framtíðinni. Í Biblíunni er sagt fyrir hvernig Jesús mun sigra óvini sína sem konungur á himnum. Sálmaritarinn söng: „Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja, ljóma þínum og vegsemd. Sæktu sigursæll fram í þágu sannleika, mildi og réttlætis.“ (Sálm. 45:4, 5) Í Harmagedón mun Jesús Kristur sækja fram í þágu þeirra sem eru réttlátir, auðmjúkir og trúfastir. Hvað gerist síðan í lok þúsundáraríkisins þegar Messías „hefur að engu gert sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft“? Mun hann auðsýna lítillæti? Já, vegna þess að þá mun hann ,selja ríkið Guði föður sínum í hendur‘. – Lestu 1. Korintubréf 15:24-28.
17, 18. (a) Af hverju er mikilvægt að þjónar Jehóva séu auðmjúkir eins og Jesús? (b) Um hvað verður fjallað í næstu grein?
17 Hvað um okkur? Ætlum við að fylgja í fótspor Jesú og sýna auðmýkt? Þegar konungurinn Jesús Kristur kemur til að fullnægja dómi sínum í Harmagedón mun hann aðeins þyrma þeim sem eru auðmjúkir og réttlátir. Það er því lífsnauðsynlegt að við þroskum með okkur auðmýkt. Ef við erum auðmjúk gagnast það okkur á margan hátt líkt og auðmýkt Jesú Krists var bæði honum og öðrum til blessunar.
18 Hvað getur hjálpað okkur að líkja eftir Jesú og vera auðmjúk? Hvernig getum við leitast við að vera lítillát þótt það sé ekki alltaf auðvelt? Þessum spurningum verður svarað í næstu grein.