„Gefumst ekki upp“
„Þreytumst ekki að gera það sem gott er.“ – GAL. 6:9.
1, 2. Af hverju er traustvekjandi að hugleiða sýnirnar um alheimssöfnuð Jehóva?
ÞAÐ er stórfenglegt að leiða hugann að því að við skulum tilheyra miklum alheimssöfnuði. Sýnirnar, sem sagt er frá í Esekíel 1. kafla og Daníel 7. kafla, lýsa hvernig Jehóva vinnur markvisst að því að hrinda vilja sínum í framkvæmd. Jesús stýrir þeim hluta safnaðar Jehóva sem er hér á jörð, og söfnuðurinn einbeitir sér að því að boða fagnaðarerindið, fræða og hvetja boðberana og hjálpa öðrum að gerast þjónar Jehóva. Það er traustvekjandi að söfnuður Jehóva skuli starfa með þessum hætti. – Matt. 24:45.
2 Erum við hvert og eitt samstíga söfnuði Jehóva? Ertu brennandi í andanum eða er áhuginn farinn að dvína? Vera má að þú uppgötvir að þú sért farinn að þreytast eða áhuginn að minnka. Það getur gerst. Páll postuli þurfti að hvetja trúsystkini sín á fyrstu öld til að líkja eftir kostgæfni Jesú. Hann sagði að þá myndu þau síður ,þreytast og láta hugfallast‘. (Hebr. 12:3) Í námsgreininni á undan kom vel fram hvað söfnuður Jehóva er að gera nú á tímum. Sú umfjöllun hefur eflaust verið okkur hvatning til að gefast ekki upp heldur vera brennandi í andanum, líkt og fordæmi Jesú var hvetjandi fyrir frumkristna menn.
3. Hvað þurfum við að gera til að þreytast ekki og gefast ekki upp, og um hvað er fjallað í þessari námsgrein?
3 En Páll benti á að við þyrftum að gera fleira til að þreytast ekki og gefast ekki upp. Hann sagði að við þyrftum að vera dugleg að „gera það sem gott er“. (Gal. 6:9) Við skulum nú líta á fimm atriði sem geta hjálpað okkur að vera staðföst og samstíga söfnuði Jehóva. Þá komum við ef til vill auga á eitthvert svið þar sem við þurfum að taka okkur á eða fjölskylda okkar.
TILBIÐJUM GUÐ SAMAN OG UPPÖRVUM HVERT ANNAÐ
4. Hvers vegna getum við sagt að samkomur hafi alltaf verið mikilvægur þáttur sannrar tilbeiðslu?
4 Samkomur hafa alltaf gegnt stóru hlutverki í lífi þjóna Jehóva. Andaverum á himni er boðið að ganga fram fyrir Jehóva við ákveðin tækifæri. (1. Kon. 22:19; Job. 1:6; 2:1; Dan. 7:10) Ísraelsmenn til forna áttu að safnast saman til þess að ,hlusta og læra‘. (5. Mós. 31:10-12) Á fyrstu öld höfðu Gyðingar fyrir vana að sækja samkunduhúsin til að heyra lesið upp úr Ritningunni. (Lúk. 4:16; Post. 15:21) Samkomur gegndu einnig mikilvægu hlutverki eftir að kristni söfnuðurinn var myndaður og er enn snar þáttur í tilbeiðslunni. Sannkristnir menn ,gefa gætur hver að öðrum og hvetja hver annan til kærleika og góðra verka‘. Við þurfum að ,uppörva hvert annað og það því fremur sem við sjáum að dagurinn færist nær‘. – Hebr. 10:24, 25.
5. Hvernig getum við uppörvað hvert annað á samkomum?
5 Ein leið til að uppörva hvert annað er að tjá okkur á samkomum. Við getum játað trú okkar með því að svara spurningu í námsgrein, skýra ritningarstað eða segja stutta frásögu til að sýna fram á að það sé til góðs að fara eftir meginreglum Biblíunnar. (Sálm. 22:23; 40:10) Það er alltaf hvetjandi að heyra trúsystkini okkar á öllum aldri tjá sig á samkomum. Við njótum þess hvort sem við erum ný í trúnni eða höfum sótt samkomur árum saman.
6. Hvernig eru samkomurnar okkur til góðs?
6 Það er önnur ástæða fyrir því að Jehóva Guð leggur mikla áherslu á að við sækjum samkomur reglulega. Á samkomum og mótum fáum við hvatningu til að tala með djörfung og halda ótrauð áfram þó að fólk sé áhugalítið eða andsnúið þegar við boðum trúna. (Post. 4:23, 31) Ræður og önnur biblíufræðsla styrkja okkur í trúnni. (Post. 15:32; Rómv. 1:11, 12) Kennslan og hvatningin, sem við fáum á samkomum, veita okkur ósvikna hamingju svo að við getum notið „friðar á erfiðum dögum“. (Sálm. 94:12, 13) Fræðslunefnd hins stjórnandi ráðs skipuleggur kennsluna sem fram fer á samkomum og mótum þjóna Jehóva um allan heim. Við megum vera innilega þakklát fyrir að fá uppbyggilega kennslu á samkomum í hverri einustu viku árið um kring.
7, 8. (a) Hvert er megnmarkmiðið með safnaðarsamkomum? (b) Hvaða gagn hefurðu af samkomunum?
7 En samkomurnar bjóða upp á annað og meira en fræðslu og sameiginlega uppörvun. Meginmarkmiðið með samkomunum er að tilbiðja Jehóva. (Lestu Sálm 95:6.) Það er óviðjafnanlegur heiður að mega lofa alvaldan Guð á himnum. (Kól. 3:16) Við lofum Jehóva með því að tjá trú okkar á samkomum. Jehóva verðskuldar að við tilbiðjum hann á þennan hátt. (Opinb. 4:11) Það er engin furða að við skulum vera hvött til að ,vanrækja ekki safnaðarsamkomur okkar eins og sumra er siður‘. – Hebr. 10:25.
8 Lítum við á samkomurnar sem leið til að hjálpa okkur að halda út uns Jehóva lætur til skarar skríða gegn þessum illa heimi? Ef við gerum það metum við rétt þá hluti sem máli skipta og tökum okkur tíma til að sækja allar samkomur þó að við höfum mikið að gera. (Fil. 1:10) Við ættum að nota hvert tækifæri til að sameinast trúsystkinum okkar í tilbeiðslu á Jehóva. Missum ekki af samkomum nema brýna nauðsyn beri til.
BOÐUM FAGNAÐARERINDIÐ AF KAPPI
9. Hvernig vitum við að boðunarstarfið er mikilvægt?
9 Til að vera samstíga alheimssöfnuði Jehóva þurfum við að leggja okkur fram við að boða fagnaðarerindið. Jesús hleypti boðuninni af stokkunum þegar hann var hér á jörð. (Matt. 28:19, 20) Þaðan í frá hefur alheimssöfnuður Jehóva einbeitt sér að því að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum. Mörg nýleg dæmi gefa til kynna að englarnir styðji boðunina og leiði okkur til þeirra sem eru móttækilegir fyrir sannleikanum. (Post. 13:48; Opinb. 14:6, 7) Jarðneskur hluti safnaðar Jehóva hefur það hlutverk að skipuleggja og styðja þetta mikilvæga boðunarstarf. Leggurðu þig allan fram við að boða fagnaðarerindið?
10. (a) Hvað gerir bróðir nokkur til að vera brennandi í andanum? (b) Hvernig hefur boðunarstarfið hjálpað þér að þreytast ekki?
10 Ef við erum ötul að boða fagnaðarerindið hjálpar það okkur að hafa brennandi áhuga á sannleika Biblíunnar. Mitchel hefur verið öldungur og brautryðjandi árum saman. Hann segir: „Ég hef yndi af því að segja fólki frá sannleikanum. Þegar ég les grein í nýjum Varðturni eða Vaknið! dáist ég að viskunni, skilningnum og jafnvæginu sem birtist í hverju einasta tölublaði. Mig langar til að fara út í boðunarstarfið til að sjá viðbrögð fólks og kanna hvernig ég geti vakið áhuga þess. Boðunin hjálpar mér að vera staðfastur. Ég er með frátekinn tíma fyrir boðunarstarfið. Ef ég þarf að sinna einhverju öðru geri ég það á undan eða eftir.“ Verum upptekin af því að þjóna Guði. Það hjálpar okkur að vera staðföst núna á síðustu dögum. – Lestu 1. Korintubréf 15:58.
NÝTUM OKKUR RITIN VEL
11. Hvers vegna ættum við að nýta okkur sem best andlegu fæðuna sem við fáum frá Jehóva?
11 Jehóva hefur látið okkur ríkulega í té andlega fæðu á prenti til að styrkja okkur. Eflaust hefurðu stundum lesið grein í blaði eða kafla í bók og sagt við sjálfan þig: Þetta var einmitt það sem mig vantaði. Það er rétt eins og Jehóva hafi látið skrifa þetta bara fyrir mig. Þetta er engin tilviljun. Jehóva notar þessi rit til að kenna okkur og leiðbeina. Hann segir: „Ég vil fræða þig, vísa þér veginn sem þú átt að ganga.“ (Sálm. 32:8) Reynum við að lesa öll ritin sem við fáum í hendur og hugleiða efnið? Það hjálpar okkur að hafa brennandi áhuga á þjónustu Guðs á þeim erfiðu tímum sem við lifum. – Lestu Sálm 1:1-3; 35:28; 119:97.
12. Hvað getur hjálpað okkur að líta ekki á andlegu fæðuna sem sjálfsagðan hlut?
12 Það er gott að velta fyrir sér allri vinnunni sem er lögð í að sjá okkur jafnt og þétt fyrir heilnæmri andlegri fæðu. Það þarf að afla upplýsinga, semja greinar, próflesa, myndskreyta og þýða ritin og efnið sem birtist á heimasíðu okkar. Ritnefnd hins stjórnandi ráðs hefur umsjón með þessari vinnu. Ritin eru send frá prentsmiðjum okkar til safnaða nær og fjær. Til hvers er allt þetta gert? Til að þjónar Jehóva fái staðgóða andlega næringu. (Jes. 65:13) Nýtum okkur vel alla andlegu fæðuna sem við fáum frá söfnuði Jehóva. – Sálm. 119:27.
STYÐJUM FYRIRKOMULAG JEHÓVA
13, 14. Hverjir styðja fyrirkomulag Jehóva á himnum og hvernig getum við gert slíkt hið sama á jörð?
13 Jóhannes postuli sá Jesú í sýn þar sem hann ríður hvítum hesti og sigrar þá sem gera uppreisn gegn Jehóva. (Opinb. 19:11-15) Fast á eftir Jesú koma trúir englar. Hinir andasmurðu eru einnig í för með honum, þeir sem hafa hlotið laun sín og verið reistir upp til lífs á himnum. Báðir hóparnir fylgja forystu Jesú. (Opinb. 2:26, 27) Þessi sýn er ákaflega trústyrkjandi og minnir á að við eigum að styðja þá sem fara með forystuna í söfnuði Jehóva.
14 Múgurinn mikli styður líka andasmurða bræður Krists, sem eru enn á jörðinni, í starfi þeirra. (Lestu Sakaría 8:23.) Hvernig getum við hvert og eitt sýnt að við styðjum fyrirkomulag Jehóva? Meðal annars með því að vera eftirlát þeim sem fara með forystuna í okkar eigin söfnuði. (Hebr. 13:7, 17) Stuðlum við að virðingu fyrir öldungunum með því að tala vel um þá? Hvetjum við börnin til að virða þessa dyggu þjóna Guðs og leita ráða hjá þeim? Og ræðum við í fjölskyldunni hvernig við getum notað fjármuni okkar til að styðja boðunarstarfið í heiminum? (Orðskv. 3:9; 1. Kor. 16:2; 2. Kor. 8:12) Tökum við þátt í ræstingu og viðhaldi ríkissalarins? Jehóva gefur ríkulega af anda sínum þar sem slík virðing og eining ríkir. Og andi hans veitir okkur kraft til að halda áfram að þjóna honum núna á síðustu dögum og gefast ekki upp. – Jes. 40:29-31.
LIFUM Í SAMRÆMI VIÐ BOÐSKAPINN
15. Hvers vegna er það stöðug barátta að lifa í samræmi við háleitan vilja Jehóva?
15 Að síðustu verðum við að lifa í samræmi við boðskapinn sem við flytjum til að vera þolgóð og samstíga söfnuði Jehóva. Við þurfum að ,meta rétt hvað Drottni þóknast‘. (Ef. 5:10, 11) Við eigum í stöðugri baráttu við slæm áhrif Satans, hins illa heims og okkar eigin ófullkomleika. Sum ykkar, kæru bræður og systur, eigið í harðri baráttu hvern einasta dag til að varðveita samband ykkar við Jehóva. Honum þykir ákaflega vænt um trúfesti ykkar. Gefist ekki upp. Ef við lifum í samræmi við vilja Jehóva gerum við lífið innihaldsríkt og guðrækni okkar verður ekki fánýt. – 1. Kor. 9:24-27.
16, 17. (a) Hvað ættum við að gera ef við drýgjum alvarlega synd? (b) Hvað má læra af reynslu Önnu?
16 En hvað ættirðu að gera ef þér verður á að drýgja alvarlega synd? Leitaðu þá hjálpar eins fljótt og þú getur. Það gerir aðeins illt verra að þegja yfir því. Mundu hvernig Davíð leið þegar hann leyndi syndum sínum. Hann sagði: „Meðan ég þagði tærðust bein mín, allan daginn stundi ég.“ (Sálm. 32:3) Það er ákaflega lýjandi að þegja yfir syndum sínum og það getur jafnvel kostað okkur vináttu Jehóva, en „sá sem játar þær og lætur af þeim hlýtur miskunn“. – Orðskv. 28:13.
17 Anna * var brautryðjandi þegar hún nálgaðist tvítugt. En þá fór hún að lifa tvöföldu lífi. Hún segir: „Það litla, sem eftir var af samviskunni, nagaði mig. Ég var vansæl og niðurdregin alla daga.“ Hvað tók hún til bragðs? Dag einn var hún á samkomu og þá var rætt um Jakobsbréfið 5:14, 15. Anna áttaði sig á því að hún væri hjálparþurfi og leitaði til öldunganna. Þegar hún lítur um öxl segir hún: „Þessi vers eru ávísun frá Jehóva upp á andlega lækningu. Lyfið er beiskt en það læknar. Ég gerði eins og segir í versunum og það hreif.“ Nú eru liðin nokkur ár síðan þetta gerðist og Anna er með hreina samvisku og þjónar Jehóva af fullum krafti.
18. Hvernig ættum við að leggja okkur fram?
18 Það er mikill heiður að mega tilheyra alheimssöfnuði Jehóva núna á síðustu dögum. Lítum aldrei á það sem sjálfsagðan hlut. Sækjum samkomur reglulega sem fjölskylda, boðum fagnaðarerindið af kappi og verum þakklát fyrir ritin með andlegu fæðunni sem við fáum jafnt og þétt. Styðjum einnig þá sem fara með forystuna og lifum í samræmi við boðskapinn sem við færum öðrum. Ef við gerum þetta erum við bæði samstíga söfnuði Jehóva og þreytumst aldrei að gera það sem gott er.
^ Nafninu er breytt.