Hefurðu látið umbreytast?
„Látið ... umbreytast með hinu nýja hugarfari.“ – RÓMV. 12:2.
1, 2. Hvaða áhrif hafa uppeldi og umhverfi á okkur?
VIÐ erum öll undir sterkum áhrifum af uppeldi okkar og umhverfi. Við klæðum okkur á vissan hátt, höfum dálæti á vissum mat og hegðum okkur á vissan hátt. Að hluta til er það vegna þess að við verðum fyrir áhrifum af þeim sem við umgöngumst, samfélaginu almennt og aðstæðum okkar í lífinu.
2 Margt er þó mikilvægara í lífinu en matarsmekkur og fataval. Við ölumst upp við að sumt sé rétt og boðlegt en annað rangt og óviðunandi. Margt á þessu sviði er smekksatriði og er breytilegt frá manni til manns. Samviskan hefur líka stundum áhrif á val okkar. Biblían bendir á að fólk, sem þekkir ekki lög Guðs, geri oft það „eftir eðlisboði sem lögmál Guðs býður“. (Rómv. 2:14) Ber þá að skilja það svo að við getum bara fylgt þeim viðmiðum sem við höfum alist upp við og eru algeng þar sem við búum, svo framarlega sem Guð hefur ekki sett nein ákveðin lagaboð um málið?
3. Hvaða tvær ástæður eru fyrir því að kristnir menn fylgja ekki bara almennum viðmiðum heimsins?
3 Nei, það eru að minnsta kosti tvær góðar ástæður fyrir því að kristnir menn mega ekki hugsa þannig. Í fyrsta lagi segir í Biblíunni: „Margur vegur virðist greiðfær en reynist þó heljarslóð.“ (Orðskv. 16:25) Við mennirnir erum ófullkomnir og erum því ekki fullfærir um að stýra skrefum okkar svo vel fari. (Orðskv. 28:26; Jer. 10:23) Í öðru lagi kemur fram í Biblíunni að það er enginn annar en Satan, „guð þessarar aldar“, sem stýrir og stjórnar tískustraumum og viðmiðum heimsins. (2. Kor. 4:4; 1. Jóh. 5:19) Þess vegna verðum við að fara eftir hvatningunni í Rómverjabréfinu 12:2 ef við viljum hafa blessun Jehóva og njóta velþóknunar hans. – Lestu.
4. Um hvað er rætt í þessari grein?
4 Í þessari grein er rætt um þrjú mikilvæg atriði sem koma fram í Rómverjabréfinu 12:2. Þau eru: (1) Af hverju þurfum við að umbreytast? (2) Hverju þurfum við að breyta? (3) Hvernig getum við umbreytt okkur?
HVERS VEGNA ÞURFUM VIÐ AÐ UMBREYTAST?
5. Hverjum voru leiðbeiningarnar í Rómverjabréfinu 12:2 fyrst og fremst ætlaðar?
5 Þegar Páll skrifaði Rómverjabréfið árið 56 stílaði hann það ekki á fólk almennt eða vantrúaða heldur á andasmurð trúsystkini sín í Róm. (Rómv. 1:7) Hann hvatti þau til að umbreytast og ,fylgja ekki háttsemi þessa heims‘. Þegar Páll talaði um ,þennan heim‘ átti hann við siði, venjur, viðmið og tískustrauma meðal Rómverja. Af orðum hans má ráða að sumir hinna kristnu hafi enn verið undir áhrifum heimsins. Hvers konar áhrif hafði heimurinn á bræður okkar og systur á þeim tíma?
6, 7. Hvernig reyndu trúarsiðir Rómverja og þjóðlíf á kristna menn þar í borg?
6 Ferðamenn, sem koma til Rómar nú á dögum, sjá þar rústir af hofum, leikhúsum og leikvöngum, auk grafhýsa og minnismerkja. Sumt af þessu er frá fyrstu öld okkar tímatals. Þessar fornmenjar veita okkur innsýn í rómverskt þjóðfélag til forna og trúarlíf fólks á þeim tíma. Við getum einnig lesið í sagnfræðibókum um bardaga skylmingaþræla, kappakstur á hestvögnum og um leikrit og söngleika sem voru sumir hverjir harla ósiðlegir. Róm var líka blómleg verslunarborg þannig að þar voru kappnóg tækifæri til að afla sér fjár. – Rómv. 6:21; 1. Pét. 4:3, 4.
7 Þrátt fyrir öll hofin og guðina áttu Rómverjar ekki nein sérstök tengsl við nokkra af guðunum sem þeir dýrkuðu. Trúin byggðist að mestu leyti á siðvenjum sem voru samofnar þjóðlífinu – trúarsiðum sem tengdust fæðingum, hjúskap og jarðarförum. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig þetta hefur reynt á kristna menn í Róm. Margir þeirra höfðu alist upp við þessa siði þannig að þeir þurftu auðvitað að umbreytast þegar þeir tóku kristna trú. Og umbreytingunni var ekki lokið daginn sem þeir létu skírast.
8. Af hverju stafar kristnum mönnum nú á tímum hætta af heiminum?
8 Kristnum mönnum nú á tímum stafar hætta af heiminum, ekki síður en kristnum mönnum í Róm til forna. Hvers vegna? Vegna þess að andi heimsins er allt í kringum okkur. (Lestu Efesusbréfið 2:2, 3; 1. Jóhannesarbréf 2:16.) Við erum í sífelldri hættu að sogast út í heiminn vegna þess að hann ýtir að okkur hugsunarhætti sínum, girndum, verðmætamati og siðferði daginn út og daginn inn. Það er því ærin ástæða fyrir okkur til að ,fylgja ekki háttsemi þessa heims heldur láta umbreytast‘ eins og við erum hvött til. Hvað þurfum við að gera til þess?
HVERJU ÞURFUM VIÐ AÐ BREYTA?
9. Hvaða breytingar þurfa margir að gera áður en þeir láta skírast?
9 Fólk byrjar að eignast samband við Jehóva þegar það fer að kynna sér Biblíuna og fara eftir því sem það lærir. Ýmsar breytingar fylgja í kjölfarið. Fólk segir skilið við falstrúarsiði og óæskilega hegðun og leggur sig fram við að „íklæðast hinum nýja manni“ og líkja eftir Kristi. (Ef. 4:22-24) Það er ánægjulegt að sjá hundruð þúsunda manna gera slíkar breytingar á hverju ári, vígjast Jehóva Guði og láta skírast. Þetta gleður hjarta Jehóva. (Orðskv. 27:11) En eru þetta einu breytingarnar sem fólk þarf að gera?
10. Hvaða munur er á umbreytingu og endurbótum?
10 Að umbreytast er annað og meira en að bæta sig á einn eða annan hátt. Stundum er vara merkt eða auglýst „endurbætt“ þó að hún hafi í rauninni lítið breyst. Það gæti verið aðeins einn nýr efnisþáttur í henni eða umbúðunum hefur verið breytt. Í biblíuorðabók segir um orðið sem er þýtt ,látið umbreytast‘: „Í Róm[verjabréfinu] 12:2 eru bornar saman þær andstæður að láta hið ytra samlagast því sem tilheyrir þessari öld [heiminum] og að umbreytast (eða ummyndast) hið innra með því að endurnýja hugann fyrir kraft heilags anda.“ (Vine’s Expository Dictionary) Breytingin, sem kristinn maður þarf að gera, er því ekki aðeins fólgin í því að segja skilið við skaðlega ósiði, ljótt orðbragð og siðlausa hegðun. Sumir forðast þetta að mestu eða öllu leyti þó að þeir þekki ekkert til Biblíunnar. Hvað er þá fólgið í því að umbreytast eins og kristinn maður þarf að gera?
11. Hvað þurfti fólk að gera, að sögn Páls, til að láta umbreytast?
11 „Látið ... umbreytast með hinu nýja hugarfari,“ skrifaði Páll. Þegar talað er um hugarfar í þessu samhengi er átt við innræti, afstöðu og rökhugsun. Í byrjun Rómverjabréfsins talar Páll um menn sem sýndu ,ósæmilegt hugarfar‘. Hann segir að þeir hafi verið „fullir alls kyns rangsleitni, vonsku, ágirndar og illsku“. Þeir voru „öfundsjúkir, morðfúsir, deilugjarnir, sviksamir“ og sitthvað fleira miður gott. (Rómv. 1:28-31) Það er ekki vandséð hvers vegna Páll hvatti þá sem höfðu alist upp í slíku umhverfi, en gerðust þjónar Guðs, til að láta „umbreytast með hinu nýja hugarfari“.
,Látið hvers konar ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur.‘ – Ef. 4:31.
12. Hvernig hugsar fólk almennt og hvers vegna stafar kristnum mönnum viss hætta af þessu hugsarfari?
12 Við erum því miður umkringd fólki í heiminum sem samsvarar lýsingu Páls. Því finnst trúlega að það sé gamaldags að fylgja ákveðnum lífsreglum og það vitni jafnvel um umburðarleysi. Margir kennarar og foreldrar eru undanlátssamir og aðhyllast svokallað „frjálslyndi“. Þeir líta svo á að allt sé afstætt og ekkert sé algilt. Margir sem segjast vera trúaðir telja jafnvel að þeir megi gera það sem þeim finnst sjálfum vera rétt, og þeim beri engin skylda til að hlýða Guði og boðorðum hans. (Sálm. 14:1) Sannkristnum mönnum getur stafað hætta af þessu hugarfari. Ef við gætum okkar ekki er hætta á að við verðum treg til að fylgja leiðbeiningum sem við fáum frá söfnuðinum og verðum jafnvel gagnrýnin á allt sem er okkur ekki að skapi. Eða kannski erum við efins um ágæti þeirra biblíulegu leiðbeininga sem við fáum um afþreyingu, notkun Netsins og æðri menntun.
13. Af hverju þurfum við að líta í eigin barm?
13 Til að fylgja ekki lengur „háttsemi þessa heims“ þurfum við sem sagt að líta í eigin barm og grandskoða innstu tilfinningar okkar, viðhorf, markmið og gildismat. Við berum það ekki endilega utan á okkur hvernig við erum innst inni. Okkur er kannski sagt að við stöndum okkur vel. En við ein vitum hvort við höfum látið Biblíuna umbreyta okkur eða móta á þessum mikilvægu sviðum og hvort við höldum áfram að breyta okkur. – Lestu Jakobsbréfið 1:23-25.
HVERNIG GETUM VIÐ UMBREYTT OKKUR?
14. Hvað getur hjálpað okkur að gera nauðsynlegar breytingar?
14 Til að umbreytast þurfum við að komast undir yfirborðið og breyta hinum innri manni. Hvað getur hjálpað okkur að gera slíkar breytingar? Þegar við lesum og hugleiðum Biblíuna lærum við hver vilji Jehóva er og hvaða kröfur hann gerir til okkar. Viðbrögð okkar við því sem við lesum leiða í ljós hvað býr í hjarta okkar og hverju við þurfum að breyta til að lifa í samræmi við fullkominn vilja Guðs. – Rómv. 12:2; Hebr. 4:12.
15. Hvers konar breyting á sér stað þegar Jehóva mótar okkur?
15 Lestu Jesaja 64:7. Spámaðurinn Jesaja dregur hér upp mynd sem við getum dregið lærdóm af. Jehóva er eins og leirkerasmiður og við erum eins og leir sem hann mótar. En það er ekki hinn ytri maður sem hann mótar. Hann gefur okkur ekki fallegra útlit eða líkamsbyggingu heldur mótar hann okkar innri mann, það er að segja hvernig við hugsum og hvað okkur finnst um hlutina. Ef við leyfum honum að móta okkur breytir hann okkur hið innra, og það er einmitt það sem við þurfum til að standast áhrif heimsins. Hvernig fer mótunin fram?
16, 17. (a) Hvað gerir leirkerasmiður við leirinn til að geta búið til vandaða leirmuni? (b) Hvernig hjálpar Biblían okkur að umbreytast svo að við verðum verðmæt ker í augum Jehóva?
16 Leirkerasmiður notar fyrsta flokks leir til að búa til vandaða leirmuni. En hann þarf að gera tvennt áður. Fyrst þarf hann að hreinsa leirinn til að fjarlægja óhreinindi og óæskileg steinefni. Síðan þarf að blanda hæfilega miklu vatni í leirinn og hnoða hann þannig að hann haldi lögun sinni eftir að búið er að móta hann.
17 Leirkerasmiður notar vatn bæði til að þvo leirinn og til að gera hann hæfilega mjúkan og þjálan til að hægt sé að móta úr honum ker, jafnvel mjög fíngerð. Getur orð Guðs haft sambærileg áhrif á líf okkar? Það getur hjálpað okkur að losna við hugsunarháttinn sem var okkur tamur áður en við kynntumst Guði og breyta okkur í verðmætt ker í augum hans. (Ef. 5:26) Hversu oft höfum við ekki verið hvött til að lesa daglega í Biblíunni og sækja samkomur reglulega þar sem Biblían er til umræðu? Af hverju erum við hvött til þess? Af því að þannig leyfum við Jehóva að móta okkur. – Sálm. 1:2; Post. 17:11; Hebr. 10:24, 25.
18. (a) Hvers vegna þurfum við að hugleiða orð Guðs til að það hafi áhrif og breyti okkur? (b) Hvaða spurninga er gagnlegt að spyrja sig?
18 Ef við viljum að Biblían breyti okkur þurfum við að lesa reglulega í henni og læra hvað hún segir. En það þarf meira til. Margir lesa af og til í Biblíunni og þekkja hana nokkuð vel. Þú hefur kannski hitt slíkt fólk í boðunarstarfinu. Sumir geta jafnvel farið með biblíuvers eftir minni. * En oft hefur Biblían ekki mikil áhrif á hugsunarhátt þeirra eða líferni. Hvað vantar? Orð Guðs hefur ekki áhrif nema fólk leyfi því að ná til hjartans. Við þurfum þess vegna að hugleiða það sem við lesum. Það er gott að spyrja sig hvort maður sé sannfærður um að þetta séu ekki bara einhverjar trúarkenningar. Hef ég ekki sannreynt að orð Biblíunnar séu sannleikur? Reyni ég að átta mig á hvernig ég geti sjálfur farið eftir því sem ég læri eða hugsa ég bara um hvernig ég geti nýtt mér það til að kenna öðrum? Finnst mér Jehóva tala til mín persónulega? Ef við hugleiðum spurningar af þessu tagi getur það haft þau áhrif að við eignumst nánara samband við Jehóva og elskum hann enn meira. Þegar það sem við lærum snertir hjartað með þessum hætti hefur það jákvæð áhrif á hegðun okkar. – Orðskv. 4:23; Lúk. 6:45.
19, 20. Hvaða leiðbeiningar í Biblíunni geta orðið okkur til mikillar blessunar?
19 Ef við lesum að staðaldri í Biblíunni og hugleiðum efnið er það okkur hvatning til að halda áfram því sem við erum trúlega búin að gera að einhverju marki: ,Afklæðist hinum gamla manni með gjörðum hans og íklæðist hinum nýja sem Guð er að skapa að nýju í sinni mynd til þess að þið fáið gjörþekkt hann.‘ (Kól. 3:9, 10) Ef við skiljum það sem Biblían kennir og förum eftir því tekst okkur að íklæðast hinum nýja manni sem getur verndað okkur fyrir lævísum gildrum Satans.
20 „Verið eins og hlýðin börn og látið líferni ykkar ekki framar mótast af þeim girndum er þið áður létuð stjórnast af,“ skrifaði Pétur postuli. Hann bætir við: „Verðið heldur sjálf heilög í öllu dagfari ykkar.“ (1. Pét. 1:14, 15) Eins og fram kemur í greininni á eftir er það okkur til blessunar að gera allt sem við getum til að losa okkur við fyrri hugsunarhátt og viðhorf og láta umbreytast.
^ Sjá dæmi sem er að finna í Varðturninum 1. júlí 1994, bls. 23, grein 7.