Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónaðu Jehóva áður en vondu dagarnir koma

Þjónaðu Jehóva áður en vondu dagarnir koma

„Mundu eftir skapara þínum.“ – PRÉD. 12:1.

1, 2. (a) Hvað var Salómon innblásið að ráðleggja unga fólkinu? (b) Hvers vegna eru ráðleggingar Salómons einnig áhugaverðar fyrir þjóna Guðs sem eru komnir á sextugsaldur eða meira?

 SALÓMON konungi var innblásið að ávarpa unga fólkið og segja: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma.“ Hverjir eru „vondu dagarnir“? Salómon notaði athyglisvert og ljóðrænt myndmál til að lýsa hinum vondu dögum ellinnar – skjálfandi höndum, óstyrkum fótum, týndum tönnum, dapurri sjón, daufri heyrn, hvítu hári og bognu baki. Enginn ætti að hugsa sér að bíða með að þjóna Jehóva þangað til hann kemst á þetta æviskeið. – Lestu Prédikarann 12:1-5.

2 Margir þjónar Guðs á sextugsaldri og eldri eru enn fullir af lífsorku. Sumir eru orðnir gráhærðir en eru sennilega ekki orðnir eins slæmir til heilsunnar og Salómon lýsir. Gætu þeir tekið til sín hinar innblásnu leiðbeiningar sem beint var til unga fólksins: „Mundu eftir skapara þínum“? Hvað merkja þessar ráðleggingar Salómons?

3. Hvað er fólgið í því að muna eftir skapara sínum?

3 Það er hollt fyrir alla, jafnvel þá sem hafa þjónað Jehóva árum saman, að hugleiða af og til hve stórfenglegur skapari okkar er. Er ekki lífið stórkostlegt? Sköpunarverkið er svo margbrotið og flókið að það er ofvaxið mannlegum skilningi. Jehóva hefur búið svo vel í haginn fyrir okkur að við höfum endalausa möguleika á að njóta tilverunnar. Þegar við hugleiðum sköpunarverk Jehóva erum við minnt á kærleika hans, visku og mátt. (Sálm. 143:5) En að muna eftir skapara sínum felur einnig í sér að íhuga skyldur sínar gagnvart honum. Slíkar hugleiðingar eru okkur örugglega hvatning til að sýna Jehóva þakklæti með því að þjóna honum eins vel og við getum og eins lengi og ævin endist. – Préd. 12:13.

EINSTÖK TÆKIFÆRI SÍÐAR Á ÆVINNI

4. Hvaða spurningar geta þeir sem eru komnir á miðjan aldur spurt sig og hvers vegna?

4 Ef þú ert kominn á miðjan aldur ættirðu að spyrja þig: Hvernig ætla ég að nota krafta mína í þjónustu Guðs meðan ég er enn við þokkalega heilsu? Sökum reynslu þinnar hefurðu ýmis tækifæri sem aðrir hafa ekki. Þú getur miðlað hinum yngri af því sem þú hefur lært af Jehóva. Þú getur styrkt aðra með því að segja frá því sem hefur drifið á daga þína í þjónustu Guðs. Davíð konungur bað Guð að gefa sér tækifæri til þess. Hann orti: „Guð, þú hefur kennt mér frá æsku . . . Yfirgef mig eigi, Guð, þó að ég verði gamall og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð og mátt þinn öllum óbornum.“ – Sálm. 71:17, 18.

5. Hvernig geta þeir sem eldri eru miðlað af reynslu sinni?

5 Hvernig geturðu miðlað öðrum af viskunni sem þú hefur aflað þér um ævina? Gætirðu boðið þeim sem yngri eru í heimsókn til uppbyggilegs félagsskapar? Gætirðu boðið þeim með þér í boðunarstarfið og sýnt þeim hve mikla ánægju þú hefur af því að þjóna Jehóva? Elíhú sagði: „Aldurinn tali, árafjöldinn kunngjöri speki.“ (Job. 32:7) Páll postuli hvatti lífsreyndar systur í söfnuðinum til að vera öðrum til hvatningar með orðum sínum og fordæmi. Hann skrifaði: „Svo eiga og aldraðar konur að vera . . . öðrum til fyrirmyndar.“ – Tít. 2:3.

HVAÐA MÖGULEIKA HEFURÐU AÐ HJÁLPA ÖÐRUM?

6. Hvers vegna ættu þeir sem búa yfir langri reynslu ekki að vanmeta sjálfa sig?

6 Ef þú ert reyndur þjónn Jehóva hefurðu margs konar möguleika á að vera öðrum til góðs. Þú veist miklu meira núna en þú vissir fyrir 30 eða 40 árum. Þú kannt að beita meginreglum Biblíunnar við alls konar aðstæður í lífinu. Þú kannt vafalaust að láta sannindi Biblíunnar snerta hjörtu þeirra sem þú kennir. Ef þú ert safnaðaröldungur kanntu að aðstoða þá sem verður eitthvað á. (Gal. 6:1) Þú hefur ef til vill lært að hafa umsjón með einhverjum þáttum safnaðarstarfsins, farið með umsjónarstarf á móti eða við byggingu ríkissalar. Vera má að þú hafir lært að hvetja lækna til að beita læknismeðferð án blóðgjafar. Og jafnvel þó að það sé fremur stutt síðan þú kynntist sannleikanum býrð þú yfir verðmætri lífsreynslu. Ef þú hefur alið upp börn kanntu ýmislegt fyrir þér sem getur komið að góðum notum. Þeir sem eldri eru geta verið söfnuðinum verðmætir með því að kenna, leiðbeina og hvetja bræður og systur. – Lestu Jobsbók 12:12.

7. Hvað geta þeir sem eldri eru kennt hinum yngri í söfnuðinum?

7 Hvernig gætirðu nýtt aðstæður þínar og hæfileika enn betur? Þú getur ef til vill kennt yngri boðberum að hefja og halda biblíunámskeið. Systur gætu kannski bent ungum mæðrum á hvernig þær geti haldið sér sterkum í trúnni samhliða því að annast börnin sín. Eldri bræður gætu hugsanlega kennt ungum bræðrum að flytja áhrifaríkar ræður og verða færari boðberar fagnaðarerindisins. Gætirðu tekið þá með þér þegar þú heimsækir roskna bræður og systur og sýnt þeim hvernig þú uppörvar þau? Þó að þú hafir ef til vill ekki sama þrek og áður hefur þú ágætis tækifæri til að kenna þeim sem yngri eru. Í Biblíunni segir: „Þrek er ungs manns þokki en hærurnar prýði öldunganna.“ – Orðskv. 20:29.

ÞAR SEM ÞÖRFIN ER MEIRI

8. Hvað gerði Páll postuli þegar aldurinn færðist yfir?

8 Páll postuli var önnum kafinn í þjónustu Jehóva fram á síðari æviár. Þegar hann var leystur úr fangelsi í Róm, líklega árið 61, átti hann að baki margra ára starf sem ötull trúboði. (2. Kor. 11:23-27) Hann hefði getað ákveðið að setjast að í Róm og boða trúna þar. Bræður hans í Róm hefðu áreiðanlega þegið stuðning hans áfram. En Páll vissi að þörfin var enn meiri í öðrum löndum. Hann lagði því upp í trúboðsferð að nýju ásamt þeim Tímóteusi og Títusi og hélt til Efesus, síðan Krítar og svo sennilega til Makedóníu. (1. Tím. 1:3; Tít. 1:5) Við vitum ekki hvort hann fór til Spánar en hann stefndi að minnsta kosti að því. – Rómv. 15:24, 28.

9. Á hvaða aldri fluttist Pétur á nýjar slóðir til að starfa þar sem þörfin var meiri? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

9 Pétur postuli var ef til vill kominn yfir fimmtugt þegar hann flutti á nýjar slóðir til að starfa þar sem þörfin var meiri. Hvernig vitum við það? Ef hann var á svipuðum aldri og Jesús eða aðeins eldri hefur hann verið um fimmtugt þegar hann hitti hina postulana í Jerúsalem árið 49. (Post. 15:7) Einhvern tíma eftir postulafundinn fluttist hann til Babýlonar, vafalaust til að boða fagnaðarerindið meðal Gyðinga sem voru fjölmennir þar um slóðir. (Gal. 2:9) Hann bjó þar þegar hann skrifaði fyrra innblásna bréfið, líklega árið 62. (1. Pét. 5:13) Það getur verið átak að setjast að erlendis en Pétur lét ekki aldurinn standa í vegi fyrir sér. Hann lagði sig allan fram í þjónustu Jehóva og hafði gleði af.

10, 11. Hvað gerðu Robert og konan hans þegar þau voru komin á miðjan aldur?

10 Aðstæður breytast oft hjá þjónum Guðs um og eftir miðjan aldur og þeir fá þá tækifæri til að þjóna Jehóva með nýjum hætti. Sumir hafa flust á svæði þar sem þörfin er meiri. Robert er einn þeirra. Hann segir: „Við hjónin vorum á miðjum sextugsaldri þegar við áttuðum okkur á að okkur stóðu til boða ýmsir nýir möguleikar í þjónustu Jehóva. Við áttum einn son og hann var fluttur að heiman, við þurftum ekki lengur að annast aldraða foreldra og við höfðum fengið svolítinn arf. Mér reiknaðist til að ef við seldum húsið gætum við greitt upp húsnæðislánið og séð okkur farborða þangað til ég færi á eftirlaun. Við fréttum að í Bólivíu vildu margir þiggja biblíunámskeið og það væri fremur ódýrt að framfleyta sér þar. Við ákváðum þess vegna að flytja þangað. Það var ekki auðvelt að laga sig að nýjum aðstæðum. Allt var svo ólíkt því sem við vorum vön í Norður-Ameríku. En það var sannarlega erfiðisins virði.“

11 Robert bætir við: „Líf okkar snýst um starfsemi safnaðarins. Sumir af biblíunemendum okkar hafa látið skírast. Fjölskylda, sem við kenndum, býr við fátæklegar aðstæður í þorpi í nokkurra kílómetra fjarlægð. En í hverri viku leggja þau á sig erfitt ferðalag í bæinn til að sækja samkomur. Hugsið ykkur hve gleðilegt það var fyrir okkur að sjá þau taka framförum og elsta drenginn gerast brautryðjanda.“

AÐ STARFA MEÐAL ERLENDRA MÁLHÓPA

12, 13. Segðu frá breskum hjónum sem færðu út kvíarnar í þjónustu Jehóva þegar þau komust á eftirlaunaaldur.

12 Söfnuðir og hópar, sem tala erlend tungumál, geta notið góðs af reynslu bræðra og systra sem eru komin fram yfir miðjan aldur. Og það getur verið mjög ánægjulegt að starfa á erlendum málsvæðum. Brian skrifar: „Það varð svolítið tómarúm í lífi okkar hjónanna þegar ég varð 65 ára og fór á eftirlaun eins og algengt er í Bretlandi. Börnin voru flutt að heiman og við hittum sjaldan áhugasamt fólk sem þáði biblíunámskeið. Þá hitti ég ungan Kínverja sem starfaði að rannsóknum við háskólann á svæðinu. Við buðum honum á samkomu. Hann þáði boðið og ég fór að aðstoða hann við biblíunám. Eftir fáeinar vikur fór kínverskur samstarfsmaður að koma með honum. Hálfum mánuði seinna bættist annar við og síðan sá þriðji.“

13 „Um það leyti sem fimmti kínverski háskólamaðurinn bað um biblíunámskeið hugsaði ég með mér: ,Það er engin ástæða til að láta af störfum í þjónustu Jehóva þó að ég sé orðinn 65 ára.‘ Ég spurði þá konuna mína, sem er tveim árum yngri en ég, hvort hún væri til í að læra kínversku. Við studdumst við hljóðritað námsefni. Þetta var fyrir tíu árum. Okkur fannst við verða ung á ný þegar við fórum að boða fagnaðarerindið á erlendu málsvæði. Hingað til höfum við verið með 112 Kínverja í biblíunámi. Flestir hafa sótt samkomur. Einn þeirra starfar með okkur núna sem brautryðjandi.“

Aldurinn þarf ekki að hindra þig í að takast á við ný verkefni. (Sjá 12. og 13. grein.)

NJÓTTU ÞESS AÐ GERA ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR

14. Hvað ættu þjónar Guðs, sem eru komnir yfir miðjan aldur, að hafa hugfast og hvernig getur fordæmi Páls verið þeim til hvatningar?

14 Þótt margir geti tekist á við ný verkefni í þjónustu Jehóva á sextugsaldri er það ekki á færi allra. Sumir eru veilir til heilsunnar og aðrir þurfa að annast aldraða foreldra eða eru með börn á framfæri. En það er gleðilegt til þess að hugsa að Jehóva kann að meta allt sem við gerum í þjónustu hans. Í stað þess að vera leiður yfir því sem þú getur ekki gert skaltu vera ánægður með það sem þú hefur tök á að gera. Hugsaðu til Páls postula. Hann var fangi um árabil og gat ekki ferðast um sem trúboði. En þegar fólk heimsótti hann ræddi hann við það um Ritninguna og styrkti það í trúnni. – Post. 28:16, 30, 31.

15. Hvers vegna eru aldraðir safnaðarmenn mikils metnir?

15 Jehóva kann einnig að meta það sem aldraðir þjónar hans gera. Eins og Salómon konungur benti á hrakar heilsunni á elliárunum þannig að það er ekki besta skeið ævinnar. Jehóva kann engu að síður að meta það sem aldraðir þjónar hans gera honum til lofs. (Lúk. 21:2-4) Aldraðir þjónar Guðs eru mikils metnir í söfnuðinum vegna trúar sinnar og þolgæðis.

16. Hvaða tækifæri fékk Anna sennilega ekki en hvernig gat hún tilbeðið Guð?

16 Í Biblíunni er sagt frá konu sem hét Anna og tilbað Jehóva dyggilega fram á elliár. Hún var 84 ára ekkja þegar Jesús fæddist. Trúlega entist henni ekki aldur til að verða fylgjandi Jesú, fá smurningu heilags anda eða fá að boða fagnaðarerindið um ríkið. En Anna hafði yndi af því sem hún gat gert. „Hún vék eigi úr helgidóminum en þjónaði Guði nótt og dag.“ (Lúk. 2:36, 37) Kvölds og morgna var hún viðstödd í forgarðinum ásamt fjölda annarra þegar presturinn bar fram reykelsisfórn og hún baðst fyrir í hljóði í um hálfa klukkustund. Hún sá Jesú og „talaði um barnið við alla sem væntu lausnar Jerúsalem“. – Lúk. 2:38.

17. Hvernig getum við hugsanlega hjálpað öldruðum og veikum trúsystkinum að tilbiðja Jehóva með okkur?

17 Við ættum að vera boðin og búin að hjálpa öldruðum og veikum trúsystkinum. Sumir geta sjaldan sótt samkomur og mót þó að þeir gjarnan vildu. Sums staðar gera söfnuðirnir ráðstafanir til að þeir geti hlustað á samkomurnar í síma. Það er þó ekki mögulegt alls staðar. En þjónar Jehóva geta lagt sitt af mörkum í þjónustu Guðs þó að þeir geti ekki sótt samkomur. Þeir geta til dæmis beðið Jehóva þess að söfnuðinum farnist vel. – Lestu Sálm 92:14, 15.

18, 19. (a) Hvernig geta aldraðir vottar verið öðrum til hvatningar og uppörvunar? (b) Hverjir geta farið eftir ráðleggingunni: „Mundu eftir skapara þínum“?

18 Aldraðir vottar gera sér ef til vill ekki grein fyrir hve uppörvandi þeir eru fyrir aðra. Hugsum til Önnu. Hún þjónaði Jehóva í trúfesti árum saman í musterinu en sennilega datt henni ekki í hug að aðrir myndu sækja hvatningu í fordæmi hennar öldum síðar. Frásagan af Önnu og kærleika hennar til Jehóva er geymd í Biblíunni. Kærleikur þinn til Jehóva er geymdur í hjörtum trúsystkina þinna. Það kemur ekki á óvart að eftirfarandi skuli standa í Biblíunni: „Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana.“ – Orðskv. 16:31.

19 Okkur eru öllum takmörk sett og það er mismikið sem við getum gert í þjónustu Jehóva. En við sem enn höfum þrek og krafta til skulum gera eins og hvatt er til í Biblíunni: „Mundu eftir skapara þínum . . . áður en vondu dagarnir koma.“ – Préd. 12:1.