Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leitin að góðum leiðarvísi

Leitin að góðum leiðarvísi

Leitin að góðum leiðarvísi

ÞEGAR fólk leitar sér leiðsagnar er af mörgu að taka. Sjálfshjálparþjónusta er atvinnugrein í örum vexti. Sjálfshjálparbækur renna út eins og heitar lummur hvort sem litið er til Bretlands, Rómönsku Ameríku, Japans eða Bandaríkjanna. Myndbönd, námskeið og sjónvarpsþættir, sem fjalla um sjálfshjálp, njóta einnig vaxandi vinsælda. Hvað veldur? Ástæðan er öðru fremur sú hugmynd að maður geti sjálfur tekið á vandanum án þess að þurfa að leita aðstoðar geðlæknis, hjónabandsráðgjafa eða prests. Yfir hvaða svið ná þessir leiðarvísar?

Vinsælustu málefnin eru lífsfylling, leitin að maka og uppeldi barna. Að takast á við þunglyndi, sorg og áhrif hjónaskilnaðar eru einnig algeng viðfangsefni sjálfshjálparbóka. Og það er mikil eftirspurn eftir ráðleggingum um það hvernig hægt sé að sigra í baráttunni við ofát, reykingar og ofdrykkju. Duga þessi ráð? Stundum en alls ekki alltaf. Það er því skynsamlegt að hafa hliðsjón af viðvörun Biblíunnar þar sem segir: „Einfaldur maður trúir öllu en hygginn maður kann fótum sínum forráð.“ — Orðskviðirnir 14:15.

Sjálfshjálparbækur eru býsna ólíkar handbókum eða kennslubókum í ljósmyndun, bókhaldi eða tungumálum. Slíkar kennslubækur geta verið mun hagkvæmari kostur en sérhæfð námskeið í viðkomandi fræðum. Sjálfshjálparbækur eru annars eðlis — hvort heldur þær fjalla um viðskipti, hjónaband, barnauppeldi eða geðheilsu. Í þeim er að jafnaði mælt með ákveðnu líferni eða boðuð ákveðin lífsviðhorf. Því er viturlegt að spyrja: Hver er það sem gefur ráðin? Á hverju byggir hann þekkingu sína?

Sérfræðingar byggja ekki alltaf skoðanir sínar á vandlega ígrundum upplýsingum eða rökum. Sumir miða ráðleggingar sínar við það hvað selst best, vitandi að það er hægt að græða ósköpin öll á því að segja fólki það sem það langar til að heyra. Nefna má að í einu landi veltir sjálfshjálpariðnaðurinn heilum átta milljörðum Bandaríkjadala á ári.

Hve góðar eru sjálfshjálparbækurnar?

Þegar flett er upp í sjálfshjálparbókum ætlast fólk eðlilega til þess að finna góð og raunhæf ráð. En sumt er því miður fremur yfirborðslegt eða bara fræðilegs eðlis. Það er dæmigert að rekast á ráðleggingar af þessu tagi: ‚Þú þarft ekki annað en að hugsa jákvætt til að leysa vandann. Ef þú hugsar jákvætt færðu það sem þig vantar, hvort sem það eru peningar, heilsubót eða hamingjuríkt samband.‘ Er raunhæft að reikna með að slíkar ráðleggingar virki? Ætli þær hjálpi manni að horfast í augu við veruleika og vonbrigði lífsins?

Skoðum sem dæmi bækur um almenn samskipti og hjónaband en bækur af því tagi eru meðal þeirra vinsælustu. Hjálpa þær fólki að byggja upp hamingjusamar og traustar fjölskyldur? Ekki er það nú alltaf raunin. Í umfjöllun gagnrýnanda um sjálfshjálparbækur, sem rokseldust í Rómönsku Ameríku, segir að höfundurinn „kenni lesandanum að byggja upp heilbrigð sambönd og efla sjálfsvirðinguna“. Bækurnar fjalla um ástina. Höfundurinn heldur því fram að maður sé að vissu leyti að svíkja sjálfan sig ef maður haldi áfram í sambandi sem gengur ekki vel. Grunntónninn er sá að það sé mikilvægara að breyta þannig að manni líði sjálfum vel en að horfast í augu við vandamálin og reyna að leysa þau.

Auðvitað má stundum finna góð og gagnleg ráð í sjálfshjálparbókum. En stundum eru ráðin til tjóns. Sérfræðingur gefur kannski nytsamlegar leiðbeiningar um eitt málefni en ráð hans um annað eru ef til vill miður góð eða gera illt verra. Það er hreinlega ógerningur að kemba öll sjálfshjálparritin sem eru oft frekar mótsagnakennd. Hvaða ráðleggingum getum við þá treyst? Gott er að spyrja sig hvort vandaðar rannsóknir búi að baki þeim leiðbeiningum sem gefnar eru eða hvort höfundurinn sé bara að setja fram órökstuddar skoðanir sjálfs sín. Að hve miklu leyti lætur hann stjórnast af gróðavon eða löngun til að láta á sér bera?

Til er ein bók með leiðbeiningum sem hafa staðist tímans tönn. Það er Biblían. Í henni er að finna góð og gagnleg ráð um margt af því sem tekið er fyrir í sjálfshjálparbókunum, og meira til. Hún hefur orðið milljónum manna hvöt til að „endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni“. (Efesusbréfið 4:23, 24) Biblían varpar ljósi á orsakir þeirra erfiðleika sem við eigum við að glíma og kennir okkur að sigrast á þeim. Síðast en ekki síst færir hún skynsamleg og sterk rök fyrir því að fólk eigi að gera það sem er rétt. Við fjöllum nánar um það í greininni á eftir.