Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verðmætt biblíuhandrit endurheimt

Verðmætt biblíuhandrit endurheimt

Verðmætt biblíuhandrit endurheimt

SKRIFFÖNG lágu ekki á lausu á öldum áður. Bókfell og önnur efni voru endurnýtt með því að skafa eða þvo blekið af þeim þegar ekki voru lengur not fyrir textann. Handrit af þessu tagi eru kölluð uppskafningar. Þess voru jafnvel dæmi að biblíutextar væru skafnir af skinnhandritum til að hægt væri að nota þau aftur til að skrá aðrar upplýsingar.

Codex Ephraemi Syri er þýðingarmikið biblíuhandrit af þessu tagi. Þetta er ákaflega verðmætt handrit sökum þess að það hefur að geyma einhver elstu afrit sem til eru að hlutum Grísku ritninganna, það er að segja Nýja testamentinu. Það er því ein af bestu heimildunum um að þessi hluti Biblíunnar hafi varðveist óbrenglaður.

Biblíutextinn, sem stóð upphaflega í þessu handriti frá fimmtu öld, hafði verið skafinn af á 12. öld og í staðinn skrifuð þýðing á 38 prédikunum sýrlensks fræðimanns sem Efraem hét. Það var undir lok 17. aldar að sérfræðingar komu fyrst auga á biblíutextann sem hafði staðið upphaflega í handritinu. Á næstu árum varð mönnum nokkuð ágengt við að lesa úr frumtexta handritsins. Það reyndist þó örðugt að ráða fram úr öllum textanum vegna þess hve uppskafna blekið var dauft og ógreinilegt, mörg af blöðunum slitin og svo vegna þess að yngri textinn var skrifaður ofan í hinn eldri. Efnablanda var borin á handritið í von um að hægt væri að skýra og lesa biblíutextann en árangurinn var takmarkaður. Flestir fræðimenn álitu því að uppskafni textinn væri glataður fyrir fullt og allt.

Upp úr 1840 tók fær þýskur málvísindamaður, Konstantin von Tischendorf að nafni, að rannsaka handritið. Það tók Tischendorf tvö ár að lesa upprunalega textann. Hvernig tókst honum að afreka það sem öðrum hafði mistekist?

Tischendorf var þaulkunnugur grísku hástafaletri en það var skrifað með nokkuð stórum aðskildum upphafsstöfum. * Tischendorf hafði skarpa sjón og áttaði sig fljótt á því að hann þurfti ekki annað en að halda bókfellinu upp að ljósi til að geta lesið upprunalega textann. Núna nota fræðimenn ýmis hjálpargögn eins og innrautt, útfjólublátt og skautað ljós.

Tischendorf gaf út árið 1843 og 1845 textana úr Codex Ephraemi sem hann náði að lesa og ráða fram úr. Fyrir vikið ávann hann sér mikla virðingu sem einn helsti sérfræðingur í grísku fornletri.

Codex Ephraemi er um 30 sinnum 25 sentímetrar að stærð og er elsta dæmið um handrit með aðeins einum dálki á blaðsíðu. Í bókinni eru nú 209 blöð. Á 145 blöðum eru hlutar af öllum bókum Grísku ritninganna nema 2. Þessaloníkubréfi og 2. Jóhannesarbréfi. Á hinum blöðunum er grísk þýðing á hluta af Hebresku ritningunum.

Þetta handrit er nú geymt í Þjóðarbókasafninu í París. Ekki er vitað hvaðan handritið kom en Tischendorf taldi það vera frá Egyptalandi. Fræðimenn setja Codex Ephraemi í flokk með fjórum þýðingarmiklum hástafahandritum grísku biblíunnar. Hin eru Sínaí-, Alexandríu- og Vatíkanhandritið nr. 1209. Þau eru öll frá fjórðu og fimmtu öld.

Boðskapur Heilagrar ritningar hefur varðveist einstaklega vel í handritum af ýmsu tagi, meðal annars uppskafningum. Boðskapurinn varðveittist þó að ekki hafi allir kunnað að meta hann og reynt hafi verið að afmá hann eins og gerðist í þessu tilfelli. Það staðfestir enn betur að „orð Drottins varir að eilífu“ eins og Pétur postuli skrifaði. — 1. Pétursbréf 1:25.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Tischendorf er kunnastur fyrir að hafa fundið gríska þýðingu Hebresku ritninganna (Gamla testamentisins) í Katrínarklaustri við rætur Sínaífjalls. Þetta er ein elsta þýðingin sem fundist hefur og handritið er kallað Codex Sinaiticus.

[Skýringarmynd/mynd á blaðsíðu 26]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Handritið Codex Ephraemi Syri er merkur uppskafningur sem Tischendorf (1815-1874) tókst að lesa úr.

UPPRUNALEGUR BIBLÍUTEXTI

GRÍSKAR PRÉDIKANIR VORU SKRIFAÐAR YFIR BIBLÍUTEXTANN

[Credit line]

© Bibliothèque nationale de France

[Mynd á blaðsíðu 27]

Codex Sinaiticus sem fannst í Katrínarklaustri.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Tischendorf.