Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Þótt ég sé veik hef ég innri styrk

Þótt ég sé veik hef ég innri styrk

Við fyrstu sýn dettur engum í hug að ég sé sterk. Ég er aðeins 29 kíló og sit í hjólastól. En þótt veikindin dragi úr mér mátt heldur innri styrkur mér gangandi. Mig langar til að segja ykkur frá því hvernig ég hef öðlast innri styrk þótt ég glími við mikil veikindi.

Mynd af mér fjögurra ára.

Þegar ég leiði hugann að æskuárunum rifjast upp fyrir mér ánægjulegar stundir á heimili okkar í sveitinni í Suður-Frakklandi. Faðir minn smíðaði handa mér rólu og ég naut þess að hlaupa um í garðinum. Árið 1966 bönkuðu vottar Jehóva upp á hjá okkur og faðir minn spjallaði oft og lengi við þá. Aðeins sjö mánuðum síðar ákvað hann að verða vottur og ekki leið á löngu þar til móðir mín fór að dæmi hans. Ég naut mikillar hlýju og ástúðar á uppvaxtarárum mínum.

Ég veiktist stuttu eftir að við fluttum aftur til Spánar, en þaðan eru foreldrar mínir. Ég fór að finna fyrir nístandi sársauka í höndum og ökklum. Við leituðum til margra lækna og eftir um það bil tvö ár höfðum við uppi á þekktum gigtarlækni. „Það er lítið hægt að gera,“ sagði hann alvarlegur í bragði. Móðir mín fór að gráta. Framandi orð eins og „ólæknandi sjálfsofnæmissjúkdómur“ og „fjölliðagigt barna“ * bergmáluðu um allt í gráu og kuldalegu herberginu. Þótt ég væri aðeins tíu ára og hefði takmarkaðan skilning á því sem var að gerast, áttaði ég mig samt á að fregnirnar væru slæmar.

Læknirinn mælti með að ég yrði lögð inn á barnaspítala. Þegar þangað var komið greip mig mikill ótti því að við mér blasti fráhrindandi og kuldaleg bygging. Þarna var beitt hörðum aga. Nunnurnar klipptu á mér hárið og klæddu mig í gamaldags föt. Ég sagði við sjálfa mig með tárin í augunum: ,Mig langar ekki að vera hérna. Ég vil fara heim.‘

JEHÓVA VERÐUR MÉR RAUNVERULEGUR

Foreldrar mínir höfðu kennt mér að þjóna Jehóva og þess vegna vildi ég ekki fylgja kaþólsku trúarsiðunum sem tíðkuðust á spítalanum. Nunnurnar áttu erfitt með að skilja af hverju ég vildi ekki taka þátt í þessum trúarsiðum. Ég sárbændi Jehóva um að yfirgefa mig ekki og fljótlega fann ég fyrir styrkri hendi hans. Mér leið eins og kærleiksríkur faðir faðmaði mig hlýlega að sér. Mér fannst ég vera óhult og örugg.

Foreldrar mínir fengu að koma í stuttar heimsóknir á laugardögum. Þau komu með biblíutengt lesefni svo að ég gæti styrkt trú mína. Börnin máttu yfirleitt ekki hafa bækurnar sínar hjá sér. Nunnurnar leyfðu mér þó að hafa þessi rit og biblíuna mína og ég las í henni á hverjum degi. Ég sagði líka hinum stúlkunum frá þeirri von minni að lifa að eilífu í paradís á jörð þar sem enginn yrði veikur. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Þótt ég væri stundum einmana og sorgmædd var ég ánægð með að trú mín á Jehóva styrktist og ég treysti honum betur og betur.

Eftir hálfs árs dvöl á spítalanum, sem virtist heil eilífð, sendu læknarnir mig heim. Heilsan hafði ekki skánað en ég var alsæl yfir því að vera komin heim til foreldra minna. Liðbólgurnar versnuðu og ég fann meira til en áður. Ég var orðin afar veikburða þegar ég komst á unglingsárin. Þegar ég var 14 ára lét ég samt skírast og var ákveðin í að þjóna himneskum föður mínum sem best ég gat. En stundum fannst mér hann hafa brugðist mér. Ég ákallaði hann í bæn og spurði: „Af hverju ég? Ég bið þig að lækna mig! Sérðu ekki hvað ég þjáist mikið?“

Unglingsárin voru erfið. Ég þurfti að sætta mig við að mér myndi ekki batna. Vinir mínir voru heilsuhraustir og nutu lífsins og ég gat ekki annað en borið mig saman við þá. Ég varð óörugg og óánægð með sjálfa mig og dró mig inn í skel. Fjölskylda mín og vinir sýndu mér samt mikinn stuðning. Þegar ég minnist vinkonu minnar Aliciu hlýnar mér um hjartaræturnar. Hún reyndist vera sönn vinkona þótt hún væri 20 árum eldri en ég. Hún hjálpaði mér að einblína ekki á veikindin. Hún hvatti mig til að sýna öðrum áhuga í stað þess að sökkva mér niður í mín eigin vandamál.

LÖNGUN MÍN Í LÍFSFYLLINGU

Þegar ég var 18 ára hrakaði heilsu minni stórlega, og það eitt að sækja safnaðarsamkomur var þrekraun fyrir mig. Heima nýtti ég samt allan frítíma minn í ítarlegt biblíunám. Af lestri mínum í Jobsbók og Sálmunum skildi ég að Jehóva Guð verndar okkur ekki alltaf gegn því sem skaðar okkur líkamlega, en hann gefur okkur þá hughreystingu sem við þurfum. Ég fann hvernig „krafturinn mikli“ og „friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi“ færðist yfir mig þegar ég bað oft og innilega til hans. – 2. Korintubréf 4:7; Filippíbréfið 4:6, 7.

Ég var aðeins 22 ára þegar ég þurfti að sætta mig við að vera bundin við hjólastól. Ég óttaðist að fólk myndi hætta að taka eftir mér og sæi bara veikburða konu í hjólastól. Hjólastóllinn gerði mér þó mögulegt að endurheimta eitthvað af sjálfstæði mínu. Það sem hafði valdið mér miklum kvíða reyndist því vera til góðs. Einn mánuðinn stakk Isabel, vinkona mín, upp á að ég setti mér það markmið að fara 60 klukkutíma í boðunarstarfið með henni.

Í fyrstu fannst mér uppástungan fáránleg. En ég bað Jehóva að hjálpa mér og með stuðningi fjölskyldu og vina tókst mér að ná markmiðinu. Þessi annasami mánuður var fljótur að líða og ég sigraðist á kvíðanum og minnimáttarkenndinni. Mér fannst þetta svo gaman að ég ákvað að gerast reglulegur brautryðjandi árið 1996 og verja 90 klukkustundum í að boða fagnaðarerindið í hverjum mánuði. Þetta var ein besta ákvörðun sem ég hef tekið á ævinni. Samband mitt við Jehóva Guð styrktist og ég fann meira að segja að ég styrktist líkamlega. Brautryðjandastarfið gaf mér tækifæri til að boða mörgum fagnaðarerindið og hjálpa sumum þeirra að verða vinir Guðs.

JEHÓVA HELDUR ÁFRAM AÐ STYÐJA MIG

Sumarið 2001 lenti ég í hræðilegu bílslysi og beinbrotnaði á báðum fótum. Þar sem ég lá á spítalanum, viðþolslaus af kvölum, fór ég með hljóða og innilega bæn til Jehóva og sagði: „Jehóva, ég bið þig, ekki yfirgefa mig!“ Í því spurði konan í næsta rúmi: „Ert þú ekki vottur Jehóva?“ Ég var of máttfarin til að svara henni, þannig að ég kinkaði bara kolli. Þá sagði hún: „Mér datt það í hug því að ég þekki nokkra votta. Ég les yfirleitt blöðin ykkar.“ Þetta gaf mér mikla uppörvun. Þótt ég væri skelfilega á mig komin gat ég vitnað um Jehóva. Hvílíkur heiður!

Þegar mér fór að líða aðeins betur ákvað ég að vitna fyrir fleirum. Ég sat í hjólastólnum með báða fætur í gifsi og móðir mín keyrði mig um spítaladeildina. Á hverjum degi kíktum við á nokkra sjúklinga, spurðum um líðan þeirra og gáfum þeim biblíutengt lesefni. Ég var alveg uppgefin eftir þessar heimsóknir en Jehóva gaf mér þann styrk sem ég þurfti á að halda.

Með foreldrum mínum árið 2003.

Á undanförnum árum hafa verkirnir aukist. Það var mér líka þung raun að missa föður minn í dauðann. Ég reyni samt að vera jákvæð. Hvernig? Ég reyni að vera með vinum mínum og fjölskyldu þegar ég get og það hjálpar mér að dreifa huganum. En þegar ég er ein les ég, stunda biblíunám eða boða öðrum trúna í síma.

Oft á tíðum halla ég mér aftur og loka augunum og ímynda mér að ég sé stödd í nýja heiminum sem Guð hefur lofað.

Ég reyni líka að njóta ánægjunnar af því einfalda í lífinu, eins og að finna ilminn af blómum eða hlýja golu strjúka mér um vangann. Þetta fyllir mig þakklæti. Gott skopskyn hefur líka mikið að segja. Eitt sinn vorum við vinkona mín í boðunarstarfinu. Hún keyrði mig um í hjólastólnum en svo stoppaði hún til að skrifa hjá sér minnispunkta. Þá tók hjólastóllinn skyndilega á rás niður brekkuna og rann stjórnlaust þar til ég lenti á kyrrstæðum bíl. Okkur var báðum mjög brugðið en þegar við gerðum okkur grein fyrir að ekkert alvarlegt hafði gerst hlógum við dátt.

Það er vissulega margt sem ég get ekki gert vegna aðstæðna minna. En það sem ég er ekki fær um að gera núna, set ég á óskalistann minn. Oft á tíðum halla ég mér aftur og loka augunum og ímynda mér að ég sé stödd í nýja heiminum sem Guð hefur lofað. (2. Pétursbréf 3:13) Þar er ég hraust og get gengið um og notið þess til fulls að vera til. Ég hugsa oft um það sem Davíð konungur sagði: „Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur.“ (Sálmur 27:14) Veikindin draga stöðugt úr mér mátt en með hjálp Jehóva get ég verið sterk. Ég hef innri styrk þótt ég sé veik.

^ gr. 6 Fjölliðagigt barna er þrálátur gigtarsjúkdómur. Ónæmiskerfi líkamans ræðst á heilbrigða vefi og brýtur þá niður. Þar af leiðandi fá sjúklingar verki og bólgur í liðamót.