Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | ÁNÆGJA OG GLEÐI Í STARFI

Að hafa ánægju af erfiðisvinnu

Að hafa ánægju af erfiðisvinnu

„Að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.“ (Prédikarinn 3:13) Fyrst Guð vill að við höfum ánægju af vinnu okkar er þá ekki rökrétt að ætla að hann segi okkur hvernig það sé hægt? (Jesaja 48:17) Reyndar segir hann okkur það í orði sínu, Biblíunni. Veltu fyrir þér eftirfarandi ráðum Biblíunnar og hvernig þau geta hjálpað þér að hafa ánægju af vinnu þinni.

TEMDU ÞÉR JÁKVÆTT VIÐHORF TIL VINNU

Hvort heldur vinnan reynir á hugann eða líkamann, eða hvort tveggja, skaltu muna að „allt erfiði færir ágóða“. (Orðskviðirnir 14:23) Hvers konar ágóða? Jú, ef við erum vinnusöm er líklegra að okkur takist að annast efnislegar þarfir okkar. Guð lofar reyndar að sjá öllum, sem tilbiðja hann í einlægni, fyrir því sem þeir þurfa. (Matteus 6:31, 32) En hann væntir þess líka að við gerum okkar besta til að sjá fyrir okkur á heiðarlegan hátt. – 2. Þessaloníkubréf 3:10.

Við getum því litið svo á að vinnan þjóni mikilvægum tilgangi. Hún gerir okkur kleift að axla ábyrgð okkar. „Það er ákveðið afrek að geta séð fyrir sér sjálfur,“ segir Joshua sem er 25 ára. „Ef maður getur borgað fyrir það sem maður þarfnast er markmiðinu með vinnunni náð.“

Ef við leggjum hart að okkur við vinnu stuðlar það líka að sjálfsvirðingu því að erfið vinna útheimtir mikla þrautseigju. Þegar við beitum okkur sjálfsaga með því að gefast ekki upp á vinnunni, jafnvel þótt hún virðist leiðinleg eða erfið, veitir það okkur ánægju að vita að við hvikuðum ekki frá góðu vinnusiðferði. Við höfum staðist þá tilhneigingu að fara einfaldlega þægilegustu leiðina. (Orðskviðirnir 26:14) Vinnan getur þannig vakið hjá manni djúpstæða ánægjukennd. „Þegar ég hef lagt hart að mér allan daginn í vinnunni líður mér ótrúlega vel,“ segir Aaron sem vitnað var í í greininni á undan. „Þótt ég sé útkeyrður og enginn hafi tekið neitt sérstaklega eftir því sem ég gerði í vinnunni þá veit ég að ég hef skilað af mér góðu dagsverki.“

LEGGÐU ÞIG FRAM Í VINNUNNI

Biblían fer fögrum orðum um þann mann sem er ,vel fær í verki sínu‘ og um þá konu sem „vinnur fúslega með höndum sínum“. (Orðskviðirnir 22:29; 31:13) Auðvitað verður enginn maður fær í verki sínu án þess að leggja eitthvað á sig og fáir njóta þess að vinna við eitthvað sem þeir hafa ekki náð tökum á. Ástæðan fyrir því að margir hafa ekki ánægju af vinnu sinni gæti því verið sú að þeir hafa einfaldlega ekki lagt sig nógu mikið fram við að ná tökum á henni.

Sannleikurinn er sá að við getum lært að hafa ánægju af næstum hvaða vinnu sem er ef við temjum okkur rétt hugarfar, það er að segja einbeitum okkur að því að læra að gera vinnuna okkar vel. „Það gefur manni mikla ánægju þegar maður leggur sig allan fram við eitthvert verkefni og sér síðan árangurinn af því,“ segir William sem er 24 ára. „Maður upplifir ekki þessa ánægju þegar maður reynir að stytta sér leið eða gera eins lítið og maður kemst upp með.“

HAFÐU Í HUGA HVERNIG AÐRIR NJÓTA GÓÐS AF VINNU ÞINNI

Varastu að hugsa eingöngu um það hversu mikið kaup þú færð fyrir vinnuna. Spyrðu þig frekar spurninga í þessum dúr: Hvers vegna er þessi vinna nauðsynleg? Hvað myndi gerast ef þessi vinna væri ekki innt af hendi eða verkið væri ekki unnið á réttan hátt? Hvernig njóta aðrir góðs af vinnunni minni?

Það er gott að velta síðustu spurningunni sérstaklega fyrir sér vegna þess að vinnan gefur manni mesta ánægju þegar maður sér hvernig aðrir njóta góðs af henni. Jesús sagði: „Sælla er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Fyrir utan þá sem njóta augljóslega góðs af vinnuframlagi okkar, eins og viðskiptavinir og vinnuveitendur, er vinnusemi okkar líka öðrum til góðs, þar á meðal fjölskyldu okkar og þeim sem eru verr settir en við.

Fjölskylda okkar. Þegar sá sem hefur fyrir fjölskyldu að sjá vinnur hörðum höndum til að framfleyta henni er það fjölskyldu hans til góðs á að minnsta kosti tvo vegu. Í fyrsta lagi sér hann til þess að efnislegum þörfum fjölskyldunnar sé fullnægt – að hún hafi fæði, klæði og húsnæði. Þannig uppfyllir hann þá kröfu Guðs að ,sjá fyrir skylduliði sínu‘. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Og í öðru lagi, með því að sjá til þess að fjölskyldan hafi það sem hún þarf kennir hann öðrum í fjölskyldunni mikilvægi þess að vera iðjusamur. „Faðir minn er mér frábært fordæmi því að hann hefur gott vinnusiðferði,“ segir Shane sem vitnað var í í greininni á undan. „Hann er heiðarlegur maður og hefur unnið hörðum höndum alla sína ævi, aðallega sem smiður. Ég hef lært af honum gildi þess að vinna með höndunum og búa til hluti sem nýtast öðrum.“

Þeir sem eru verr settir en við. Páll postuli hvetur kristna menn til að ,leggja hart að sér svo að þeir hafi eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er‘. (Efesusbréfið 4:28) Þegar við leggjum hart að okkur við að framfleyta sjálfum okkur og fjölskyldunni getum við kannski líka hjálpað þeim sem búa við verri kost en við. (Orðskviðirnir 3:27) Iðjusemi getur þannig gert okkur kleift að kynnast gleðinni sem fylgir því að gefa öðrum.

GERÐU MEIRA EN ÆTLAST ER TIL

Í fjallræðunni frægu sagði Jesús: „Neyði einhver þig með sér eina mílu þá far með honum tvær.“ (Matteus 5:41) Hvernig geturðu farið eftir þessari meginreglu í vinnunni þinni? Í stað þess að leggja eins lítið á þig og þú kemst upp með skaltu leita leiða til að gera meira en ætlast er til af þér. Settu þér markmið. Prófaðu til dæmis að vinna betur eða hraðar en farið er fram á. Leggðu metnað þinn í að gera vinnunni góð skil, líka því sem virðist skipta litlu máli.

Þegar þú gerir meira en ætlast er til eru meiri líkur á að þú hafir ánægju af vinnunni. Af hverju? Af því að þá ert það þú sem stjórnar því hvað þú gerir. Þú leggur meira af mörkum af því að þig langar til þess en ekki af því að einhver annar segir þér að gera það. (Fílemonsbréfið 14) Þetta minnir okkur kannski á meginregluna í Orðskviðunum 12:24: „Hönd hinna iðnu mun drottna en hangandi hönd á erfiði í vændum.“ Fæst okkar eiga kannski það erfiði í vændum að verða hneppt í þrældóm eða nauðungarvinnu. Þeim sem hefur aftur á móti vanið sig á að gera eins lítið og hann kemst upp með finnst vinnan sín ef til vill vera hálfgerður þrældómur og finnst kröfur annarra liggja stöðugt á sér eins og byrði. Sá sem gerir hins vegar meira en ætlast er til af honum – og gerir það af því að hann ákveður að gera það – finnst hann hafa betri tök á lífi sínu. Hann stjórnar sjálfur hvað hann gerir.

LÁTTU VINNUNA EKKI GLEYPA ÞIG

Að vinna erfiða vinnu er aðdáunarvert en við verðum þó að muna að lífið er meira en bara vinna. Biblían hvetur okkur reyndar til að vera iðjusöm. (Orðskviðirnir 13:4) En hún hvetur okkur þó ekki til að verða vinnufíklar. Í Prédikaranum 4:6 segir: „Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.“ Hver er lærdómurinn? Það er harla ólíklegt að vinnufíkill geti notið afraksturs erfiðis síns ef allur tími hans og orka fer í vinnuna. Þá er hætt við að öll vinnan, sem hann leggur á sig, verði ekkert annað en „eftirsókn eftir vindi“.

Biblían getur hjálpað okkur að temja okkur rétt viðhorf til vinnu. Jafnvel þótt Biblían hvetji okkur til þess að leggja okkur fram við vinnuna segir hún einnig: „Metið þá hluti rétt sem máli skipta.“ (Filippíbréfið 1:10) Hvaða hlutir eru það sem skipta máli? Til dæmis það að verja tíma með fjölskyldu og vinum. En það sem skiptir jafnvel enn meira máli er að byggja upp gott samband við Guð með því að lesa í orði hans, Biblíunni, og hugleiða síðan það sem maður les.

Þeir sem gæta þess að hafa jafnvægi milli vinnu og einkalífs eru líklegri til að hafa enn meiri ánægju af vinnu sinni. „Ég vann einu sinni fyrir mann sem er hörkuduglegur en hann lætur vinnuna samt ekki gleypa sig,“ segir William sem vitnað var í fyrr í greininni. „Hann leggur alltaf hart að sér og viðskiptavinir hans eru hæstánægðir með það sem hann gerir. En í lok vinnudagsins tekur hann vinnuna ekki með sér heim heldur einbeitir sér að fjölskyldu sinni og því að styrkja vináttuna við Guð. Ég þekki fáa sem eru jafn hamingjusamir og hann!“