Hoppa beint í efnið

Hver var Jóhannes skírari?

Hver var Jóhannes skírari?

Svar Biblíunnar

 Jóhannes skírari var spámaður Guðs. (Lúkas 1:76) Hann fæddist undir lok fyrstu aldar f.Kr. og lifði fram á fyrstu öld e.Kr. Guð fól honum að undirbúa veginn fyrir Messías, eða Krist. Jóhannes gerði það með því að flytja öðrum Gyðingum boðskap Guðs til að þeir sneru sér aftur til Guðs. – Markús 1:1–4; Lúkas 1:13, 16, 17.

 Boðskapur Jóhannesar hjálpaði einlægu fólki að skilja að Jesús frá Nasaret væri hinn fyrirheitni Messías. (Matteus 11:10) Jóhannes hvatti fólk til að iðrast synda sinna og láta skírast til tákns um iðrun. (Lúkas 3:3–6) Jóhannes er kallaður skírari vegna þess að hann skírði marga. Mikilvægasta skírnin sem hann framkvæmdi var skírn Jesú. aMarkús 1:9.

Í þessari grein

 Hvað var einstakt við Jóhannes skírara?

 Spáð var fyrir um starf hans: Með boðun sinni uppfyllti Jóhannes spádóm um sendiboða Jehóva. (Malakí 3:1; Matteus 3:1–3) Hann reyndist vera sá sem ‚undirbjó fólk svo að það væri tilbúið að þjóna Jehóva‘. Með öðrum orðum undirbjó hann aðra Gyðinga til að taka á móti boðskap fremsta fulltrúa Jehóva Guðs, Jesú Krists. – Lúkas 1:17.

 Arfleið: Jesús sagði: „Enginn sem er fæddur af konu er meiri en Jóhannes skírari en hinn minnsti í himnaríki er meiri en hann.“ (Matteus 11:11) Enginn þjónn Guðs fyrir daga Jóhannesar gat talist meiri en hann þar sem hann var ekki aðeins spámaður heldur „sendiboði“ eins og spáð hafði verið. Það er ljóst af því sem Jesús sagði að Jóhannes verður ekki á himnum í ríki Guðs. b Þessi trúfasti spámaður dó áður en Kristur opnaði fólki leið til að hljóta líf á himnum. (Hebreabréfið 10:19, 20) Jóhannes verður hins vegar þegn Guðsríkis á jörð og hefur möguleika á að lifa að eilífu. – Sálmur 37:29; Lúkas 23:43.

 Hverjir voru foreldrar Jóhannesar skírara?

 Foreldrar Jóhannesar voru hjónin Sakaría og Elísabet. Sakaría var gyðingaprestur. Fæðing Jóhannesar var fyrir kraftaverk þar sem móðir hans gat ekki eignast börn. Þau hjónin voru auk þess „bæði orðin gömul“. – Lúkas 1:5–7, 13.

 Hver var valdur að dauða Jóhannesar skírara?

 Heródes Antípas konungur lét taka Jóhannes af lífi. Hann gerði það að undirlagi Heródíasar konu sinnar. Hún hataði Jóhannes vegna þess að hann sagði Heródesi, sem var að nafni til Gyðingur, að hjónaband þeirra Heródíasar væri ólöglegt samkvæmt lögum Gyðinga. – Matteus 14:1–12; Markús 6:16–19.

 Voru Jóhannes skírari og Jesús keppinautar?

 Það á sér alls enga stoð í Biblíunni að þeir hafi verið keppinautar. (Jóhannes 3:25–30) Jóhannes staðfesti opinberlega að það væri sitt hlutverk að undirbúa veginn fyrir Messías, ekki keppa við hann. Hann sagði: „Ég skíri í vatni … til þess að sýna Ísrael hver hann er.“ Hann bætti við: „Hann er sonur Guðs.“ (Jóhannes 1:26–34) Jóhannes var mjög ánægður að heyra að þjónusta Jesú bar árangur.

a Jesús „syndgaði aldrei“. (1. Pétursbréf 2:21, 22) Hann þurfti ekki að iðrast. Hann skírðist ekki til að sýna iðrun heldur til að sýna að hann byði sig fram til að gera vilja Guðs. Það fæli meðal annars í sér að gefa líf sitt fyrir okkur. – Hebreabréfið 10:7–10.

b Sjá greinina „Hverjir fara til himna?