Hvað er stríðið við Harmagedón?
Svar Biblíunnar
Stríðið við Harmagedón er lokastríðið milli ríkisstjórna manna og Guðs. Þessar ríkisstjórnir og þeir sem styðja þær standa nú þegar gegn Guði með því að neita að viðurkenna stjórn hans. (Sálmur 2:2) Stríðið við Harmagedón mun binda enda á stjórnir manna. – Daníel 2:44.
Orðið „Harmagedón“ kemur aðeins einu sinni fyrir í Biblíunni, í Opinberunarbókinni 16:16. Opinberunarbókin segir í spádómlegum skilningi að ,konungum allrar heimsbyggðarinnar verði safnað saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins almáttuga‘ „á staðinn sem á hebresku kallast Harmagedón“. – Opinberunarbókin 16:14.
Hverjir munu berjast við Harmagedón? Jesús Kristur mun leiða himneskan her til sigurs yfir óvinum Guðs. (Opinberunarbókin 19:11–16, 19–21) Á meðal þessara óvina eru þeir sem standa gegn yfirráðum Guðs og þeir sem vanvirða hann. – Esekíel 39:7.
Verður Harmagedónstríðið háð í Mið-Austurlöndum? Nei. Harmagedónstríðið mun hafa áhrif um alla jörðina, ekki bara á takmörkuðu svæði. – Jeremía 25:32–34; Esekíel 39:17–20.
Harmagedón eða ,Har-Magedón‘ (á hebresku Har Meghiddohnʹ) merkir ,Megiddófjall‘. Megiddó var eitt sinn borg í Ísrael til forna. Sagan segir að úrslitaorrustur hafi verið háðar á þessum slóðum, þar á meðal nokkrar sem Biblían greinir frá. (Dómarabókin 5:19, 20; 2. Konungabók 9:27; 23:29) Harmagedón getur samt ekki bókstaflega átt við svæðið nálægt Megiddó til forna. Þar er ekkert hátt fjall og jafnvel öll aðliggjandi Jesreelslétta rúmar ekki alla þá sem munu berjast gegn Guði. Harmagedón er þær aðstæður þegar þjóðir um allan heim safnast saman í hinsta sinn gegn stjórn Guðs.
Hvernig verða aðstæður í Harmagedónstríðinu? Við vitum ekki hvernig Guð notar mátt sinn en hann hefur yfir að ráða vopnum eins og þeim sem hann hefur notað fyrr á tímum – hagl, jarðskjálfta, steypiregn, eld og brennistein, eldingar og sjúkdóma. (Jobsbók 38:22, 23; Esekíel 38:19, 22; Habakkuk 3:10, 11; Sakaría 14:12) Í skelfingunni sem ræður þá ríkjum munu sumir óvinir Guðs drepa hver annan en þeir munu að lokum skilja að það er Guð sem berst gegn þeim. – Esekíel 38:21, 23; Sakaría 14:13.
Merkir Harmagedón það sama og heimsendir? Harmagedón þýðir ekki endalok jarðarinnar því að hún er heimili mannkynsins að eilífu. (Sálmur 37:29; 96:10; Prédikarinn 1:4) Harmagedón bjargar mannkyninu en eyðir því ekki því ,mikill múgur‘ þjóna Guðs lifir af. – Opinberunarbókin 7:9, 14; Sálmur 37:34.
Orðið „heimur“ í Biblíunni merkir ekki bara jörðina sjálfa heldur stundum illt samfélag manna sem stendur á móti Guði. (1. Jóhannesarbréf 2:15–17) Í þeim skilningi er Harmagedón ,endalok veraldar‘. – Matteus 24:3, Biblían 1981.
Hvenær hefst Harmagedónstríðið? Þegar Jesús talaði um ,mikla þrengingu‘ sem nær hámarki í Harmagedónstríðinu sagði hann: „Enginn veit þann dag og stund, hvorki englarnir á himnum né sonurinn heldur aðeins faðirinn.“ (Matteus 24:21, 36) Biblían segir hins vegar að Harmagedónstríðið hefjist meðan á ósýnilegri nærveru Jesú stendur en hún hófst árið 1914.– Matteus 24:37–39.