Hvað er Tóran?
Svar Biblíunnar
Tóra er umritun af hebreska orðinu toh·rahʹ og merkir leiðbeiningar, kennsla eða lög. a (Orðskviðirnir 1:8; 3:1; 28:4) Eftirfarandi dæmi sýna hvernig orðið er notað í Biblíunni.
Toh·rahʹ er oft vísun í fimm fyrstu bækur Biblíunnar – 1. til 5. Mósebókar. Þær eru líka nefndar „Fimmbókaritið“ frá grísku orði sem merkir „rit í fimm bindum.“ Tóran var rituð af Móse og er þess vegna kölluð „lögbók Móse“ eða „lögmál Móse“. (Jósúabók 8:31; Nehemíabók 8:1) Hún var upprunalega ein bók en var síðan skipt til að auðvelda mönnum að fletta í henni.
Toh·rahʹ er einnig notað um lög sem Ísraelsþjóðin fékk um ákveðin mál eins og til dæmis „lögin (toh·rahʹ) um syndafórnina“, „lög um holdsveiki“ og „lög um nasírea“. – 3. Mósebók 6:25; 14:57; 4. Mósebók 6:13.
Toh·rahʹ er stundum vísun í leiðbeiningar og kennslu frá foreldrum, skynsömu fólki eða frá Guði sjálfum. – Orðskviðirnir 1:8; 3:1; 13:14; Jesaja 2:3.
Það sem Tóran eða Fimmbókaritið hefur að geyma
Frásaga af samskiptum Guðs við mennina frá sköpun þeirra til dauða Móse. – 1. Mósebók 1:27, 28; 5. Mósebók 34:5
Ákvæði Móselaganna. (2. Mósebók 24:3) Lögmálið inniheldur yfir 600 lagaboð. Shema er eitt þeirra sem hefur sérstakan sess en það er trúarjátning Gyðinga. Í Shema segir meðal annars: „Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.“ (5. Mósebók 6:4-9) Jesús kallaði það „hið æðsta og fremsta boðorð.“ – Matt 22:36-38.
Nafn Guðs, Jehóva, kemur fyrir um 1.800 sinnum. Tóran bannar ekki að nota nafn Guðs heldur boðar fólki þvert á móti að segja það upphátt. – 4. Mósebók 6:22-27; 5. Mósebók 6:13; 10:8; 21:5.
Ranghugmyndir um Tóruna
Ranghugmynd: Lagaboð Tórunnar eru ævarandi og á aldrei að fella úr gildi.
Staðreynd: Sumir biblíuþýðendur nota að vísu orðalag eins og „ævarandi“ eða „um aldur og ævi“ í tengslum við ákveðin lagaboð Tórunnar, eins og til dæmis ákvæðin um hvíldardaginn, prestdóminn og friðþægingardaginn. (2. Mósebók 31:16; 40:15; 3. Mósebók 16:33, 34) En hebreska orðið, sem er notað í þessum versum, getur einnig vísað til ótiltekins tímabils, sem er ekki endilega eilíft. b Þegar Móselögin höfðu verið í gildi í um 900 ár sagði Jehóva að hann myndi láta „nýjan sáttmála“ koma í stað þeirra. (Jeremía 31:31-33) ,Þar sem Guð nú kallar þetta nýjan sáttmála þá hefur hann lýst hinn fyrri úreltan.‘ (Hebreabréfið 8:7-13) Á grundvelli dauða Jesú Krists var Móselögmálið leyst af hólmi fyrir um 2.000 árum. – Efesusbréfið 2:15
Ranghugmynd: Munnlegar erfikenningar Gyðinga og Talmúðinn hafa jafn mikið vægi og Tóran sem var færð í letur.
Staðreynd: Engin biblíuleg rök eru fyrir því að Guð hafi gefið Móse munnleg lög auk rituðu laganna, Tórunnar. Þess í stað segir Biblían: „Drottinn sagði við Móse: „Skráðu þessi fyrirmæli.“ (2. Mósebók 34:27) Munnleg lög, sem voru síðar meir færð í letur og þekkt sem Mishna, urðu víðtækari og hluti af Talmúðinum. Lögin innihalda erfðavenjur Gyðinga sem áttu upphaf sitt hjá Faríseum. Erfðavenjurnar stangast oft á við Tóruna. Þess vegna sagði Jesús: „Þið ógildið orð Guðs með erfikenningu ykkar.“ – Matteus 15:1-9.
Ranghugmynd: Konur ættu ekki að fá kennslu um Tóruna.
Staðreynd: Móselögin kváðu á um að öll lögin skyldu lesin fyrir alla þjóðina, líka konur og börn. Hvers vegna? „Til þess að þeir hlusti á þau og læri þau, óttist Drottin, Guð ykkar, og gæti þess að framfylgja öllum ákvæðum þessara laga.“ – 5. Mósebók 31:10-12. c
Ranghugmynd: Tóran inniheldur dulin skilaboð.
Staðreynd: Móse, ritari Tórunnar, sagði að boðskapur hennar væri skýr og aðgengilegur en ekki settur fram á dulmáli. (5. Mósebók 30:11-14) Sú kenning að Tóran innihaldi dulin skilaboð á sér upphaf í Kabbala, dulhyggjuritum Gyðinga. Í Kabbala endurspeglast túlkun á ritningunni af ,uppspunnum skröksögum‘. d – 2. Pétursbréf 1:16.
a Sjá endurskoðaða útgáfu af The Strongest Strong’s Exhaustive Concordance of the Bible, uppsláttarorð 8451 undir „Hebrew-Aramaic Dictionary-Index to the Old Testament.“
b Sjá Theological Wordbook of the Old Testament, 2. bindi, bls. 672, 673.
c Samkvæmt hefð Gyðinga fengu konur ekki alltaf að læra um Tóruna en það var andstætt því sem Tóran sjálf segir. Til dæmis vitnar Mishna í rabbínann Elíeser ben Hyrcanus sem sagði: „Sá sem kennir dóttur sínni um Tóruna gæti alveg eins kennt henni dónaskap.“ (Sotah 3:4) Jerúsalem Talmúðinn bætir þessum orðum hans við: „Frekar ættu orð Tórunnar að verða eldi að bráð en sögð konum.“ – Sotah 3:19a.
d Í Encyclopaedia Judaica er lýst viðhorfi Kabbala til Tórunnar: „Tóran segir ekki skýrt til um neitt en setur samt fram margar skoðanir um marga hluti.“ – Önnur útgáfa, 11. bindi, bls. 659.