Hoppa beint í efnið

„Konur eiga erindi í byggingarvinnu“

„Konur eiga erindi í byggingarvinnu“

Virtur byggingarverktaki í Bretlandi hrósar Vottum Jehóva fyrir að þjálfa konur í meðferð stórra vinnuvéla á framkvæmdasvæði nýju deildarskrifstofu vottanna nálægt Chelsford í Essex. Samtökin The Considerate Constructors Scheme a (CCS) gáfu Vottum Jehóva hæstu einkunn, 10 af 10 mögulegum, fyrir að veita konum verkþjálfun í byggingariðnaði og sögðu vottana vera frumkvöðla á þessu sviði. Hvers vegna fá þeir svona háa einkunn?

Í Bretlandi er minna en 13 prósent þeirra sem vinna við byggingarstörf konur. Samkvæmt könnun sem breskt fyrirtæki gerði geta fáar ungar konur hugsað sér að vinna í byggingariðnaði. Aftur á móti eru um 40 prósent vinnuaflsins á framkvæmdasvæðinu í Chelmsford konur. Talan fer yfir 60 prósent í teyminu sem stjórnar þungavinnuvélum.

Konur vinna við hlið karla í Chelmsford

Hvers vegna gengur þessum konum svona vel? Þjálfun og stuðningur hafa mikið að segja. CCS byggir líka starfsreglur sínar á þessum tveimur atriðum. Í starfsreglunum eru byggingarverktakar hvattir til að sýna að þeir meti starfsfólkið með því að „skapa vinnuumhverfi þar sem öllum er sýnd virðing og sanngirni og allir fá hvatningu og stuðning“ auk þess sem „áhersla er lögð á þjálfun“.

Konum kennt að stjórna þungavinnuvélum

Ein kvennanna sem fékk þjálfun í að stjórna skurðgröfu og vörubíl á vinnusvæðinu heitir Jade. Hún segir: „Þetta er ótrúlegt. Það hvarflaði ekki að mér að ég gæti þetta. Vinnan getur stundum verið krefjandi en ég fæ þjálfun jafnt og þétt og læri ýmislegt nýtt.“ Lucy stjórnar nú þungavinnuvélum eins og Jade. Hún segir: „Þegar ég kom hingað fyrst fannst mér ég ekki hafa neina fagkunnáttu sem kæmi að gagni. En ég hef fengið þjálfun alveg frá fyrsta degi. Síðan hef ég unnið með fimm mismunandi teymum og lært heilmikið.“

Þjálfun í notkun skotbómulyftara

Fagkunnátta kvennanna í teyminu er ekki bara bundin við að stjórna vélunum. „Konur hugsa oft betur um vélarnar en karlar og eru fljótar að átta sig á ef eitthvað er að vélunum og tilkynna það.“ Segir Eric sem er verkstjóri.

Stuðningur við konur í byggingariðnaði

Carl hefur umsjón með nokkrum teymum sem nota þungavinnuvélar. Hann segir: „Ég dáist að því hvernig konunum hefur verið kennt að stjórna vinnuvélum. Við vissar aðstæður myndi ég velja konur frekar en karla með margra ára reynslu til að stjórna vélunum.“

Unnið við vél sem setur saman plaströr.

Þegar verkstjórar sýna að þeir styðja starfsfólkið, eykur það sjálfsöryggi þess. Therese stjórnar þungavinnuvélum og veit að í slíku starfi þarf maður að vera ábyrgðarfullur og hafa alltaf öryggið að leiðarljósi þegar ákvarðanir eru teknar. Therese segir: „Ég get gert mun meira þegar verkstjórinn styður mig og ég veit að mér er treyst. Það er erfiðisins virði að finna að vinnuframlag manns sé metið.“

Önnur kona sem heitir Abigail stjórnar skurðgröfum og ekur vörubílum. Hún kann að meta góða samvinnu og stuðning. „Karlmennirnir á byggingasvæðinu líta ekki niður á mig. Þeir eru hjálpfúsir án þess að reyna að gera allt fyrir mig. Þeir leyfa mér að taka við og klára verkið.“

Einbeittir og samviskusamir starfsmenn

Auk þess að stjórna ýmiss konar stórvirkum vinnuvélum, hafa konurnar í Chelsford fengið þjálfun í störfum eins og landmælingum, frágangi lóða, vélaviðgerðum og í að setja upp vinnupalla. Robert hefur unnið með konum við ýmiss verkefni. Hann segir að þær einbeiti sér að vinnunni, séu ákveðnar í að klára verkefnið og hugi vel að smáatriðum. Tom vinnur við landmælingar, hann bætir við: „Konurnar í mínu teymi eru nákvæmar og samviskusamar. Þær vilja hafa allt á nákvæmlega réttum stað.“

Því er engin furða að Fergus, sem er verkstjóri, hikar ekki við að segja: „Konur eiga vissulega erindi í byggingarvinnu.“

a The Considerate Constructors Scheme eru sjálfstætt starfandi samtök sem hafa það að markmiði að bæta ímynd byggingariðnaðarins í Bretalandi.